Á sunnudaginn 29. september vígist Dr. Maria Leppäkari framkvæmdastýra Sænsku guðfræðistofnuninnar í Ísrael til prestsembættis hjá Lúthersku kirkjunni í Jórdaníu og landinu helga. Þetta eru tímamót í sögu kirkjunnar því hún verður fyrst kvenna til að vígast til kirkjunnar.
Þennan sama dag fyrir 45 árum vígðist sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir til Staðarprestakalls í Súgandafirði og verður þess minnst í guðsþjónustu Kvennakirkjunnar sunnudagskvöldið 29. sept. kl.20:00 í Neskirkju. Sjá kvennakirkjan.is.
Nú hafa 100 konur vígst til prestsembættis í Lúthersku Þjóðkirkjunni á Íslandi.
Tímarnir breytast. Og eins og Dr. Margot Kässmann, sem fyrst kvenna vígðist til biskups í Lúthersku kirkjunni í Hannover árið 1999, komst að orði um höft sem hún m.a. mætti: «Þar til árið 1977 misstu vígðar konur í Þýskalandi stöðu sína þegar þær giftust. Í Zambíu var þessu öfugt farið: Konur gátu ekki vígst nema þær væru giftar.»
Dr. Maria Leppäkari er okkur íslendingum að góðu kunn í gengum starf hennar hjá Sænsku guðfræðistofnuninni. Hún hefur tekið á móti hópum frá Íslandi, og eins kom hún til landsins í fyrra og hélt fyrirlestur á afmæli Prestafélags Vestfjarða um sáttargjörð en Maria er doktor í trúarlífsfélagsfræði með áherslu á trú, átök og ofbeldi.
Vígslubiskupinn sr. Kristján Björnsson og sr. Hildur Inga Rúnarsdóttir munu fara út til Jerúsalem og taka þátt í athöfninni. Við óskum söfnuðinum til hamingju með þennan áfanga og biðjum Mariu velfarnaðar í starfi.