Jóhannes 6. 16 – 21
Ekki vera hrædd
Og svo kom kvöldið eftir þessa miklu hádegisverðarveislu eða kvöldverð. Vinkonurnar og vinirnir voru búin að taka til eftir boðið og löbbuðu niður að vatninu til að taka bátinn heim. Þau áttu heima í bænum Kapernaum hinu megin við Tíberíastvatnið. Jesús bjó þar líka og þar var aðalmiðstöðin í starfinu til að byrja með. Hann varð eftir og kom ekki með í bátnum. Hin voru sjálfsagt uppgefin eftir daginn. Þau reru af stað og þurftu að taka hraustlega á þegar fór að hvessa og vatnið að æsast. Þá kom Jesús. Hann kom gangandi á vatninu. Og þau urðu hrædd. Þau höfðu séð hann gera lítinn nestispakka að mat handa miklum fjölda fólks. Þau höfðu séð hann lækna fólk. En þau höfðu aldrei séð hann ganga á vatni og þess vegna datt þeim ekki í hug að þetta væri hann. En þegar hann sagði þeim sjálfur að vera nú ekki hrædd urðu þau örugg. Alltaf örugg með honum.
Skýringar Kvennakirkjunnar við Jóhannesaguðspjall munu smátt og smátt birtast hér (smellið á línuna)