Er ekki gott að fá að hittast eftir sumarið? Við komum sem getum í messuna á sunnudaginn kemur og gætum vandlega að fjarlægðinni eins og við eigum að gera. Verðum samt nálægar.
Þökkum Guði fyrir blessun hennar nú sem alltaf. Þegar myrkrið umlykur okkur í haustinu er eins og alltaf næðið til að kveikja á lömpunum og hreiðra um okkur í kvöldværðinni sem við óskum hver annarri. Það er mikil gjöf að eiga ró hjartans og við biðjum hver fyrir annarri. Megir þú þiggja frið Guðs á þessum haustdögum svo að það sé bjart framundan hjá þér. Við vitum allar að við eigum möguleikana til að gleðjast og vera glaðværar og vitum hvað það hefur góð áhrif á okkur og hvað glaðværð okkar verður öðrum til góðs.
Þið frelsist fyrir afturhvarf og rósemi og styrkur ykkar er í þolinmæði og trausti. Það er góð tvenna að eiga bæði rósemi og glaðværð. Það læknar okkur og gefur okkur fögnuð í lækningu okkar. Svo að við eigum eins og áður kjarkinn til að njóta daganna sem Guð gefur okkur og efast engan veginn og aldrei um návist hennar og ást.
Blíðar kveðjur, Auður Eir