Kvennaguðfræðin hefur elft kirkjuna og íslenskt samfélag

Við vígsluna í Dómkirkjunni í gær sagði Agnes biskup að um  merkisatburð væri að ræða þar sem í fyrsta sinn væri prestur vígður til að sinna sérstaklega þjónustu við konur í kirkjunni.  Í yfirlýsingu sem hún setti á heimasíðu sína www.biskup.is sagði hún  jafnframt að með vígslu prests Kvennakirkjunnar væri lögð áhersla á mikilvægi kvennaguðfræði og jafnréttis kynjanna fyrir kirkju framtíðarinnar á Íslandi. Kvennakirkjan fagnar þessum orðum biskups og tekur heilshugar undir þau. Agnes sagði m.a.
Í fyrsta sinn hefur prestur verið vígður til að sinna sérstaklega þjónustu við konur í kirkjunni.  Sr. Arndís G.  Bernhardsdóttir Linn mun þjóna í Kvennakirkjunni, sem hefur starfað í  20 ár sem sjálfstæð samtök á vettvangi þjóðkirkjunnar. Kvennakirkjan  hefur rannsakað og iðkað kvennaguðfræði, en kvennaguðfræði er guðfræði  sem konur skrifa um vináttu Guðs í lífi þeirra.  Kvennaguðfræðin hefur  eflt kirkjuna og íslenskt samfélag og mun halda áfram að gera það í  framtíðinni. Kvennaguðfræðin og jafnrétti kynjanna eru málefni  framtíðar en ekki bara fortíðar. Þó margt hafi áunnist í  jafnréttismálum og varðandi rétt og möguleika kvenna er jafnrétti ekki  náð. Stöðugt þarf að vinna áfram á þessum vettvangi og með vígslu  prests Kvennakirkjunnar er lögð áhersla á mikilvægi þessa málaflokks fyrir kirkju framtíðarinnar á Íslandi. Sr. Arndís hefur bæst í þann hóp presta er hafa á hendi sérþjónustu í kirkjunni eða hjá félagasamtökum. Fyrst um sinn verður þjónusta hennar sjálfboðin en  vonandi verður prestsþjónusta Kvennakirkjunnar launuð þegar fram líða  stundir.
Hér má lesa frétt um atburðinn á heimasíðu biskups Íslands

By |16 júlí 2013 14:54|Fréttir|

Arndís vígð til starfa í Kvennakirkjunni

Sunnudaginn 14. júlí var Arndís G. Bernhardsdóttir Linn guðfræðingur vígð til starfa í Kvennakirkjunni. Biskup Íslands séra Agnes M. Sigurðardóttir vígði, vígsluvottar voru séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir prestur Kvennakirkjunnar og séra Ragnheiður Jónsdóttir prestur í Mosfellsbæ. Arndís mun sinna starfinu í Kvennakirkjunni í sjálfboðavinnu eins og aðrar Kvennakirkjukonur en hún starfar hjá Lágafellssókn sem kirkjuvörður og meðhjálpari og sér einnig um heimasíðu, barnastarf og fleira.

Arndís er fædd árið 1970 og alin upp í Mosfellsbæ. Hún lauk stúdentsprófi frá MR árið 1990 og vann í Þýskalandi á árunum 1991 til 1992. Þegar heim kom fór hún að vinna við myndvinnslu hjá Hans Petersen enda með mikinn ljósmyndaáhuga og vann þar í fjörgur ár. Haustið 1996 stundaði hún nám í þýsku við Háskóla Íslands. Arndís er gift Hilmari K. Friðþjófssyni vélfræðingi og eignuðust þau dótturina Sigríði Maríu í janúar 1997 og soninn Bernhard Linn í ágúst 1998. Arndís var heimavinnandi húsmóðir til ársins 2003 þegar hún ákvað að hefja nám í guðfræði við Háskóla Íslands og útskrifaðist sem guðfræðingur vorið 2008. Kjörsviðsritgerð hennar í trúfræði heitir Glíman við Guð og þjáninguna. Guðsmyndir og trúvörn í ljósi femínískrar guðfræði. Arndís hefur einnig stundað nám í sálgæslufræðum við Endurmenntun HÍ og lært kristna íhugun. Hún hefur tekið virkan þátt í sjálfboðastarfi með kvennasamtökunum POWERtalk International sem leggja áherslu á einstaklingsmiðaða þjálfun í tjáningu, leiðtogaþjálfun og fleiru. Einnig hefur hún sinnt sjálfboðinni vinnu á vettvangi kristinnar íhugunar og setti upp heimasíðu þeirra.

