Börnin sem fara í kirkjuna á skólatíma

Við höldum  áfram að ræða um rétt eða bann við kirkjustundum með börnum á skólatíma.  Í Morgunblaðinu 16. desember síðast liðinn er Fréttaskýring Önnu Lilju Þórhallsdóttur.

° Þar segir að allur gangur sé á því hvort sveitarfélög hafi reglur um kirkjuferðir barna á skólatíma.  ° Lítið er um athugasemdir frá foreldrum um þetta til sveitarfélaga, skóla eða landssamtaka foreldra um samstarf heimila og skóla.

° Skóli í  Reykjavík sendi foreldrum tölvupóst um að óskað væri eftir því við prestinn að ekki skyldi tala um trú.

° Sigurlás Þorleifssona skólastjóri í Vestmannaeyjum sagði að kirkjuferðin væri hugsuð sem sögustund.

° Halldór Halldórsson, oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins segir að kirkjuheimsóknir á skólatíma stangist ekki á við reglur Mannréttindaráðs um samskipti skóla og trúfélaga.  Þar er sagt að það eigi að virða fornar hefðir.  Það á ekki að takmarka frelsi allra barna þótt foreldrar sumra barna vilji ekki að þau fari í kirkju.  Foreldrar geti sagt til ef þau vilja ekki að barnið fari í kirkju.

°  Í skólum í Garðabæ,  Kópavogi og á Seltjarnarnesi er börnunum sem fara ekki í kirkju boðið upp á aðra samveru.

° Danska menntamálaráðuneytið telur það í fullu samræmi við dönsk grunnskólalög að jólahefðir séu hluti af skólastarfi.

° Norska menntamálaráðuneytið segir að ef skólar vilja fara með nemendur í kirkju á skólatíma þurfi samráð foreldra og börn skuli skrá sig til kirkjuferðarinnar.

Hvað segir þú?

Blíðar kveðjur, Auður Eir

By |12 janúar 2015 15:17|Dagleg trú|

Kristin trú er menningararfleið

Það er semsagt sagt í 29. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að menntun barna skuli beinast að því að móta með barninu virðingu fyrir menningarlegri arfleifð þess og þjóðernislegum gildum þess lands sem það býr í.  Ef barnið er frá öðru landi á það  líka að fá að mótast til virðingar fyrir menningararfleifð þess lands.  Og börn eiga að fá að kynnast menningarháttum sem eru frábrugðnir menningu þess sjálfs.

Kristin trú er menningararfleifð á Íslandi.  Börnin eiga að fá að læra um þessa arfleifð, þau eiga að fá að læra um kristna trú.  Börn sem koma annars staðar að fá tækifæri til að kynnast kristinni trú.  Þau eiga rétt á að njóta sinna arfleifða.  Og það á að kenna öllum börnum víðsýni.

Ef þið viljið skoða þetta þá má finna bókina Alþjóðlega mannréttindasáttmála sem Málflutningsskrifstofa gaf út 1992.  Þar er kaflinn Samningur um réttindi barna, Samþykkt Alsherjarþings Sameinuðu þjóðanna frá 1989, fullgilt fyrir hönd Íslands 1992.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |8 janúar 2015 15:16|Dagleg trú|

Þjóðkirkjan og trúfrelsið

Á aðventunni var enn einu sinni rætt um samstarf kirkju og skóla.  Umræðan á rætur sínar í reglum sem Mannréttindaráð Reykjavíkur setti um samskipti leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila borgarinnar annars vegar og trúar og lífsskoðunarfélaga hins vegar.   Í þessum reglum er sagt að trúar og lífsskoðunarfélög skuli ekki stunda starfsemi sína innan veggja skólanna á skólatíma eða á starfstíma frístundaheimilanna.   Talið er að þetta byggist á trúfrelsi barna og foreldra þeirra og minnt á barnasáttmála.

