Kvennakirkjukonur fá Fálkaorðuna

Nú hinn 17. júní fékk Hallfríður Ólafsdóttir riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu.  Hún er veitt henni fyrir framlag til hljómlistarlífs barna með bókum sínum um Maxímús Músíkús.  Mamma hennar, Stefanía María Pétursdóttir fékk fálkaorðuna 1993 fyrir störf í Kvenfélagasambandi Íslands þar sem hún var formaður um langt árabil.  Og mamma Stefaníu, Hallfríður Þóra Jónsdóttir á Siglufrði,  fékk fálkaorðuna 1978 fyrir störf sín að félagsmálum.  Við kvennakirkjukonur sendum vinkonum okkar innilegar hamingjuóskir með þakklæti fyrir allt sem við höfum fengið að njóta af snilld þeirra og kærleika.

By |24 júní 2014 17:30|Fréttir|

Guðþjónusta við Þvottalaugarnar

Kvennakirkjan heldur guðþjónustu við Þvottalaugarnar í Laugardal fimmtudaginn 19. júní kl. 20 í samvinnu við Kvenréttindafélag Íslands og Kvenfélagasamband Íslands. Séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir prédikar, Inga Jóna Þórðardóttir flytur ávarp, Ásdís Þórðardóttir leikur Áfram stelpur! á trompet, Anna Sigríður Helgadóttir syngur einsöng og Aðalheiður Þorsteinsdóttir stjórnar söngnum. Á eftir er opið hús í Café Flóru.

By |14 júní 2014 21:47|Fréttir|

Kvennakirkjukona ver doktorsritgerð við HÍ

Hrund Scheving Thorsteinsson okkar góða kvennakirkjukona hefur varið doktorsritgerð við Háskóla Íslands:  Hjúkrunarfræðingar og gagnreyndir starfshættir:  Virkni og spáþættir.  Við allar kvennakirkjukonur sendum henni innilegar hamingjuóskir og fögnum þeim góðu áhrifum sem þekking hennar mun hafa. Meðfylgjandi mynd var tekin við tilefnið.

By |23 maí 2014 23:43|Fréttir|

Gengið um Skuggahverfið

Nú safnast Kvennakirkjukonur saman mánudagskvöldið 26. maí og ganga saman um Skuggahverfi Reykjavíkur. Gangan fer af stað frá Þingholtsstrætinu kl. 19:30.

By |22 maí 2014 13:46|Fréttir|

Guðþjónusta í Garðakirkju

Næsta guðþjónusta  Kvennakirkjunnar verður í Garðakirkju á Álftanesi sunnudagskvöldið 18. maí klukkan 20.  Athugum að nú höfum við aftur kvöldmessu. Margrét Guðmundsdóttir  segir frá trú sinni. Svava Bernharðsdóttir leikur á fiðlu, Auður Eir Vilhjálmsdóttir talar um feginleik léttisins og Anna Sigríður Helgadóttir stjórnar sálmum. Á eftir drekkum við kaffi í litla fallega húsinu í Króki
Þær sem sjá sér fært að koma með kaffibrauð fá alúðarþakkir.

By |30 apríl 2014 23:01|Fréttir|

Kvennakirkjukonur út að ganga

Eftir einstaklega velheppnuð námskeið yfir veturinn slá Kvennakirkjukonur nýjan takk og halda út að ganga á mánudagskvöldum.Fyrsta ganga verður farin úr Þingholtinu (Þingholtsstræti 17) mánudagskvöldið 28. apríl kl. 19:30. Allar eru hjartanlega velkomnar – gengið verður um Þingholtið eða hvert þangað sem þær mættu koma sér saman um að ganga. Sjáumst þá !

By |24 apríl 2014 22:02|Fréttir|

Lag Öllu við sálm Vilborgar

Í messunni Kvennakirkjunnar í Dómkirkjunni nú 6. apríl söng Anna Sigga sálm Vilborgar Davíðsdóttur  Fyrir ljósi myrkrið flýr.   Þar segir Vilborg frá huggun Guðs sem við eigum vísa í sorg okkar.  Aðalheiður Þorsteinsdóttir söngstjóri okkar samdi lagið við sálminn og okkur þótti hvort tveggja og flutningurinn mikill viðburður og fögnuðum vinkonum okkar hjartanlega. Á myndinni sjást Aðalheiður og Vilborg í góðum hópi kvenna.

By |14 apríl 2014 15:01|Fréttir|

Mánudagssamverum lýkur með vöfflum

Mánudagskvöldið 7. apríl klukkan háf átta hittumst við í Þingholtsstræti og ljúkum mánudagssamverum vetrarins.  Verum allar velkomnar.  Við bökum vöfflur og hitum kaffi og tölum um hvað sem við viljum.  Ekki væri nú leiðinlegt að sjá þig birtast.

By |2 apríl 2014 22:31|Fréttir|

Næsta guðþjónusta Kvennakirkjunnar í Dómkirkjunni

Næsta guðþjónusta Kvennakirkjunnar verður í Dómkirkjunni sunnudaginn 6. apríl kl. 14:00. Sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir prédikar um föstudaginn langa. Anna Sigríður Helgadóirttir syngur einsöng. Aðalheiður Þorsteinsdóttir stjórnar söng með kór Kvennakirkjunnar. Kaffi á kirkjulofti eftir messu. Þær sem sjá sér fært að koma með kaffibrauð fá alúðarþakkir. 

By |31 mars 2014 22:30|Fréttir|

Auður Eir talar á hugvísindaþingi

Laugardaginn 15. mars sl stóð Hugvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir hugvísindaþingi. Meðal fyrirlesara var séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir prestur Kvennakirkjunnar sem talaði í málstofu sem Pétur Pétursson prófessor við guðfræðideild stýrði og bar heitið Framtíð íslenska þjóðkirkjufyrirkomulagsins. Fyrirlestur Auðar Eirar bar heitið Nú er tími til siðbótar – eins og alltaf og byggir á efni bókar hennar Bakarí Guðs sem Kvennakirkjan gaf út árið 2012. Þar reifar Auður Eir nýjar hugmyndir um veitingu prestembætta og hvetur til þess að prestar verði hreyfanlegir á milli staða en einangrist ekki hver á sínum stað áratugum saman. Í hugmyndinni felst einnig hvatning til samvinnu og að sumir prestar hafi ekki alltof mikið að gera þegar aðrir hafi of lítið að gera. Eftirfarandi útdráttur var birtur í dagskrá þingsins:

Lútersk kirkja á að vera siðbótarkirkja á öllum tímum. Hún á að fylgja þeirri lútersku guðfræði að við séum öll prestar hvaða starf sem við höfum.  Hún þarf að horfast í augu við tilhneigingu sína til kaþólskra messusiða. Og hún þarf að breyta ýmsu í grundvallarskipulaginu, í fyrsta lagi að breyta ráðningu prestanna. Svo að prestar verði ekki keppinautar heldur samheldinn hópur í boðun fagnaðarerindisins. Það þarf að ræða málin og gefa langan tíma til að tala vandlega saman.

Fyrirlestur Auðar Eirar mun birtast í útgefnu efni Hugvísindaþings 2014 og verður líka aðgengilegur á heimsíðu okkar.

By |19 mars 2014 22:18|Fréttir|