Kvennakirkjan fagnar því að fá Arndísi til starfa við hlið séra Auðar Eirar sem verður áfram prestur Kvennakirkjunnar eins og áður. Arndís hefur þegar lagt fram mikla vinnu við gerð nýrrar heimasíðu Kvennakirkjunnar og vann það starf af mikilli alúð og áhuga. Vígsla Arndísar er merkisatburður í tuttugu ára […]

By |15 júlí 2013 13:18|Fréttir|

Nýr prestur Kvennakirkjunnar vígist

Nýr prestur Kvennakirkjunnar, Arndís G. Bernhardsdóttir Linn,  verður vígð í Dómkirkjunni sunnudaginn 14. júlí klukkan 11.
Við gleðjumst og fögnum þessum merku tímamótum í sögu Kvennakirkjunnar. Athöfnin er  öllum opin og eru Kvennakirkjukonur sérstaklega boðnar velkomnar að vera viðstaddar vígsluna og fagna þessum gleðilega atburði.

By |9 júlí 2013 11:33|Fréttir|

Guðsþjónusta í Laugardalnum

Guðþjónustan í Laugardalnum hinn 19. júní var yndisleg að vanda í umsjá fjölda kvenna sem hlustuðu á Orð Guðs, sungu og báðu.  Konur frá Kvenréttindafélaginu og Kvenfélagasambandinu tóku þátt í messunni eins og fyrr og kvennakirkjukonur tóku þátt i hátíðahöldum þeirra fyrr um daginn.  Á eftir var kaffi í Café Flóru og samtal og samvera langt fram eftir kvöldi.  Kvennakirkjan bauð í vöfflukaffi í Þingholtsstræti kvöldið eftir sem  var eins skemmtilegt og vöfflukaffi hljóta að vera  á sumarkvöldum í Þingholtunum.

Kvennakirkjukonur hafa tekið þátt í sumarguðþjónustum úti á landi, á Ísafirði og Akureyri og í Vestmannaeyjum heimsóttu kvennkirkjukonur Sigríði okkar Kristjánsdóttur og tóku með henni þátt í göngumessu á Goslokahátíðinni.

By |6 júlí 2013 18:18|Fréttir|

Kynning á Kvennakirkjunni – með vöfflum

Kvöldkaffi með vöfflum – kynning á Kvennakirkjunni verður fimmtudagskvöldið 20. júní kl. 20 í stofum Kvennakirkjunnar í Þingholtsstræti 17. Segjum frá guðfræði og daglegu starfi. Örstutt kynning verður á fyrsta námskeiði komandi hausts með frásögn
af frumkvöðli nútíma stjórnunar, Mary Parker Follett. Spjöllum, syngjum og biðjum saman

By |20 júní 2013 10:09|Fréttir|

Ný vefsíða Kvennakirkjunnar

Í dag 19. júní er ný heimasíða Kvennakirkjunnar formlega tekin í notkun. Hún flytur sama boðskapinn og gamla síðan, en hefur nýtt yfirbragð. Síðan er einföld og aðgengileg og á henni má finna allar helstu upplýsingar um Kvennakirkjunna, fréttabréf, prédikanir, bænir og sálma. Arndís Linn, guðfræðingur, hafði umsjón með uppsetningunni.

By |19 júní 2013 0:41|Fréttir|

Messa við Þvottalaugarnar í Laugardal

Kvennakirkjunn heldur guðþjónustu við Þvottalaugarnar í Laugardal miðvikudaginn 19. júní kl. 20 í samvinnu við Kvenréttindafélag Íslands og Kvenfélagasamband Íslands. Séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir  prédikar. Ásdís Þórðardóttir leikur á trompet. Anna Sigríður Helgadóttir syngur einsöng. Kór Kvennakirkjunnar leiðir sönginn við undirleik Aðalheiðar Þorsteinsdóttur.

By |17 júní 2013 14:36|Fréttir|

Konur sem þjónandi leiðtogar

Í tilefni af kvennadeginum, miðvikudaginn 19. júní verður haldið seminar kl. 10-12 um kvenréttindakonur og leiðtogafræði í húsnæði Kvennakirkjunnar, Þingholtsstræti 17.

Seminarið leiðir dr. Carolyn Crippen, sem hefur sérhæft sig í sögu vestur-íslenskra kvenna og leiðtogafræðum, sér í lagi þjónandi forystu. Hún mun tala um hvort tveggja, en einnig hefur hún stundað rannsóknir á sviði menntamála.

Eftir seminarið er á döfinni að sameinast í hádegisverði á Hannesarholti.

By |10 júní 2013 22:02|Fréttir|

Guðsþjónusta í Garðakirkju á Álftanesi

Næsta guðsþjónusta Kvennakirkjunnar verður í Garðakirkju á Álftanesi. Sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir prédikar og kór Kvennakirkjunnar leiðir söng undir stjórn Aðalheiðar Þorsteinsdóttur. Boðið verður til kaffisamsætis á eftir.

By |4 maí 2013 16:31|Fréttir|

Biblíulestrar á mánudagskvöldum í Þingholtsstræti

Á mánudagskvöld næstu þrjú mánudagskvöld, 22. og 29 apríl og 5. maí verða Biblíulestrar á mánudagskvöldum í húsakynnum Kvennakirkjunnar Þingholtsstræti 17.  Umræðan verður um djúpa guðfræði krossins og upprisunnar sem er undirstaða daglegrar gleði okkar.

By |16 apríl 2013 21:09|Fréttir|