Jóhannes 9. kafli
Guð heyrir ekki bænir syndara, sögðu kallarnir
Fólk er dolfallið yfir Jesú og valdamennirnir ævareiðir. Og Jesús heldur áfram að segja sannleikann sem frelsar þau öll sem taka við honum. Ég þarf að nota tímann meðan hann gefst, sagði hann. Enn læknar hann mann á hvíldardegi. Það var maður sem fæddist blindur og Jesús gaf sjón. Það er margt sagt í kaflanum. Það að Jesús sagði að sjúkdómar væru ekki hefnd Guðs. Og það að valdamennirnir sögðu að Guð bænheyrði ekki syndara heldur guðrækna menn. Þeir þvertóku fyrir það að blindi maðurinn hefði verið guðrækinn. Það var af og frá af því að hann var í vinfengi við Jesúm. Skrýtið að þið skuluð ekki sjá hver hann er þegar þið sjáið og hann opnaði augu mín, sagði maðurinn. Þeir ráku hann af fundinum sem þeir höfðu boðað hann á, en Jesús hitti hann og maðurinn trúði á hann.