Þá fóru sum
Jesús sagði í þessu mikla samtali að þau sem tryðu á sig myndu eta hold sitt og drekka blóð sitt, vera í sér og hann í þeim, þau myndu hafa líf í sér og lifa fyrir sig. Það var kannski þetta sem sumum í hópnum hans ofbauð. Kannski. Alla vega fóru þau. Jesús vissi að þau myndu fara. Samt sagði hann þetta. Alveg eins og hann gekk fram af valdamönnunum þótt hann vissi að þeir myndu lífláta hann fyrir það. Allt er þetta okkur til djúprar umhugsunar. Við erum kölluð til að treysta Jesú, líka þegar við skiljum hann ekki. Hann er frá upphafi heimsins og hann kemur aftur og gerir allt nýtt. Hann er upphafið og endirinn. Hann veit hvað hann er að gera. Og hann tekur okkur með. Hann þekkir okkur og trúfesti okkar eða kæruleysi. Hvað skyldi það þýða að eta hold hans og drekka blóð hans. Ég gæti hugsað mér að það þýddi að við skulum treysta því að hann gaf líf sitt, hold sitt og blóð, í krossfestingunni og reis aftur upp til að gefa okkur frelsi í huga okkar og lífi og eilíft líf í lífi og dauða. Hvað heldur þú?
Skýringar Kvennakirkjunnar við Jóhannesaguðspjall munu smátt og smátt birtast hér (smellið á línuna)