Postulasagan er frásagan af því hvernig fagnaðarerindið barst út um heiminn strax á fyrstu öldinni. Höfundurinn er Lúkas læknir sem skrifaði Lúkasarguðspjall en Postulasagan er framhald þess. Hún byrjar þar sem guðspjallið endar. Lúkas ferðaðist með Páli og segir mest af starfi hans en líka frá starfi Péturs og Jóhannesar. Hann segir frá nokkrum konum sem sumar voru forystukonur. Postulasagan er afar spennandi saga um ferðalög og margskonar átök, ofsóknir og þrautseigju en fyrst og fremst um fögnuð í trúnni á upprisinn Jesúm Krist og mátt heilags anda Guðs sem kom í Jesú. Hún segir frá söfnuðunum sem urðu til í heimalandinu og út um veröldina og þá meistaralegu lausn sem fannst á fyrirkomulagi starfsins.
Postulasagan segir frá nýjum möguleikum
Postulasagan er saga um fögnuð kristinnar trúar og boðun hennar og um átök um það sem var á seyði utan kirkjunnar og innan hennar. Boðberarnir voru fólkið sem hreifst af trúnni og gerði hana að grundvelli lífs síns. Það hélt hópinn í mikilli samheldni og þegar þau voru ofsótt dreifðust þau og stofnuðu söfnuði þar sem þau settust að. Þau héldu áfram að standa saman. Í upphafi voru þau flest Gyðingar og boðuðu fagnaðarerindið í samkomuhúsum þjóðar sinnar sem voru víðast hvar um alla veröldina. Margt fólk utan gyðingdómsins laðaðist að gyðingdómnum og hreifst svo af kristninni. Samkomuhúsin auðvelduðu útbreiðsluna og líka vegalagnir Rómverjanna um allt hið stóra rómverska ríki, rómversku lögin og friðargæslan, trúfrelsið og grísk tunga sem var töluð allsstaðar auk ýmissa tungumála.
Postulasagan segir líka frá nýjum átökum
Trúin á Jesúm Krist krossfestan og upprisinn var aðalatriði trúarinnar. Hún olli engum deilum innan safnaðanna. Heldur ekki þegar fólk utan gyðingatrúarinnar vildi ganga í kirkjuna. Þá var samþykkt að það fólk þyrfti ekki að fylgja siðum gyðingatrúarinnar, umskurn, sabbatshefðum, mataræði og fórnum, heldur taka milliliðalaust á móti trúnni á Jesúm Krist. En trúin á upprisu Jesú olli miklum deilum við Gyðingana. Gyðingarnir hlutu að snúast gegn fagnaðarerindinu eins og fólki gerði þegar Jesús boðaði það sjálfur. Þau sáu ekki að fagnaðarerindið um að Jesús var opinberun Guðs og aðalatriði Ritningar þeirra. Trúfestin við fagnaðarerindi kirkjunnar um upprisuna olli ofsóknum Rómverjanna. Rómverska ríkið veitti öllum trúfrelsi en krafðist hollustu við ríkið og tilbeiðslu keisarans. Hvorki Gyðingar né kristið fólk vildi tilbiðja keisarann en kaus frekar að þola ofsóknir. Kirkjan átti lika i átökum vegna ýmissa trúarbragða í kringum sig, stjörnuspádóma, andasæringa og leynifélaga. Fólk laðaðist að kristninni af því að það leitaði að dýpri trú, líka dýpri en trúnni á fjölmarga guði Grikkja og Rómverja sem mörgum þótti ekki langur traustsverð.
Svipaðar atburðir gerast aftur og aftur
Sagan sem Postulasagan segir hefur endurtekið sig í ýmsum myndum í sögu kirkjunnar. Það hlýtur alltaf að vekja spurningar hvernig á að bregðast við breytingum. Nýjar hugmyndir og skilningur koma fram og sum hrifast og sannfærast en önnur standa á móti. Báðir hópar taka ákvarðanir vegna sannfæringar sinnar, alveg eins og bæði Gyðingarnir og kristin kirkja boðuðu trúna á einn Guð eftir einlægri sannfæringu. Hóparnir gátu ekki átt samleið þegar leið á vegna þess að kirkjan boðaði trúna á upprisu Jesú Krists. Kirkjan í samtíma okkar mætir margvíslegum trúarbrögðum eins og kirkjan á fyrstu öldinni. Stefnur eru að breytast, kirkjan berst á móti sumum trúarbrögðum en efnir til samtals við önnur í gagnkvæmum skilningi og velvild. Mér þykir best að vitna til niðurstöðu kvenna á ráðstefnu um mismunandi trú sína: Við ætlum ekki að fá hver aðra til að skipta um trú og við ætlum ekki að stofna nýjan hóp eða blandast i eitthvað annað. Við ætlum að tala saman um það sem er ólíkt með okkur og það sem sameinar okkur.