Í dag 8. nóvember er árlegur dagur gegn einelti og kynferðislegri áreitni. Þessi dagur er tileinkaður baráttunni gegn ofbeldi í samfélaginu og aðgerðum gegn einelti.
Gott er að skoða þessi málefni frá ólíkum hliðum. Ég vil hér gera að umræðu einelti stúlkna gegn öðrum stúlkum og einelti kvenna gegn öðrum konum. Þetta málefni hefur legið í þagnargildi í stað þess að vera opnað og það skoðað hvernig þessi framkoma hefur áhrif á líf okkar kvenna, hegðun og viðbrögð.
Árið 2002 kom út bók sem heitir Odd Girls Out, the hidden culture of aggression in girls eftir Rachel Simmons. Þetta var fyrsta bókin sem var tileinkuð stelpum og ólíkamlegum átökum. Hún segir sögu gerenda og þolenda um kúgun stúlkna á öðrum stúlkun og áhrifum hennar á fullorðinsár kvenna. Þessi bók stendur enn fyrir sínu og er besta bókin um efnið.
Rachel Simmons lenti sjálf í einelti og kúgun af hendi annarrar stúlku sem heitir Abby þegar hún var 8 ára (1984). Hún gleymdi þessari reynslu ekki sem hafði truflandi áhrif á líf hennar. Hún þarfnaðist þess að fylla í eyðurnar og ákvað því 16 árum síðar (1990) að leita upplýsinga um málefnið. Á einni kvöldstund með sex vinkonum komst hún að því að þær hefðu einnig lent í einelti og kúgun af hendi Abbyar en þær hefðu alltaf haldið að þær væru þær einu sem í því lentu.
Það kom á daginn að lítið var að finna á bókasafninu um þetta efni en því meira um yfirgang drengja. Í þessu fátæklega efni var ekkert sem fjallaði um samskipti lík því sem hún hafði átt við Abby. Hún fór því að rannsaka málið upp á eigin spýtur, annars vegar með því að spyrja konur og hins vegar með því að fara í skóla og tala við stúlkur.
Simmons segir að þögn sé djúpt vafin inn í kvenlega reynslu. Það hafi ekki verið fyrr en upp úr 1970, með annarri bylgju kvennahreyfingarinnar, sem konur hafi byrjað að segja sannleikann um það sem væri sérkennandi fyrir líf kvenna, opnað umræðuna um nauðganir, sifjaspell, heimilisofbeldi og heilsu kvenna. Og árið 2002 segir hún að nú sé tími til að binda enda á enn eina þögnina. Falin menning um árásarhneigð stúlkna er til þar sem kúgun og einelti er faraldur, aðgreinandi og eyðileggjandi. Hún er ekki bein líkamleg eða orða hegðun eins og hjá drengjum. Kvennamenningin neitar stúlkum um aðgang að opnum átökum og ýtir árásarhneigð þeirra inn í ólíkamlegt, óbeint og falið form. Stúlkur nota baktal, útilokun, orðróm (kjaftasögur og kvitt), uppnefni og vélabrögð (manipulation) til að valda andlegum sársauka og ráðast á þolandann. Skaðinn er snyrtilegur og hljóður, gerandinn og þolandinn ósýnilegir. Ólíkt drengjum sem hafa tilhneigingu til að kúga kunningja eða ókunnuga, þá framkvæma stúlkur ofbeldið iðulega innan þröngs hóps vina, sem gerir erfiðara að greina árásahneigðina og magnar tjón þolandans. Innan þessarar földu árásarmenningar berjast stúlkur með táknmáli líkamans og samskipta í stað hnefa og hnífa. Í þessum heimi er vinskapur vopn og keðja hláturskalla fölna í samanburði við þögn einhvers. Það er engin framkoma meira eyðileggjandi en að snúa baki í einhvern segir Simmons.
Í hulinni menningu árása er reiðin sjaldan ljós. Á bak við yfirborð kvenlegrar vináttu liggur landssvæði þar sem ferðast er um í leynum, ferðalag sem markast af angist og nærist á þögn.
Þetta hefur ekki einu sinni verið kallað einelti eða kúgun heldur “það sem stelpur gera.” Þrátt fyrir þetta þekkja konur á öllum aldri til þessa atferlis. Næstum allar hafa annað hvort horft upp á þetta, eða verið þolendur eða gerendur. Svo margar konur hafa þjáðst þegjandi og reynt að gleyma. Þetta hefur löngum verið «hið skítuga leynarmál barnæskunnar» segir Simmons.
Flest fólk talar við börn um einelti með sama boðskapnum: « Ekki gera þetta. Verið góðar við hvor aðra.» Í viðtölum sínum opnaði Simmons umræðuna frá annarri hlið. Hún gerði ekki ráð fyrir að stúlkurnar ættu ekki að vera ómerkilegar og smásálarlegar, heldur að þær væru það, ekki að þær ættu að vera góðar heldur að þær væru ekki góðar.
