Gleðileg Jól! Jólaguðþjónusta Kvennakirkjunnar fellur niður

Um leið og við óskum ykkur gleðilegra jóla og alls hins besta á helgum tímum tilkynnum við að vegna ástandins í samfélaginu fellur jólaguðþjónusta Kvennakirkjunnar niður. Sjáumst sæl á nýju ári.

By |25 desember 2021 11:34|Fréttir|

Gleðileg Jól!

GLEÐILEG JÓL

Guð gefi okkur öllum gleðileg jól. Með frið í hjarta okkar, eftirvæntingu eftir því sem
bíður okkar og þakklæti fyrir það sem er liðið.  Það er gott að hugsa við kertaljósin.  Þá finnum við friðinn sem umlykur okkur einmitt núna.  Núna á þessari aðventu og þessum jólum.  Kannski hugsum við um það sem hafði áhrif á okkur einu sinni, það sem var gott og það sem var ekki verulega gott.  Það hefur áhrif á okkur núna.  Og á það sem við gerum á árinu sem bíður eftir því að við sláumst í hópinn.  Er ekki gott að segja það við sjálfar okkur að það sem var ekki gott er búið? Það er farið.  Guð tók hugsanirnar um það frá okkur.  En það sem var gott er ekki farið.  Guð geymir það fyrir okkur og gefur okkur minningarnir.  Þess vegna er gott að eiga friðinn núna, djúpan og yndislegan.  Og vænta góðrar framtíðar.  Það er allt gjöf Guðs vinkonu okkar sem elskar okkiur.  Hún elskar fólkið okkar nær og fjær og gætir að því. Hugsum hver til annarrar og biðjum hver fyrir annarri.  Tökum einu sinni enn á móti jólagleði Guðs.  Það er yndislegt.

Gleðileg jól og blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |15 desember 2021 21:46|Fréttir|

Biblíulestrarnir

Margar okkar lesa nýju bækurnar okkar.  Sumar kjósa sína eigin röð og byrja kannski á Gamla testamentin eða Postulasögunni.  Við gerum þetta allar nákvæmlega eins og við viljum.  Það er svo gott að vita að sumar lesa heima á eigin spýtur en fylgjast með okkur sem hittumst og tölum saman í Þingholtsstræti á mánudagskvöldunum.  Við allar kristnar konur um alla veröldina þurfum að lesa Biblíuna saman, segja kvennaguðfræðingarnir sem hófu lesturinn á síðustu öld og gengu í fótspor kvennanna sem fóru á undan.  Þær segja að með því að lesa sjáum við að Biblían er auðlegð okkar.  Biblían er auðlegð okkar.  Yndisleg orð.  Finnst þér það ekki?  Þökkum hver annarri fyrir samstarfið nær og fjær.

By |13 desember 2021 21:44|Fréttir|

Aðventuguðþjónusta í Grensáskirkju

Aðventuguðþjónusta í Grensáskirkju

Sunnudagskvöldið 12. desember kl. 20.00 verður aðventuguðþjónusta Kvennakirkjunnar í Grensáskirkju. Séra Dalla Þórðardóttir á Miklabæ flytur okkur hugvekju og við
 syngjum um eftirvæntinguna og hlustum í kyrrð og friði á hljómlist Önnu Siggur Elínar Þallar og Ragnheiðar Ragnars. Aðalheiður Þorsteinsdóttir stjórnar söngnum.  Drekkum kaffi og tölum saman í gleði hjarta okkar. Verum innilega velkomnar hver til annarrar.

By |10 desember 2021 19:14|Fréttir|

Samvera okkar á mánudögum

SAMVERAN OKKAR Á MÁNUDÖGUM er milli klukkan hálf fimm og sex
í stofum okkar í Þingholtsstræti 17

Við höldum áfram að lesa Markúsarguðspjall eftir nýju bókinni okkar Kaffihús vinkvenna Guðs.