En það er nú svo að í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir i 29. grein að menntun barna skuli beinast að því að móta með barninu virðingu fyrir menningarlegri arfleifð þess og þjóðernislegum gildum þess lands sem það býr í og þess lands sem það kann að vera upprunnið frá og fyrir öðrum menningarháttum sem eru frábrugðnir menningu þess sjálfs.

Hvað segirðu um þetta?

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |6 janúar 2015 15:14|Dagleg trú|

Gleðilegt ár !

Gleðilegt nýtt ár.  Guð gefur þér það sem þér þykir þig skorta og bætir við það sem þú átt.  Hún dýpkar og víkkar traust okkar á undursamlega kristna trú okkar. Hún elskar okkur og treystir á okkur í baráttunni við að bæta veröldina.  Það er mikill heiður og gleði eins og  við höfum margreynt.

Við ætlum nú á nýju ári að beita okkur að ýmsu eins og fyrri árin.  Við ætlum að bjóða rithöfundum.  Við ætlum  að halda áfram að gera okkur grein fyrir því hvað fólk er að hugsa um kristna trú í þjóðfélaginu núna.  Við ætlum líka að gá að hvað við getum gert til að mæta kvíðanum. Og við ætlum að gá að nýjum orðum í guðfræði okkar.  Við þurfum að hugsa nýjar hugsanir og það gefur okkur enn sem fyrr gullin tækifæri til að hjálpast að við að komast að niðurstöðum.  Þess vegna sendi ég til að byrja með pistla með hugmyndum um fyrsta verkefnið:   Hvar er trúin núna?

Blíðar kveðjur, Auður Eir

By |2 janúar 2015 15:14|Dagleg trú|

Gleðileg jól

Ég heyri meira blaður um jólin en ég sagði í síðustu kveðju.  Aftur og aftur heyri ég á þessari aðventu að smábarnið í vöggunni sé eitt af öllum börnum veraldar og ekkert meira en það.  Það minni okkur á að öll börn eru dýrmæt.  Það er áreiðanlega dagsatt.  Öll börn eru dýrmæt, undursamleg og yndisleg.  Það besta sem þau eiga er að barnið í jötunni var meira en venjulegt barn.  Það var Guð sem var komin til fólksins síns.  Til að hjálpa því og vera hjá því og verða frelsari heimsins og hverrar einustu manneskju sem þiggur.  Guð er komin til veraldarinnar sem hún á.  Hún er komin til þín.  Það er þess vegna sem við höldum jól. Til hamingju með jólin skrifaði eitt af börnunum sem tengjast okkur.  Ég sendi kveðjuna áfram til þín.

Guð gefi þér gleðileg jól.  Auður

By |21 desember 2014 13:59|Dagleg trú|

Undursamleg eru jólin

Hið sanna ljós sem upplýsir hverja manneskju kom nú í heiminn, segir um jólin í upphafi Jóhannesarguðspjalls.   Ég heyri nú sem fyrr margt blaðrið um komu jólanna.  Svo sem að þau hafi verið heiðin hátíð sem var púkkað uppá og gerð að jólunum.  En sannleikrinn er sá að margir grísku heimspekingarnir sem tóku á móti trúnni á Jesúm Krist vildu ólmir sameina kristna trú og grísku heimspekina.  Einn þeirra sem hét Íreneus og lifði til 202 taldi þjóðráð að velja jólum og páskum hátíðisdaga grískrómverskrar menningar.  Það skiptir engu.  Það sem skiptir öllu er að hið sanna ljós sem upplýsir hverja manneskju kom nú í heiminn.  Guð er komin.  Hún kom og var Jesús.  Frelsari heimsins sem gefur þér frið og fögnuð eins og þú hefur margreynt.  Til hamingju með það.  Blíðar kveðjur, Auður

