Dagar hins dæmalaust góða uppgjörs

Það eru þessir dagar, dagarnir til páska.  Næstum tvær heilar vikur.  Nógur tími.  Kirkjan breiðir út fjólubláa messulitinn og talar um iðrun okkar.  Við getum allt eins vel talað um uppgjör okkar.  Við höfum tækifæri til að gera upp allt það sem við iðrumst og vildum hafa haft  öðruvísi.  Gerum það.

Blíðar kveðjur,  Auður

By |10 mars 2014 10:35|Dagleg trú|

Að hvíla í hendi Guðs

Það er svo gott að hvíla í hendi Guðs í önnum daganna. Vita að hún er alltaf með þér og réttir þér hönd sína til að styðjast við þegar þú þarft á að halda. Hún er alltaf með þér og gengur ýmist léttstíg við hlið þér eða heldur á þér í faðmi sínum, allt eftir því hvað það er sem þú ert að glíma við. Guð er besta vinkona sem hægt er að hugsa sér. Vöndum okkur að vera bestu vinkonur og vinir Guðs.

Elína Hrund Kristjánsdóttir

By |21 janúar 2014 21:27|Dagleg trú|

Fyrirætlanir til heilla

Um leið og við göngum til móts við nýja árið er gott að rifja upp fyrirheitin sem Guð hefur gefið okkur og við finnum um alla Biblíuna. Guð hefur lofað þér að fara á undan þér og vera með þér, hún ætlar hvorki að sleppa af þér hendinni né fara frá þér og þú þarft hvorki að óttast né missa móðinn. (5. M  31.8).  Og ekki nóg með það heldur hefur Guð líka í hyggju að gera stórkostlega hluti ;  Því að ég þekki sjálf þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með ykkur, segir Guð, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita ykkur vonarríka framtíð.  Jer 29.11.

Er það ekki dásamlegt veganesti að hafa inní nýja árið og nýju dagana sem koma á móti okkur?

Arndís Linn

 

By |12 janúar 2014 13:14|Dagleg trú|

Þegar Guð kom – til okkar

Við höldum jólin af því að Guð kom. Sjálf. Í eigin persónu. Hún sem átti allt og hafði sjálf skapað það. Og falið það í hendur fólksins síns sem hún elskaði. Það var ekki að því að spyrja, og hún hlaut að vita það áður en allt byrjaði, að fólkið sem hún elskaði fór með allt út í móa. Svo hún ákvað að koma sjálf. Og vera Jesús. Þetta heppnaðist stórkostlega. Breiður af alla vega fólki slógust í hópinn um alla veröldina öld eftir öld. Og þess vegna erum við núna að lesa þetta bréf og hittast í Kvennakirkjunni okkar.

Nú skulum við fela henni allt. Henni sem kom til okkar. Til þín. Sem fórst líklega stundum út í móa eins og við hinar. Hún sótti þig alltaf. Af því að henni finnst til um þig og þarfnast þín og elskar þig. Nú þegar aðventan bíður okkar með annir og frið skulum við hvíla í þessu og gefa okkur næði til þess. Og við skulum láta það gleðja dagana svo við getum gert það sem við þurfum að gera og það sem við ætlum að gera þótt við þurfum þess ekki, við gerum það bara af því að það er svo gaman.

Guð gefur okkur allt sem við þurfum. Og við gefum fólkinu í kringum okkur eitt og annað og fáum frá því svo magt gott á dögunum til jóla.

Blíðar kveðjur. Auður

By |18 desember 2013 22:25|Dagleg trú|

Aðventan – Jólafastan

María og Jósef voru fólk á ferð. Þau voru á ferðalagi frá Nasaret til Betlehem til að láta skrásetja sig því það var manntal í ríkinu. Þannig var hin fyrsta aðventa. Þau voru bíða fæðingar barnsins, undirbúa komu þess ásamt því að sinna því sem þurfti.

Við erum einnig að undirbúa komu barnsins á aðventunni. Að mörgu þarf að hyggja. Við erum fólk á ferð og sjaldan vill ferðin á okkur verða meiri en á aðventunni. Á aðventunni sem endra nær er Biblían vegakortið okkar og vísar okkur veginn til fyrirheitna staðarins sem í þessu tilfelli eru jólin.

