Þegar ég snéri aftur til trúarinna varð ég aftur sjálfrar mín

Riffat Hassan er fædd og uppalin í íslamstrú í Pakistan.  Hún varð háskólakennari í Ameríku, marxisti og trúleysingi en fór að efast um sjálfa sig:  Ég fór heim og ákvað að biðja.  Ég hafði ekki beðið síðan ég varð marxisti.  Ég man hvað mér fannst undarlegt að beygja kné á gólfinu heima hjá  mér.  Hvað ertu að gera, þú sem ert doktor og marxisti?   Og svo hugsaði ég að það væri einmitt þess vegna sem ég þyrfti að biðja.  Og allt í einu fann ég frið sem ég hafði aldrei fundið áður.  Þú veist hvernig sumar konur tala um eyðu innra með sér.  Eyðan hvarf þegar ég bað, og ég vissi að ég var að gera það sem ég átti að gera.  Svo að ég snéri aftur til trúarinnar og fann sjálfa mig.    Gott að heyra þetta, blíðar kveðjur, Auður Eir

By |1 desember 2014 21:59|Dagleg trú|

Það þarf að iðka trúna

Ég las á mörgum stöðum um búddistahópana sem hafa orðið til víða um Vesturlönd.  Það er eitthvað nýtt og heillandi um djúp lífsgildi.  Helga Jóakimsdóttir kom til okkar á mánudagskvöldi í Þingholtsstræi og sagði okkur frá búddisma.  Hún sagði að margir þessir  hópar væru í rauninni ekki hópar um trúna.  Það þyrfti að iðka trúna.  Og ég segi að það eigum við öll sameiginlegt, við öll sem tökum trú okkar alvarlega.  Við þurfum að iðka trúna og þar finnum við það sem við leitum að.  Gott að heyra þetta, blíðar kveðjur, Auður Eir

By |26 nóvember 2014 19:32|Dagleg trú|

Það er aldrei auðvelt að tala saman um mismunandi trúarbrögð

Kristrún Heimisdóttir sagði í samtali hjá okkur um trúna í landinu að þegar við töluðum um önnur trúarbrögð yrðum við að tala við þau sem þekktu þau í raun og veru.  Konur mismunandi trúarbragða hafa í áratugi haldið stórar og litlar ráðstefnur um trúarbrögðin og skrifað  bækur saman.  Þær segja að það sé aldrei auðvelt að eiga samtal um mismunandi trúarbrögð.  Við höfum ekki í hyggju að snúast til annarra trúar eða blanda saman trú okkar eða blandast í eitthvað annað.  Við ætlum að tala um það sem sameinar okkur og það sem er ólíkt með okkur, skrifa þær.  Gott að heyra þetta, blíðar kveðjur, Auður Eir

By |21 nóvember 2014 19:28|Dagleg trú|

Heimsendingar með morgunkaffinu

Við ætlum að hafa altarisgöngu í messunni
á sunnudaginn kemur og sjá hvort þau í
Bernhöftsbakaríi gefa okkur brauð til
skreytingar. Svo ætlum við að leggja það
til að við sjáum þær miklu heimsendingar
sem við fáum frá Guði í hverju morgunkaffi.
Af því að með brauðinu í morgunkaffinu er
sending frá Guði með algjörri fyrirgefningu
á öllum stærðum af mistökum okkar.

Geturðu hugsað þér að þú takir brauðið á
morgnana sem kveðju frá Guði með hvatningu
til að þiggja fyrirgefningu hennar til dagsins
og fyrirgefa sjálfri þér?
Og kaffið sem óskir hennar um góða ferð
út í daginn í frelsinu og gleðinni sem hún gefur
þér til þess sem bíður þín?
Hvað segirðu um þetta?

Blíðar kveðjur, Auður

By |6 nóvember 2014 14:13|Dagleg trú|

Náðin í kirsuberjatrénu og gleðin í radísunum

Yrsa Þórðardóttir skrifar frá Strassborg um náðina í kirsuberjatréinu og gleðina í radísunum.

„Í gær sótti ég radísurnar niður í ísskápinn í kjallaranum og bar þær á borð. Radísurnar frá Svartaskógi. Bragðið minnti mig á skólagarðana og gleðina af eigin uppskeru. Minnir mig á lokaritgerðina mína í guðfræði, um það hvort vinnan er blessun eða bölvun. Í sveita þíns andlits skaltu rækta radísur. Sumir segja að þetta sé blessun, ég held það. Með öðrum orðum, þú færð að uppskera radísur eftir allt erfiðið, og konur munu sannarlega þjást við að eignast börn, en gleðin eftir þjáninguna verður mikil. En þá kem ég að kirsuberjatrénu. Ég hef ekkert fyrir því, það bara kemur með nýja mynd á hverjum degi, svo fallegt. Nú eru að koma laufblöð innan um blómin. Ég hef ekki undan að undrast og fagna.“

