Ritröð Kvennakirkjunnar

Stofur okkar  í Þingholtsstræti eru þaulvanar útgáfustofur. Þar gaf Þorsteinn Gíslason ritstjóri út blöð og bækur.   Svo við vitum eitthvað um hann þá bjó hann í húsinu og sálmurinn um liljuna er  frá honum og líka kvæðið Ljósið loftið fyllir.    Nú njótum við þess  hæfileikaríka og þrautþjálfaða andrúmslofts sem andar  frá öllum veggjum.   Við gáfum hér út bók okkar Bakarí Guðs  á síðast liðnu ári. Nú höfum við gefið út Fyrsta hefti  í Ritröð Kvennakirkjunnar. Heftið heitir Vertu leiðtogi í þínu eigin lífi og er um ráðleggingar Fjallræðunnar til daglegs brúks.  Það er nú námskeiðsefni á fyrsta námskeiði haustsins þar sem 12 konur lesa það saman.   Næsta hefti verður  um guðþjónustur okkar. Aðallheiður Þorsteinsdóttir söngstjóri okkar er prentsmiðjustjóri.

By |31 október 2013 22:28|Fréttir|

Ólafíuhátíð – Frá myrkri til ljóss 22. október á Grand Hótel

Morgunverðarfundur til minningar um Ólafíu Jóhannsdóttur verður haldinn á Grand Hótel 22. október kl. 8:15 – 10:30 en Ólafía var fædd þennan dag árið 1863 og því eru 15o ár frá fæðingardegi hennar. Fundarstjóri er Edda Ólafsdóttir. Verð er kl. 2300 fyrir morgunverðinn og fer skráning fram á netfanginu felagsradgjof(hja)felagsradgjof.is. Dagskráin verður sem hér segir:

Kl. 8:10 Skráning og morgunverður

Kl. 8:30 Setning, Edda Ólafsdóttir, félagsráðgjafi mannréttindastofu Reykjavíkurborgar

Kl. 8:35 Listin að umgangast götustúlkur. Hugsjónakonan Ólafía Jóhannsdóttir. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands.

Kl. 9:00 Mannkærleikur, fagið og fræðin. Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands.

Kl. 9:25 Arfur Ólafíu. Vinna félagsráðgjafa með heimilislausum í dag. Elísabet Þorgeirsdóttir félagsráðgjafi í Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða og Guðrún Þorgerður Ágústsdóttir félagsráðgjafi á Dagsetri Hjálpræðishersins.

Kl. 9:50 Umræður

Kl. 10:30 Fundarlok.

By |17 október 2013 18:27|Fréttir|

Yndisleg uppörvun – Námskeið Kvennakirkjunnar

Námskeið Kvennakirkunnar um kvennabaráttukonur sem höfðu kristna trú til styrktar í baráttu sinni svo sem er skrifað um  í bókinni Kvennabarátta og kristin trú sem kom út 2007.

Námskeiðið er í Þingholtsstræti 17, í fimm mánudagskvöld frá 4. nóvember til 2. desember, frá klukkan hálf átta til níu. Það  kostar fimm þúsund krónur.

Mánudagskvöldið 4. nóvember:
Kristín Ástgeirsdóttir talar um kristni og kvennahreyfingar á Íslandi frá 1875 til 1930 og trúarleg viðhorf þingkvennanna Ingibjargar H. Bjarnason og Guðrúnar Lárusdóttur

Mánudagskvöldið 11. nóvember:
Arnfríður Guðmundsdóttir talar um Lúter og konurnar. Áhrif siðbótar Marteins Lúters á líf kvenna

Mánudagskvöldið 18. nóvember:
Dagný Kristjánsdóttir talar um skáldsögur Kristínar Sigfúsdóttur, „Gestur var ég …“

Mánudagskvöldið 25. nóvember:
Nína Leósdóttir talar um „þá heilögu hjónabandsstétt“ í fimm íslenskum húspostillum frá 1718 til 1901

Mánudagskvöldið 2. desember:
Sigríður Dúna Kristmundsdóttir talar um frumkvöðulinn Ólafíu Jóhannsdóttur, konu kvennanna.