Barnið er að fara að fæðast. Jólafastan, aðventa, er andlegt ferðalag til móts við birtu jólanna, fagnaðarerindi jólanna, gleðiboðskapinn: Yður er í dag frelsari fæddur. Undirbúum komu jólanna með tilhlökkun í hjarta. Iðrumst og hreinsum til í lífi okkar með hjálp Guðs. Þá fær ljós Guðs að lýsa upp hjörtu okkar og lýsa upp jólin.

Sr. Hulda Hrönn M. Helgadóttir

By |15 desember 2013 23:12|Dagleg trú|

Hvað gerir þú á aðventunni?

Að vera búin að kaupa allar jólagjafir og baka og hafa hreina glugga áður en ég skreyti þá. Sem sagt að hafa allt á hreinu og hafa aðventuna fyrir mig og fara á tónleika og gera það sem mér var huglægast. Jú, jú, svolítil sjálfselska, það má líka.

En við tökum á móti dögunum sem koma, þeir koma bara, og við fáum engu breytt um hvað þeir boða, þeir eru bara misgóðir og misbjartir og sumir boða sorg, við sköpum ekki þá reynslu sem dagarnir koma með, við göngum í gegn um hana, þeir spyrja ekki hvað við viljum.
En manni finnst að þessi tími eigi að vera án áfalla. Við stöndum frammi fyrir því hvað við erum lítil, þegar sorglegir atburðir koma, og þegar veikindi verða hjá okkar nánustu og þeim sem manni þykir vænt um þá verðum viðdöpur og áhyggjufull. En þetta má ekki, ég veit að Guð hefur bannað það að hafa áhyggjur og depurð, hún er búin að segja „ég skal taka þínar áhyggjur og verð alltaf með þér, sama hvað sem er að gerast hjá þér“. Svo ég hef sett þetta allt í hennar hendur, þess vegna ætla ég að einblína á ljósið sem er framundan, með tilhlökkun til aðventunnar, og þegar ljósið kemur til okkar.

Þökk fyrir jólin elsku Guð og kærleikann sem umvefur okkur í þínu ljósi með fjölskyldum okkar og vinum, megi nýja árið vera á þínum vegum svo við megum þjóna þér og samferðafólki okkar í kærleika þínum.

Súsanna Kristinsdóttir

By |10 desember 2013 15:02|Dagleg trú|

Hvað segirðu um þig í dag?

Ég var að rifja upp ýmsar skemmtilegar lýsingar sem við höfum um okkur sjálfar og annað fólk.  Eins og:  Ég ætlaði að segja þeim meiningu mína en missti kjarkinn og varð eins og smjör í volgri hendi.  Ég er alveg niðurbrotin eins og samanbrotið pappírsblað, þótt það sjáist ekki á mér.  Ég er eins og mulin paprikka í glæru glasi og allt fólk sér það.  En þetta er best:  Hún Sigríður er svo dugleg.  Og svo er nú Jónína eins og hún er.

Biblían er full af ýmsum lýsingum á fólki sem var alla vega  uppgefið og vonlaust leynt eða ljóst og fékk þann úrskurð hjá öðrum að það væri nú eins og það er.  Ég held að uppgjöfin sé stundum eins og öryggisventill svo að það sjóði ekki upp úr í huga okkar.  Ég held að við megum læra að gefast stundum upp.  Hvað heldur þú?

Fólkið í Biblíunni endaði aldrei lýsinguna í uppgjöf.  Endirinn var svona:  Þá rétti Guð mér hendina og reisti mig aftur upp.  Þegar Guð kom sjálf og varð ein af okkur, Jesús frelsari okkar, þá sagði hún:  Þú ert ekki lengur þjónustustúlka.  Þú ert vinkona mín.  Þú átt allt með mér og ég geri þig með mér að ljósi heimsins.  Hvað segirðu um það í dag?