Stúlkur sýna reiði á annan hátt. Árásarhneigð er e.t.v. líffræðileg en hvernig þú sýnir hana er lært atferli. Mikilvægi vinskapar og tengsla fyrir stúlkur og óttinn við einsemd (einangrun), leiðir til þess að margar stúlkur halda í eyðileggjandi vinskap, jafnvel á kostnað tilfinningalegs öryggis. Hins vegar meiða gerendur nána vini sem þeim þykir vænt um.
Simmons íhugaði missi sjálfstrausts sem stúlkurnar urðu fyrir í byrjun fullorðinsáranna. Stúlkur verða með árunum meðvitaðar um menninguna í kringum sig, þær eru þvingaðar inn í skyndilegt sambandsleysi við sjálfar sig. Hin sanna rödd þeirra, óttalaus geta þeirra til að tala hug sinn, áköf lyst þeirra í mat, leik og sannleika mun ekki lengur verða umborin. Til að ná árangri og verða félagslega samþykktar verða þær að tileinka sér kvenlegan stað – kynferðislegt, félagslegt, munnlegt og líkamlegt viðnám. Þær verða að afneita sinni eigin útgáfu af því sem þær sjá, vita og finna. Til að forðast höfnun verða þær að komast í hvítþvegin sambönd, forðast opinbera árekstra og verða fjötraðar í félagslegum reglum sem neita þeim um frelsi til að vita sannleikann um þær sjálfar, líkama sinn og tilfinningar. Það er hér í rýminu milli þess sem stúlkur vita hvað er satt og hvað þær verða að látast finna og vita með öðrum sem sjálfstraustið visnar og þornar upp. Tilfinningarnar hverfa af yfirborðinu og þær missa færnina að tala um ofbeldiskennd sambönd og þær tilfinningar að vera sárar og reiðar gagnvart annarri persónu.
Menning okkar hefur vanalega fagnað elskulegheitum stúlkna. Sögurnar sem Simmons heyrði þvinguðu hana til að líta nánar á sinn eigin ótta við átök, sérstaklega á þörf sína til að vera góða stúlkan. Stúlkum er ætlað að mótast og þroskast í það að veita umhyggju, hlutverk sem andstætt árásarhneigð. Íhugum ímyndina um góðu móðurina sem á að annast alla. Stúlkur eru í þjálfun til að hugsa um aðra. Árásarhneigð stofnar samskiptum í hættu, dregur úr möguleika stúlkna til að vera umhyggjusamar og góðar. Árásarhneigð grefur undan uppeldi þeirra. Að verða góðar merkir raunverulega: Engin árásarhneigð, engin reiði, engin átök.
Stúlkur eru meðvitaðar um þann menningarmun og þá tvöfeldni sem ríkir varðandi stúlkur og drengi. Reglurnar eru ólíkar fyrir drengina og stúlkurnar vita af því. Fyrir opinbera óskammfeilna árásarhneigð er refsað með félagslegri útskúfun.
Menning okkar takmarkar skilning okkar á árásarhneigð kvenna og vináttu og gerir það erfiðara fyrir stelpur að eiga við jafningjasambönd á heilbrigðan hátt. Simmons telur að árásarhneigð stúlkna sé ekki af heilum hug. Hún sé ófullnægjandi form samskipta, sem fullnægi ekki þörf manneskjunnar til að sýna reiði og þetta eigi ekki að vera eina valið fyrir stúlkur til að tjá hana. Við þurfum að hætta að verðlauna vélabrögð. Við þurfum að efla stúlkur í að taka virðingarverðum staðhæfingum opnum örmum og útvega þeim kynningu á árásagirni kvenna sem er hvorki tilfinningaleg né draumórar. Það er ekki nema hálf kveðin vísa að segja að einelti og kúgun orsakist af afbrýðisemi eða vanlíðan eltihrellisins (gerandans). Það verður að hjálpa þeim að vera sterkari, að elska sjálfa sig. Við þurfum að tala um átök og samskipti stúlkna. Sárin fylgja konum til fullorðinsáranna og móta viðhorf þeirra og atferli. Samfélag sem þekkir hina huldu menningu árásarhneigðar stúlkna mun valdefla þær, ekki aðeins til að semja í átökum heldur til að skilgreina samskipti á nýjan og heilbrigðan hátt. Stúlkur munu læra að samskipti er val en ekki fyrirmæli. Þær munu skilja að samskipti er valinn félagsskapur þar sem umhyggju og átökum eru miðlað á jákvæðan hátt. Átök munu ekki lengur verða upplifuð sem ofbeldi í samskiptum heldur það sem fylgir samskiptum. Átök munu ekki lengur vera læst úti frá samskiptum. Átakalaus samskipti eru ekki til. Að vita að átök eru tímabundin og samskipti og vinátta lifa þau af getur leitt til þess að stúlkur svari síður fyrir sig með því að stinga í bakið, með meðvirkni, með dómhörku, baktali, orðalausum merkjum o.s.frv. Þær munu eignast tugumál til að skilja hvað er um að vera og hvað er að gerast fyrir þær. Þegar stúlkur læra að standa á rétti sínum óbeint eða alls ekki, gera þær tilkall til valds á sama hátt sem fullorðnar konur. Þær geta orðið aðstoðarmenn í stað leiðtoga, vinna baksviðs í stað miðju sviðs, starfa sem staðgenglar og varaformenn í stað þess að vera yfirmenn og forsetar.