Þetta verður dásamlegt.  Verum innilega velkomnar.  Við þurfum ekki að skrá okkur.  Komum bara og njótum frábærra kvölda.

By |10 október 2013 13:38|Fréttir|

Messa í Fríkirkjunni í Hafnarfirði

Messa í Fríkirkjunni í Hafnarfirði sunnudaginn 13. október kl.20:00. Sr. Auður Eir Vilhjálmsdoóttir prédikar. Aðalheiður Þorsteinsdóttir stjórnar söng. Messan er haldin með Fríkirkjusöfnuðinum í Hafnarfirði.  Kaffi eftir messu.  Þær sem sjá sér fært að koma með meðlæti fá alúðarþakkir.

By |7 október 2013 12:31|Fréttir|

Vertu leiðtogi í lífi þínu

Þú ferð með sjálfri þér hvert sem þú ferð.  Í öllu daglegu lífi, með hverjum sem þú ert og í öllu sem þú gerir, hversdagslegu og  sérstöku, erfiðu og góðu.
Hvað þarftu til þess?
Þú þarft að hafa sjálfa þig á hreinu.
Þú þarft að sjá hvað þú hefur ekki á hreinu.
Og hvað gleður þig og uppörvar.
Sjáðu hvað þig langar að gera betur.
Sjáðu  hver þú ert.
Þú ert yndisleg manneskja og vinkona Guðs.
Þú ert leiðtogi af því að þú ert vinkona Guðs.
Þú heldur áfram í lífi þínu, mild og máttug.  Og hún er með þér.

Námskeiðið er byggt á ráðleggingum Fjallræðunnar:   Treystu Guði hvaða tilfinningar sem fylla hjarta þitt.  Vertu hugrökk, friðsöm og umburðarlynd.  Ekki láta uppspunnar ásakanir særa þig lengi.  Ekki vera dómhörð, heldur ekki um sjálfa þig.  Hugsaðu oft um það góða sem þú átt.  Trúðu ekki öllu. Trúðu Jesú.

Námskeiðið er í Þingholtsstræti 17 byrjar mánudaginn 30. september og stendur til 28. október,
í  fimm kvöld, frá klukkan 19.30 til 21,  frá hálf átta til níu.
Það kostar 5000 krónur með námskeiðsbók.

Vertu innilega velkomin og skráðu þig á kvennakirkjan(hja)kvennakirkjan.is  eða í síma 5513934.

By |14 september 2013 21:49|Fréttir|

Kvennakirkjan heldur guðþjónustu í Neskirkju við Hagatorg

Sunnudaginn 8. september klukkan 20 heldur Kvennakirkjan guðþjónustu í Neskirkju við Hagatorg. Í guðþjónustunni setur séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir séra Arndísi G. Bernhardsdóttur Linn í embætti prests Kvennakirkjunnar en þær munu starfa saman sem prestar Kvennakirkjunnar. Séra Arndís prédikar, Anna Sigríður Helgadóttir syngur einsöng og Kór Kvennakirkjunnar leiðir söng undir stjórn Aðalheiðar Þorsteinsdóttur.

Kaffi í safnaðarheimilinu á eftir. Þær sem sjá sér fært að koma með kaffibrauð fá alúðarþakkir.

By |4 september 2013 14:58|Fréttir|

Konur sem standa í skilnaði

Konur sem standa í skilnaði

Konur með svipaða reynslu hittast og tala saman, tala við Guð og hlusta á hana, tala við leiðbeinendur   –   og ná áttum. Samverurnar hefjast  þriðjudaginn 1. október  klukkan 17.15 og standa til 18.30.  Leiðbeinendur verða Guðrún Elíasdóttir, Guðrún B. Jónsson og Kristín Ragnarsdóttir.