By |14 júní 2014 21:50|Dagleg trú|

Sumargleðin yndislega – framhald

Guð blessar þig.  Hún gefur þér sumarið, dag eftir dag, blessar þér hugsanir
þínar, vináttu og verkefni.  Hún er hjá þér í streitunni þegar hún yfirþyrmir
þig, í uppgjöfinni þegar hún tekur af þér ráðin og í sorginni þegar hún grúfir
yfir þér og í gleðinni þegar hún fær að njóta sín.  Við skulum ekki láta okkur
bregða við margskonar áreitið og jafn margvísleg viðbrögð okkar.  Þetta er
allt eðlilegt og allt er á sífelldu iði í kringum okkur og innra með okkur.
En Guð er alltaf eins, alltaf vinkona okkar, alltaf hjá okkur.  Við skulum halda
áfram að taka á móti því sem berst að okkur og gera það besta úr því –
ekki síst gleðinni sem Guð gefur okkur og vill að við njótum fram í
fingurgóma.  Gleðjum alltaf þegar við getum og gerum það myndarlega.
Þú ert yndisleg manneskja.  Njóttu þess nú verulega í sumarbirtunni.
Gleðilegt sumar.  Auður

By |23 maí 2014 23:34|Dagleg trú|

Sumargleðin yndislega

Sólin skín og fuglarnir syngja ellegar þá að dropar stórir detta úr lofti.
Alla vega er sumarið komið og birtan umvefur okkur dag og nótt.  Hvað
finnst mér nú skemmtilegast í þessu nýja sumri?  Mér finnst skynsam-
legt að við spyrjum okkur og svörum þegar okkur detta svörin í hug.  Það
er nefnilega svo undursamlegt að sjá allt það góða sem við eigum og njóta
þess.

Finnst þér birtan skemmtilegust?  Eða vináttan sem þú færð að njóta á
þessum sumardögum?  Eða möguleikarnir í mismunandi dögunum sem verða
ögn aðrir en í vetrinum?  En alla ársins daga eigum við þessi dæmalaust
góðu tækifæri til að láta dagana ganga eftir taktinum í verkefnunum, mál-
tíðunum, samtölunum, lestrinum, gönguferðunum og hverju sem við tökum
okkur fyrir hendur.  Mismunandi frá einni til annarrar og frá sjálfum okkur
eftir því sem dagarnir bjóða og heimta.

Blíðar kveðjur, Auður

By |15 maí 2014 22:07|Dagleg trú|

Pistill úr fréttabréfinu

DAGAR PÁSKANNA

Nú birtist okkur enn einu sinni tækifærið til að

hugsa djúpar hugsanir.  Það er auðvitað alltaf

fyrir hendi og við þiggjum það á einn eða annan

veg á hverjum degi.  Og núna megum við íhuga

hina miklu atburði páskanna, pálmasunnudags,

skírdags, föstudagsins langa og páskamorguns.

 

Við megum spegla daga heimsins í þeim öllum.  Og

okkar eigin daga, þá sem bærast áfram í misjöfnu

ásigkomulagi og með misjöfnum hraða eins og við

vitum svo mætavel.  Dagarnir fyrir páska sýna

okkur misjafnar hugsanirnar sem bærðust í hjarta

sögufólks; skammvinna hollustu þeirra sem veifuðu

pálmagreinunum, misskilning foringjanna sem

heimtuðu krossfestinguna og kæruleysi fólksins sem

lét hafa sig út í að slást í hópinn.  Og hugleysi

Pílatusar sem dæmdi Jesúm gegn betri vitund.  Sorgina

sem fyllti Jesúm þegar honum fannst Guð hafa yfir-

gefið sig.

 

Nú skulum við nota tækifærið og staldra og hugsa.

Og biðja Guð að gefa okkur djúpar hugsanir.  Svo að

við sjáum einu sinni enn í gleði og þakklæti að við erum

með í páskagleði hópsins á fyrsta páskamorgninum sem

sá og vissi að Jesús er upprisinn, hann er Frelsarinn,

alltar veraldarinnar og okkar allra.

 

Gleðilega páska, Auður

By |2 apríl 2014 22:34|Dagleg trú|

Höldum áfram að gera upp við okkur og Guð

Hættum að ganga alltaf í sömu  hringina, hættum að tipla á yfirborðinu,  hættum að láta eins og við vitum ekki hvers við iðrumst í rauninni.
Nefnum það.  Segjum Guði það.  Hlustum á hana fyrirgefa okkur.  Hlustum á hana endurnýja okkur. Fyrirgefum sjálfum okkur og njótum þess hvað
við erum yndislegar vinkonur Guðs.

Blíðar kveðjur,  Auður

By |24 mars 2014 10:40|Dagleg trú|

Áframhald uppgjörsdaga til páska

Ég ætla að leggja það til að við teljum það upp fyrir okkur sem við sjáum eftir.  Að við segjum ekki bara að við sjáum eftir hinu og þessu og svona sé nú lífið. Það er auðvitað svona,  eins og við vitum allar.  En það er engin endastöð að segja það.  Endastöðin er nokkrum stoppistöðum lengra.  Þær eru merktar með:  Nefndu það, horfstu í augu við, gerðu það upp við þig, taktu á móti fyrirgefningu Guðs, fyrirgefðu sjálfri þér,
haltu áfram í nýrri  gleði.

Blíðar kveðjur,  Auður

By |17 mars 2014 10:37|Dagleg trú, Óflokkað|