By |17 desember 2014 13:59|Dagleg trú|

Þá sá ég trú þeirra skýrar

Ég hef verið að vitna í bókina Transforming the Faiths of our Fathers sem kom út 2004.   Delores S. Williams, háskólakennari og rithöfnudur byrjar sína grein svona:  Ég er svört kona – það er allt of stutt yfirlýsing um svo flókin veruleika.  Ég er svört kona – kona Guðs, eins og mamma og mamma hennar og hennar mamma – þrællinn.  Þessi trú styrkti það hvort tveggja sem þær kenndu mér, að ég er svört og kona.  Þegar Delores varð femínisti kom upp barátta milli kristinnar trúar hennar og femínismans.  Kvennaguðfræðin styrkti hana og hún gekk í lið með womanistum – konum sem skrifa guðfræði sína frá sjónarmiði afrísk amerískra kvenna.  Með því, segir hún, sá ég skýrar trú mömmu, mömmu hennar og hennar mömmu:  þrælsins.  Ég vona að það komi til góðs í samtali kvennaguðfræðinnar.  Gott að heyra þetta, blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |15 desember 2014 21:14|Dagleg trú|

Réttlætisbaráttan, vináttan og samfélagið skiptir öllu

Ada María Isasi-Diaz er brautryðjandi í mujerista guðfræði, guðfræði frá sjónarmiði kvenna í Suður-Ameríku.  Hún segir að réttlætisbaráttan, vinátta og samfélag hafi verið aðalatriði lífs síns.  Ég er sannfærð um að við getum ekki barist fyrir kvenréttindum nema í vináttu og samfélagi hver við aðra.  Það er útilokað að koma upp réttlátu skipulagi í háskólasamfélaginu, kirkjunni og á víðari sviðum þjóðfélagsins ef samfélag okkar og samstaða er ekki grundvöllurinn í okkar eigin lífi.  Ég get alla vega vitnað um það hvað við komum miklu í framkvæmd þegar við hittumst.  Ég get líka vitnað um það hvað við eyðileggjum mikið þegar við gleymum hver annarri eða notum hver aðra eða samtök okkar til að auka okkar eigin veg.  Gott er að heyra þetta, blíðar kveðjur, Auður Eir

By |12 desember 2014 21:10|Dagleg trú|

Letty Cottin Pogrebin – ein af stofnendum Ms

Ein af konunum sem sáust í heimildarmyndunum um kvennahreyfinguna í Ameríku sem var sýnd í sjónvarpinu nýlega er Letty Cottin Pogrebin, ein af stofnendum tímaritsins Ms.   Letty er Gyðingur og alin upp í trúnni  sem gladdi hana og styrkti.  Ég yfirgaf skipulagt trúarsamfélag af því að það útilokaði konur og gaf mönnum ráðin.  En ég sneri aftur til gyðingdómsins með hugmyndir sem ég hefði ekki fengið nema í kvennahreyfingunni.   Mamma og pabbi höfðu hvort sína sýn á trúna.  Synagógan var vettvangur pabba, sagan, textarnir og hefðirnar.  Trú mömmu snerist um fegurð og þokka trúarinnar.   Ég valdi hvort tveggja.  Mamma sagði hiklaust að það skipti hana meira að gera mig sterka heldur en að fylgja öllum trúarreglunum.   Gott að heyra þetta, blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |10 desember 2014 22:43|Dagleg trú|

Konur hafa mátt og ábyrgð til að endurlífga trúarhefðirnar

Judith Plaskow er ein af forvígiskonum kvennaguðfræðinnar.  Hún er Gyðingur og segir frá áhuga sínum  í upphafi kvennabaráttunnar á áttunda áratugnum á að finna eigin form á guðþjónustunni og umræðu um trúna og femínismann.  Það var erfitt.  Hún var háskólakennari og í maí 1981 söfnuðust sextán konur saman á helgarráðstefnu sem varð grundvöllur fyrir áframhaldandi umræðu og baráttu fyrir áhrifum femínismans á gyðingdóminn.  Judith er sannfærð um að  konur eigi mátt og ábyrgð til að endurlífga trúarhefðirnar og hélt uppi óþreytandi umræðu í háskólanum, trúarsamfélaginu og kvennahreyfingunni.  Svona konur breyta heiminum.  Gott að heyra þetta,  blíðar kveðjur, Auður Eir

By |5 desember 2014 22:00|Dagleg trú|