Við höfum verið á ferðinni til að færa öllum kvennakirkjukonum bókina að gjöf frá okkur öllum
til að þakka fyrir trúfesti  og ómetanlegan stuðning. Nýjar kvennakirkjukonur hafa bæst í hópinn

Sumar vilja frekar lesa heima heldur en að koma á mánudögum og við erum allar
einn yndislegur hópur.

By |12 nóvember 2021 22:19|Fréttir|

Guðþjónusta Kvennakirkjunnar í Seltjarnarneskirkju

Við höldum guðþjónustu í Seltjarnarneskirkju sunnudaginn 14. nóvember kl. 20:00
Við höldum guðþjónustuna saman eins og alltaf.
Aðalheiður Þorsteinsdóttir stjórnar söngnum og séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir prédikar.

Drekkum kaffi og tölum saman.
Þær sem sjá sér fært að koma með kaffibrauð fá alúðarþakkir.
Sjáumst í Seltjarnarneskirkju.

By |10 nóvember 2021 22:05|Fréttir|

Mánudagssamvera í Þingholtsstræti

Á mánudaginn kemur lesum við 3. kaflann hjá Markúsi. Jesús velur postula úr hópnum sem fylgir honum.  Hann valdi bæði konur og menn.  Þau höfðu öll sömu ábyrgð og rétt.  Jesús braut reglurnar sem giltu um konur í landinu og heiminum og gaf okkur nýja stöðu.  

Kvennaguðfræðingarnir á síðustu öld deildu um kristna trú.  Þær sögðu sumar að hún væri trú á karlguð í þreföldu valdi og væri óbærileg og skammarleg fyrir konur.  Þær yfirgáfu hana sjálfar og sögðu að það gerði konur að aumingjum að vera alltaf að biðja Guð í staðinn fyrir að treysta sjálfum sér.  Hinar sögðu að Biblían væri auðlegð kvenna og segði frá kristinni trú sem boðaði þeim frelsi og fögnuð.  Þær sögðu að Biblían segði frá ást Guðs til kvennanna sem voru skelfilega kúgaðar.  Og frá ást hennar til allra kvenna og allra manna og barna.  Biblían segir okkur frá ást Guðs til okkar núna.  Hvað segir þú,  kæra vinkona?  

Hittumst á mánudaginn þær sem viljum.   Lesum allar saman þótt við komum ekki.  Af því að Biblían er auðlegð okkar. Hún segir okkur frá sjálfum okkur.  Og Guði sjálfri.  Ekkert smá.  Ég bara meina það.  Blíðar kveðjur, Auður Eir

By |30 október 2021 12:52|Fréttir|

Mánudagshópurinn les 2. kafla hjá Markúsi

Kæru vinkonur.  Í dag, 25. október lesum við 2. kaflann hjá Markúsi.  
Jesús er fluttur.  Kominn í hús í Kapernaum, stærri borg en Nasaret.  Það er ekkert minnst á fjárhaginn svo þau hafa ráðið við peningamálin.  Seinna er sagt að konur í hópnum lögðu fram fé og buðu í mat og fleiri gerðu það.  

Markús segir strax frá því sem varð daglegt brauð í hópnum.  Jesús safnar til sín fólki og gefur því undursamlegan boðskap sem breytir lífinu og læknar huga og líkama.  Hann reynir að fá landstjórnina til að sjá að sér.  Stjórnin var samsett af fræðimönnum trúarinnar en yfir þeim voru Rómverjarnir sem ríktu yfir landinu og höfðu heimsfrægt lagasafn en líka óheillavænlegar hugmyndir.

Ekki drottna yfir fólkinu með hugmyndum ykkar um það sem Guð er að segja, sagði Jesús við færðimennina.  Ekki heimta að fólkið fari eftir öllum þessum smásmugulegu og misskildu hugmyndum ykkar.  Opnið augun og sjáið að Guð talaði allaf um óendanlega ást sína sem hún vildi gefa okkur öllum svo að líf okkar yrði gott og fallegt og við yrðum kjarkmiklar og glaðar manneskjur.  Ég er ekki kominn til að tala við þau sem setja sín eigin lög heldur þau sem vilja taka á móti því sem ég gef þeim.  Ég breyti lífi þeirra, fyrirgef þeim allt sem fór úrskeiðis í lífi þeirra og gef þeim nýtt hugrekki og kærleika.  