Sumar stúlkurnar sem Simmons talaði við urðu fyrir tilfinnalegri misnotkun af hendi nánustu vinkvenna sinna. Þær neituðu að gefa vinskap sinn upp á bátinn og börðust fyrir því að viðhalda sambandi sínu við gerandann. Þegar Simmons talaði við þessar stúlkur og aðrar þá gat hún ekki annað en spurt sig að því hvernig þær gátu verið í sambandi við stúlkur sem voru svona meiðandi. Viðbrögð þeirra hljómaði oft eins og kvenna sem höfðu verið barðar. Hún var minnt á hvernig konur neita að yfirgefa eiginmenn sína sem misnotuðu þær af ótta við að lifa einar eða vegna þess að hann baðst afsökunar. Ef okkur er annt um að kenna stúlkum heilbrigð samskipti þá er mikilvægt að við stuðlum að meðvitund um undirgefni og árásarhneigð í samböndum stúlkna. Þegar misnotkun er án orða og þegar ekki er hægt að orða almennilega reiðina munu stúlkur ekki þróa með sér færni til að orða hvað sé að gerast eða að fjarlægja sig úr eyðileggjandi umhverfi. Afleiðing þessa getur orðið til þess að stúlkur læri og tileinki sér undirgefna hegðun, ótruflaðar, sem fylgir þeim inn í náin sambönd sem fullorðnar konur. Með öðrum orðum mun sú vöntun að þekkja ekki misnotkun, ekki takmarkast við barndóminn heldur fylgja þeim til fullorðinsáranna. Vitundin um þessa hegðun er bráðnauðsynleg til að stoppa misnotkun minni máttar eins fljótt og hægt er.
Eigum við að kenna stúlkum að vera árásarhneigðar? spyr Simmons. Já, segir hún. Við eigum að kenna stúlkum að eiga við sóðalegar tilfinningar eins og afbrýðisemi, samkeppni og reiði þá munu þær vera ólíklegri til að taka þær út í samskiptum við aðra. Þær munu ekki hika við að játa sterkar tilfinningar og þær munu verða í tengslum við sjálfar sig. Þær munu verða ólíklegri til að þróa með sér tilfinningar sem munu í tímans rás synda inn í æði vægðarleysis og grimmdar.
Óútsýranleg árásargirni og missir setja mark sitt á konur alla ævi. Áhyggjur af því að það dyljist alltaf eitthvað lag af sannindum undir yfirborði af velvilja og yndislegheitum getur skilið stúlkur eftir í varanlegri óvissu um hverju þær geti treyst í öðrum og sjálfum sér og mótað fullorðinsárin.
Þegar við getum orðið sammála um að viðkunnalegar stúlkur verða reiðar og að góðar stúlkur eru stundum slæmar höfum við plægt hina félagslegu eyðimörk milli þess að vera góðar og vera tíkur.
Í framhaldi af þessari umræðu um stúlknamenningu sem konur hafa verið aldar upp við má velta fyrir sér mörgum spurningum m.a. hvernig við bregðumst við líkamlegu ofbeldi þegar slíkt hendir? Verður bæld árásarhneigð til þess að við látum slíkt yfir okkur ganga í stað þess að bregðast við? Getur hin hulda kvennamenning verið ástæðan fyrir því að færri konur eru í stjórnunarstöðum og hafa lægri laun? Erum við meðvitaðar um hversu margar fullorðnar konur eru meiddar og í sárum eftir reynslu af hinni huldu ofbeldiskenndu menningu kvenna? Erum við meðvitaðar um stúlknamenninguna sem fylgir okkur til fullorðinsárana og það ofbeldi sem við verðum fyrir af hendi kvenna dagsdaglega? Erum við meðvitaðar um eineltið, kúgunina, ofbeldið og áreitið sem við verðum fyrir af hendi kvenna?k Er ekki kominn tími til að tala upphátt um málið, ræða það og stoppa þær stúlkur og konur af sem beita slíkri neikvæðri hegðun? Já að tala um árásarhneigð kvenna og koma henni í heilbrigðan farveg. Hættum að ala stúlkur upp til að vera umönnunaraðila og góðar stúlkur. Ölum þær upp til heilbrigðis og virðingar og vissu um að þær séu Guðs góða sköpun. Nóg er nú samt sem við konur þurfum að afkóða í feðraveldinu.
Við konur þurfum að opna og rýna í okkar eigin menningarheim til að auka okkur víðsýni. Breytum samfélaginu til hins betra eins og yfirskrift Kvennafrídagsins 2018 hljómaði.
Hulda Hrönn M Helgadóttir prestur Kvennakirkjunnar.