Endursögn Biblíunnar

Við breytum stundum ritningartextunum sem við lesum í messunum.  Við breytum alltaf í mál beggja kynja og stundum breytum við orðum og orðalagi orð fyrir orð til að gera textana skiljanlegri.  Og stundum verða breytingarnar að endursögn eins og núna þegar ég endursegi upphafið á 25. Davíðssálmi.  Ég skrifa fyrst textann úr Biblíunni og svo endursögnina.

Til þín, Drottinn, hef ég sál mína,
Guð minn, þér treysti ég.
Lát mig eigi verða til skammar,
lát eigi óvini mína hlakka yfir mér.

Ég lyfti öllum hugsunum mínum upp til þín, Guð,
elsku vinkona mín, ég treysti þér.
Hjálpaðu mér til að meta vináttu þína meira en allt annað,
svo að þau sem vilja gera lítið úr mér nái engum tökum á hugsunum mínum.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir Vilhjálmsdóttir

By |18 september 2013 23:12|Dagleg trú|

Safna saman

Ef þið leitið mín munuð þið finna mig. Þegar þið leitið mín af öllu hjarta læt ég ykkur finna mig, segir Drottinn. Ég mun snúa við högum ykkar og safna ykkur saman.  (Jeremía 29.13-14)
Á haustin er alls staðar verið að safna saman.  Börnin safnast saman í skólana aftur, fullorðna fólkið safnast saman til að sinna áhugamálum sínum.  Við söfnum saman kartöflum og grænmeti úr jörðinni.  Kindunum mínum verður bráðum safnað saman en misjöfn örlög munu þær vissulega hljóta.  Þegar ég safnaði saman berjum um daginn minntist ég hughreystandi orðanna sem Guð hefur oft sagt við fólkið sitt, þar sem Guð lofar að safna okkur saman.  Sum haust og suma daga þarf ég á því að halda að Guð safni mér saman.  Ég þarf þess líka að Guð hjálpi mér að safna saman því sem ég þarf að geyma og henda hinu.  Af öllu hjarta veit ég að Guð finnur mig og ég Guð og örugg hvíli ég í því að Guð safnar ekki bara mér saman heldur öllum hinum líka.
Guðbjörg Arnardóttir

By |11 september 2013 21:14|Dagleg trú|

Guð varðveitir útgang þinn og inngang

Ég valdi okkur þetta vers úr Davíðssálmi, 121.8, sem haustversið í byrjun starfsins og nýrrar byrjunar í lífi okkar með haustinu.  Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu, héðan í frá og að eilífu.  Við erum alltaf að byrja á nýju og nýju til tilbreytingar og endurnýjunar.  Nú varðveitir Guð okkur í útgöngu okkar úr sumrinu og inn i haustið.  Versið var haft yfir þegar við vorum skírðar og hefur alltaf fylgt okkur.  Guð hefur alltaf fylgt okkur, inn og út úr tímabilum og hugarhræringum og hverju sem er.  Það er svo stórkostlegt að ekki verður orðum að komið.

Hún blessar okkur þegar við göngum inn til hennar sem á bæði tímann og eilífðina og stjórnar Guðsríkinu.  Þú veist hvernig það er.  Við komum inn fyrir dyrnar og hún tekur strax á móti okkur, sest hjá okkur og hlustar og svarar.  Hún hlustar á allt og skilur allt og á alltf ráð.

Biðjum hver fyrir annarri. Biðjum fyrir þeim sem eiga í erfiðleikum núna og fyrir þeim sem eiga góða tíma í haustinu.  Jónas skrifaði í spádómsbókina sína, 2.8, að bænir okkar komi til Guðs og mér finnst ég geti séð þær koma inn úr gættinni og setjast við borðið hjá henni, litlar og fallegar og ná ekki niður á gólf.  Og hún sest hjá þeim og hlustar á þær og tekur málið að sér.

