Arndís vígð til starfa í Kvennakirkjunni
Sunnudaginn 14. júlí var Arndís G. Bernhardsdóttir Linn guðfræðingur vígð til starfa í Kvennakirkjunni. Biskup Íslands séra Agnes M. Sigurðardóttir vígði, vígsluvottar voru séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir prestur Kvennakirkjunnar og séra Ragnheiður Jónsdóttir prestur í Mosfellsbæ. Arndís mun sinna starfinu í Kvennakirkjunni í sjálfboðavinnu eins og aðrar Kvennakirkjukonur en hún starfar hjá Lágafellssókn sem kirkjuvörður og meðhjálpari og sér einnig um heimasíðu, barnastarf og fleira.
Arndís er fædd árið 1970 og alin upp í Mosfellsbæ. Hún lauk stúdentsprófi frá MR árið 1990 og vann í Þýskalandi á árunum 1991 til 1992. Þegar heim kom fór hún að vinna við myndvinnslu hjá Hans Petersen enda með mikinn ljósmyndaáhuga og vann þar í fjörgur ár. Haustið 1996 stundaði hún nám í þýsku við Háskóla Íslands. Arndís er gift Hilmari K. Friðþjófssyni vélfræðingi og eignuðust þau dótturina Sigríði Maríu í janúar 1997 og soninn Bernhard Linn í ágúst 1998. Arndís var heimavinnandi húsmóðir til ársins 2003 þegar hún ákvað að hefja nám í guðfræði við Háskóla Íslands og útskrifaðist sem guðfræðingur vorið 2008. Kjörsviðsritgerð hennar í trúfræði heitir Glíman við Guð og þjáninguna. Guðsmyndir og trúvörn í ljósi femínískrar guðfræði. Arndís hefur einnig stundað nám í sálgæslufræðum við Endurmenntun HÍ og lært kristna íhugun. Hún hefur tekið virkan þátt í sjálfboðastarfi með kvennasamtökunum POWERtalk International sem leggja áherslu á einstaklingsmiðaða þjálfun í tjáningu, leiðtogaþjálfun og fleiru. Einnig hefur hún sinnt sjálfboðinni vinnu á vettvangi kristinnar íhugunar og setti upp heimasíðu þeirra.
Kvennakirkjan fagnar því að fá Arndísi til starfa við hlið séra Auðar Eirar sem verður áfram prestur Kvennakirkjunnar eins og áður. Arndís hefur þegar lagt fram mikla vinnu við gerð nýrrar heimasíðu Kvennakirkjunnar og vann það starf af mikilli alúð og áhuga. Vígsla Arndísar er merkisatburður í tuttugu ára […]