Blíðar kveðjur, Auður

By |27 nóvember 2013 13:47|Dagleg trú|

Vitleysan sem okkur dettur í hug

Sigríður sagðist áreiðanlega hafa verið með athyglisbrest í sinni löngu liðnu æsku, en hún er að verða áttræð.  Hallgerður sagðist þá hafa alltaf verið ógurlega leiðinleg.  Við sem höfum þekkt þær í sjötíu ár munum mætavel að þær voru báðar bráðskarpar og skemmtilegar.  Það er ekki ein heldur öll vitleysan sem okkur getur dottið í hug.  En hvað segir þú, mín kæra, sem lest þetta, hvort sem þú átt marga eða fáa áratugina að baki?  Þú varst áreiðanlega yndisleg – og heyrðir það ábyggilega staðfest oft og mörgum sinnum.  En ef furðulegar hugsanir sitja um okkur skulum við syngja úr ljóðum Jesaja:  Vaknaðu og vertu sterk og spariklædd.   Hristu af þér rykið og rístu upp.  Jes. 52. 1-2  Við erum yndislegar, njótum þess.

Auður Eir Vilhjálmsdóttir

By |31 október 2013 22:02|Dagleg trú|

Þegar kólnar tökum við fram vetrarfötin

Þegar kólnar tökum við fram vetrarfötin.  Og kannski fáum við okkur kökubita þegar okkur finnst við þurfa að hressa okkur ögn.  Þegar við missum jafnvægið grípum við í eitthvað sem styður okkur.   Sem betur fer.  Annars yrði okkur óþarflega kalt og við yrðum óþarflega eirðarlausar og við myndum detta ef við styddum okkur ekki.  Við missum stundum ró okkar og finnum öryggisleysi og kulda innra með okkur og vildum að við vissum hvernig við gætum hresst okkur við.  Þau sem lifðu í veröldinni sem Biblían skrifaði um fyrir 3000 árum fundu þetta líka, alveg eins og við þótt aldirnar séu á milli okkar.  Þá gripu þau í Guð.  Og hún hélt þeim, hressti þau og gaf þeim festu og öryggi í hjarta sér.  Þess vegna stendur í Sálmunum 40.3:  Hún dró mig upp úr djúpum skurðinum, upp úr botnlausri leðjunni og gaf mér fótfestu á klett.
Blíðar kveðjur,  Auður Eir Vilhjálmsdóttir

By |3 október 2013 17:10|Dagleg trú|

Drottinn bíður þess að geta miskunnað

Drottinn bíður þess að geta miskunnað
En Drottinn bíður þess að geta miksunnað yður og heldur kyrru fyrir, uns hann getur líknað yður. Því að Drottinn er Guð réttlætis. Sælir eru allir þeir, sem á hann vona.Jesaja 30.18-22
Þessi orð spámannssins hafa alla tíð verið mér kær og nú undanfarið hafa þau verið mér mikill styrkur við veikindi og fráfall eiginmanns míns síðastliðið vor. Vil ég deilda þessum yndislegum orðum spámannsins með þeim sem ganga í gegnum erfiðleika lísins. Þegar við missum náinn ástvin fylgir því mikill gestagangur og erill á heimilum okkar sem syrgja. Þegar frá líður fækkar gestakomum. Ástvinurinn er farinn og við sitjum eftir með sorgina og ýmis veraldleg vandamál sem þarf að leysa. Þá upplifum við okkur stundum ein og yfirgefin.

Máttur orða spámannsins hafa í öllu þessu reynst mér sem klettur. Guð sjálfur bíður þess að geta miskunnað mér og heldur kyrru fyrir þar til ég þarf á Drottni mínum að halda. Þetta hefur verið mér ómetanlegt. Ég get leitað til Guðs þegar allt er öfugsnúið og ómögulegt. Þolinmæti almættisins á sér engan enda.

Vitandi það að Guð bíði eftir því að geta miskunnað mér, gefur mér kraft og þrótt, því ef ég er við það að bugast, þá er Guð tilbúinn að reisa mig upp aftur. Fegurð og kraftur orðanna gefur mér kjark og þor að takast á við verkefni nýs dags.

Auður Inga Einarsdóttir

By |27 september 2013 21:14|Dagleg trú|