By |2 september 2013 23:04|Fréttir|

Námskeið Kvennakirkjunnar í haust

Námskeið Kvennakirkjunnar þetta haustið verða sem hér segir:

Vertu leiðtogi

Fyrir hvað fólk?  Fyrir þig. Þú útskrifast með þessa diplómu: Þú ert mild og máttug af því að þú ert vinkona Guðs. Kennslan er byggð á Fjallræðunni. Við kennum allar  með Auði Eir. Biblíuvers, bænir og söngur innifalið. Námskeiðið verður á  mánudögum klukkan 19:30 frá 30. september til 28. október.

Yndisleg uppörvun

Konur segja frá forgöngukonum kvenfrelsis á Íslandi.  Þú verður enn skemmtilegri og ánægðari með þig eftir námskeiðið. Þú verður frá þér numin og það endist. Námskeiðið verður á mánudögum klukkan 19:30 frá 4. nóvember til 2. desember.

Námskeiðin eru í Þingholtsstræti 17.  Skráðu þig á netfangið okkar, kvennakirkjan(hja)kvennakirkjan.is  áður en þau byrja. Námskeiðin kosta bara 5000 krónur.

 

By |11 ágúst 2013 14:17|Fréttir|

Útimessa í Öskjuhlíð

Sunnudaginn 11. ágúst verður Kvennakirkjan með útimessu í Öskjuhlíð sem hefst kl. 16:00. Við hittumst við inngang Perlunnar og göngum saman um Öskjuhlíðina. Auður Eir Vilhjálmsdóttir flytur hugleiðingu og við syngjum saman undir stjórn Aðalheiðar Þorsteinsdóttur.

By |8 ágúst 2013 14:12|Fréttir, Óflokkað|

Kvennaguðfræðin hefur elft kirkjuna og íslenskt samfélag

Við vígsluna í Dómkirkjunni í gær sagði Agnes biskup að um  merkisatburð væri að ræða þar sem í fyrsta sinn væri prestur vígður til að sinna sérstaklega þjónustu við konur í kirkjunni.  Í yfirlýsingu sem hún setti á heimasíðu sína www.biskup.is sagði hún  jafnframt að með vígslu prests Kvennakirkjunnar væri lögð áhersla á mikilvægi kvennaguðfræði og jafnréttis kynjanna fyrir kirkju framtíðarinnar á Íslandi. Kvennakirkjan fagnar þessum orðum biskups og tekur heilshugar undir þau. Agnes sagði m.a.
Í fyrsta sinn hefur prestur verið vígður til að sinna sérstaklega þjónustu við konur í kirkjunni.  Sr. Arndís G.  Bernhardsdóttir Linn mun þjóna í Kvennakirkjunni, sem hefur starfað í  20 ár sem sjálfstæð samtök á vettvangi þjóðkirkjunnar. Kvennakirkjan  hefur rannsakað og iðkað kvennaguðfræði, en kvennaguðfræði er guðfræði  sem konur skrifa um vináttu Guðs í lífi þeirra.  Kvennaguðfræðin hefur  eflt kirkjuna og íslenskt samfélag og mun halda áfram að gera það í  framtíðinni. Kvennaguðfræðin og jafnrétti kynjanna eru málefni  framtíðar en ekki bara fortíðar. Þó margt hafi áunnist í  jafnréttismálum og varðandi rétt og möguleika kvenna er jafnrétti ekki  náð. Stöðugt þarf að vinna áfram á þessum vettvangi og með vígslu  prests Kvennakirkjunnar er lögð áhersla á mikilvægi þessa málaflokks fyrir kirkju framtíðarinnar á Íslandi. Sr. Arndís hefur bæst í þann hóp presta er hafa á hendi sérþjónustu í kirkjunni eða hjá félagasamtökum. Fyrst um sinn verður þjónusta hennar sjálfboðin en  vonandi verður prestsþjónusta Kvennakirkjunnar launuð þegar fram líða  stundir.
Hér má lesa frétt um atburðinn á heimasíðu biskups Íslands

By |16 júlí 2013 14:54|Fréttir|