Hugsýki beygir fólk en vingjarnlegt orð gleður það. Þetta stendur í Orðskviðunum 12.25. Ég held það sé svo prýðilegt fyrir okkur að hugsa um það á þessum gleðidögum sem kirkjan kallar dagana eftir páska. Auðvitað á það við alla daga ársins og það er einmitt vegna hugsýki sumra daga sem getur mætt hverri manneskju sem það er undursamlegt að heyra um gleðina.
Gleðjumst og gleðjumst vegna þess að páskarnir færa okkur gleði á hverjum einasta degi, líka þeim sem eru allt annað en gleðilegir heldur dagar sorgar eða annars sem beygir okkur. Á þeim dögum reisir það okkur við að heyra vingjarnleg orð sem Guð segir sjálf við okkur og gefur öðrum til að gefa okkur
Páskarnir færa okkur örugga vissu um ást Guðs og styrk hennar og hjálp og nærveru allra daga. Hún sem skapaði allt og heldur alltaf áfram að skapa kom og varð manneskja eins og við. Hún var Jesús. Hann sem lifði daga sína við sömu kjör og við, í gleði og mótlæti eins og við, og gekk alla leið inn í dauðann eins og við gerum.
Nema hann gekk lengra. Hann gekk þangað sem við hefðum ekki komist ef hann hefði ekki farið þangað. Hann sigraði dauðann. Hann reis upp til nýs lífs. Og hann gefur okkur það nýja líf sem hann vann til að færa okkur öllum.
Syngjum um það á hverjum einasta degi. Syngjum sálm á dag. Jesús er upprisinn. Hann lifir. Hann er hjá okkur. Svo að gleðin er alltaf nærri, líka þegar við erum beygðar. Og við megum treysta því að við rísum alltaf alltaf upp til nýrrar gleði.
Blíðar kveðjur og gleðilega daga. Auður