Blíðar haustkveðjur,  Auður

By |4 september 2013 21:04|Dagleg trú|

Margvísleg speki Söndags BT

Meðan ég enn naut þeirrar miklu gæfu að lesa Söndags BT reglulega bauðst mér margvísleg spekin og sum býr enn með mér.  Eins og  greinin um alla uppörvunina sem fólk átti að ausa hvert yfir annað með glaðlegum hvatningum.  Vertu bjartsýn og glaðleg og jákvæð og tillitssöm og sjálfstæð og þakklát og fjölmargt annað.  Það kemur fólki vel en fyrst og fremst sjálfri þér og það er einmitt markmiðið.  Ég hefði löngu gleymt greininni ef hún hefði ekki endað svona:  En það koma bara dagar hjá mér þegar mér er alveg ómögulegt að vera neitt af þessu en rembist samt við það og verð aðframkomin.  Ég fer heim eftir allt glaðlega viðmótið, dreg fyrir gluggana, tek símann og dyrabjölluna úr sambandi og skríð undir rúm.  Svo ég taki nú við af blaðakonunni bæti ég því við að mikið eigum við allar gott, hún og við, sem mætum sífellt alla vega dögum, að við skulum eiga Guð að vinkonu og treysta því að hún standi með okkur í þessu öllu.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |25 júlí 2013 21:59|Dagleg trú|

Leiðtogamenntun á grundvelli Fjallræðunnar

Við ætlum að halda námskeið í haust um leiðtogamenntun á grundvelli Fjallræðunnar. Það stendur til dæmis þar að við skulum æfa okkur í að vera með öðru fólki. Lesum orð um þetta frá Margaret Wheatley sem var hér í júní á vegum Þjónandi forystu. Hún segir að flest fólk sem hún þekkir vilji vera í betra sambandi við annað fólk. Það er sagt að við verðum að sýna sjálfsöryggi og vinna hratt. En það er miklu betra fyrir okkur að gefa okkur tíma til að tala saman og hlusta á ólíkar skoðanir hvert annars. Við víkkum okkar eigin skoðanir og komumst í samband við fólk sem við héldum að við skildum ekkert í, segir Margaret Wheatley.

Blíðar kveðjur, Auður Eir

By |20 júlí 2013 21:49|Dagleg trú|

Í klaustri

Stundum þegar mér finnst ýmislegt of órólegt í einhverjum hópum sem ég er með í segi ég:  Ég geng í klaustur. Og meina að það er best að leita að smá næði.  Það bregst varla að margar í hópnum vilja líka ganga í klaustur og sumar vilja vera lengi.    Við hugsum alvarlega um að verða okkur út um næði við og við.  Það er hins vegar ekki auðhlaupið frá öllu og inn í klaustur, betra að setja upp smá klaustur heima hjá okkur. Við getum fengið okkur næðisdaga þótt við höldum öllu áfram sem við erum að gera, heimilishaldinu og vinnunni og öllu öðru.  Það er allt í lagi þótt hitt fólkið í klaustrinu gangi í sínum takti og hafi ekki hugmynd um að það er í klaustri.  Gáum hvort þetta er ekki afbragðs hugmynd og auðveld í notkun.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |14 júlí 2013 21:47|Dagleg trú|

Gleymdu ekki systrum þínum

Einu sinni sendi Margrét Jónsdóttir kvennakirkjukona og leirlistakona á Akureyri þetta til Kvennakirkjunnar:

Ung kona var í heimsókn hjá móður sinni og drakk íste til þess að kæla sig í mesta sumarhitanum.Um leið og þær töluðu um lífið, hjónabandið, ábyrgðina og skuldbindingar fullorðinsáranna hristi móðirin klakamolana í glasi sínu svo að telaufið þyrlaðist upp og leit hreinskilnislega á dóttur sína: „Gleymdu ekki systrum þínum, þær verða því mikilvægari sem þú eldist. Einu gildir hversu mikið þú elskar manninn þinn eða börnin sem þú kannt að eignast, þú munt alltaf þarfnast systra.

By |7 júlí 2013 21:46|Dagleg trú|