Markús skrifar um þetta í öllu guðspjallinu:  Landstjórnin sér ekki boðskap Guðs fyrir öllu því sem hún er sjálf búin að setja upp sem boðskap Guðs.  

Við skulum tala um það sem við höfum kannski sett upp til að gera að markmiði lífs okkar.  Tölum um breytingarnar sem Guð hefur gefið okkur í okkar eigin lífi.  Hvað segirðu?  Blíðar kveðjur, […]

By |25 október 2021 16:47|Fréttir|

Mánudagssamverur með Markúsi

Við lásum fyrsta kaflann hjá Markúsi í mánudagssamverunni okkar.  Við slógum því föstu að Jesús hafi gert bæði konur og menn að postulum.  Rök:  Það sést á upptalningu postulanna í öllum guðspjöllunum að þeir voru ekki bara tólf heldur fleiri.  Guðspjallamennirnir skrifuðu um konur sem Jesús fékk til að vinna með sér.  Það var ekki siður þá að skrifa um konur og þær voru réttindalausar og lítils metnar í þjóðfélaginu.  Það að guðspjallamennirnir töluðu um þær sýnir að þær voru mikilvægar í hópnum hjá Jesú.  Þær  hafa verið miklu fleiri en þær sem þeir nefna.  Þess vegna megum við vera handvissar um að það voru líka konur í síðustu kvöldmáltíðinni.  Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |19 október 2021 19:00|Fréttir|

Verum innilega velkomnar til að lesa Markúsarguðspjall

VERUM INNILEGA VELKOMNAR TIL AÐ LESA MARKÚSARGUÐSPJALL

Mér finnst ekki sem verst að skrifa stuttan kafla fyrir hverja mánudagssamveru bæði fyrir okkur sem komum og ykkur sem lesið heima.  Lesum og lesum og sjáum hvað við sjáum.  Ef þið sem komið ekki viljið tala um eitthvað úr köflunum gætuð þið skrifað til mín á netfangið audureir@ismennt.is eða kvennakirkjan@kvennakirkjan.is.   Þá hugsa ég og hugsa og hugsa um það sem þið skrifið og skrifa til baka.

Við erum að færa ykkur, elskulegu Kvennakirkjukonur bókina núna um helgina. Þið aðrar sem viljið vera með getið keypt bókina  í Þingholtsstræti 17,   hún kostar 5000 krónur og við afhendum hana eftir samkomulagi,  skrifið okkur bara á netfangið audureir@ismennt.is og við hittumst.  

Ég reikna með að við sem komum á mánudögum séum búnar að lesa og tilbúnar  til að tala saman.  Lesum nú Fyrsta kaflann.  

Guðspjöllin bæta frásögum hvert við annað og ég vitna í það sem Matteus segir um ólíkar aðferðir í starfinu,  leið Jóhannesar skírara og leið Jesú sjálfs.  Boðskapurinn er alltaf eins. 
En það er hægt að boða hann á ýmsan hátt.  Það eru ekki reglur um það.  Hvað segirðu?

Haldið þið að fjandinn hafi sjálfur hitt Jesúm eða var hann að berjast við sjálfan sig?  
Eða skiptir það eitt máli að við skulum ekki láta plata okkur heldur treysta Guði til að hjálpa okkur til að gefast ekki upp heldur ná tökum á hugsunum okkar?  Eða ?  Hvað finnst þér?  Er það ekki alla vega stórkostlegt að eiga hjálp Jesú við að velja lífið eins og Biblían segir víða?

Hvað finnst þér um fullyrðinguna um að Jesús hafi líka haft konur í hópnum og það bara strax? 

Það gerast enn kraftaverk.  Er það ekki?

Hvað finnst þér annars?

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |15 október 2021 19:26|Fréttir|