Hjálpið okkur að hjálpa öðrum

Þetta stóð alltaf á rauðu jólapottunum Hjálpræðishersins sem var safnað í fyrir jólin.   Ég ætla að stinga upp á því að við segjum þetta svona í dag:  Hjálpaðu mér Guð til að hjálpa sjálfri mér.  Hvað finnst þér um það?     Það gerist allt mögulegt í  daganna framgangi, líka þegar við erum alls ekki stórlega miður okkar heldur bara heldur glaðlegar.   Við getum samt misst móðinn af einu og öðru.  Og þá –  þá kemur það okkur til góða að vita að Guð hjálpar okkur þegar við hjálpum okkur sjálfar.  Við gerum eitthvað til að koma okkur aftur á sporið, bara eitthvað,  og við förum aftur að ráða við daginn.  Og ef við ráðum nú samt ekki við daginn í dag kemur góði dagurinn bráðum.  Og enn vitna ég í Steinunni okkar Pálsdóttur sem segir svo oft um Guð vinkonu okkar:  Hún brallar svo.  Yndislegt segi ég.  Ég hugsa að þú segir það líka.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |19 apríl 2015 22:21|Dagleg trú|

Jóhannesarguðspjall

Jóhannes 9. kafli
Guð heyrir ekki bænir syndara, sögðu kallarnir
Fólk er dolfallið yfir Jesú og valdamennirnir ævareiðir. Og Jesús heldur áfram að segja sannleikann sem frelsar þau öll sem taka við honum. Ég þarf að nota tímann meðan hann gefst, sagði hann. Enn læknar hann mann á hvíldardegi. Það var maður sem fæddist blindur og Jesús gaf sjón. Það er margt sagt í kaflanum. Það að Jesús sagði að sjúkdómar væru ekki hefnd Guðs. Og það að valdamennirnir sögðu að Guð bænheyrði ekki syndara heldur guðrækna menn. Þeir þvertóku fyrir það að blindi maðurinn hefði verið guðrækinn. Það var af og frá af því að hann var í vinfengi við Jesúm. Skrýtið að þið skuluð ekki sjá hver hann er þegar þið sjáið og hann opnaði augu mín, sagði maðurinn. Þeir ráku hann af fundinum sem þeir höfðu boðað hann á, en Jesús hitti hann og maðurinn trúði á hann.

By |18 apríl 2015 22:42|Dagleg trú|

Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálf

Ég held það.  Ég hef stundum  velt því fyrir mér hvort þetta væri heldur hryssingslegt.  Hættu þessum roluskap og gerðu eitthvað í málinu, þá verður Guð með þér.  Er verið að segja þetta?  Nei, það er auðvitað langt frá því.  Guð hjálpar okkur þegar við höfum ekki nokkurn mátt og getum ómögulega hjálpað okkur sjálfar.  Hún  hjálpar okkur til að komast út úr vanmættinum  –  og fara að hjálpa okkur sjálfar.  Og þá finnum við meiri og meir mátt.  Held ég,  Hvað heldur þú?

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |17 apríl 2015 22:02|Dagleg trú|

Jóhannesarguðspjall

Jóhannes 8. 31 – 59
Sannleikurinn mun gera ykkur frjáls
Sannleikurinn mun gera okkur frjáls. Þetta eru ein hinna frægu orða Jesú. Það er tíðum vitnað til þeirra sem almenns sannleika um hvaða mál sem er. Þau eiga líka við þau öll. En Jesús sagði þau um frelsið sem við eignumst þegar við sjáum hver hann er. Í allri baráttu Jesú við valdamennina og allri boðuninni til fólksins er boðskapurinn alltaf sá sami: Ég er sannleikurinn. Guð er komin til ykkar í mér. Það er sannleikurinn sem frelsar ykkur og veröldina. Það er ég. Þið sjáið þetta í trúnni á mig. Það er eina leiðin til að sjá það. Menn mótæltu ákaflega og sögðu að hann væri svikari og hefði illan anda og tóku upp steina til að grýta hann. En hann lét þá ekki ná sér og fór.

By |16 apríl 2015 22:34|Dagleg trú|

Það skiptir mestu að við trúum Guði – henni sem sagðist hafa komið í Jesú

Það skiptir mestu að við treystsum Guði fyrir öllu sem við erum, öllu sem við hugsun og finnum.  Af því að   Guð er raunveruleiki allrar veraldarinnar og alls lífs okkar sjálfra.  Hún kom og var Jesús. Við skulum trúa því.  Það skiptir öllu hverju við trúum svo að við getum hugsað bitastæðar hugsanir.  Guð kom til okkar.  Hún var Jesús.  Það er hann sem segir kom til mín og krossinn tekur vegna þín og ljær þér bjarta sólarsýn.  Þótt engin okkar tryði því og ekki nokkur manneskja nokkurs staðar í margbreytilegum heiminum þá væri það samt raunveruleiki veraldarinnar núna eins og alltaf.  En óteljandi manneskjur trúa því og hafa trúað því og munu trúa því.  Við erum í hópnum.  Eða hvað segir þú fyrir þig?

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |15 apríl 2015 21:55|Dagleg trú|

Upprisan er fullnaðarsigur

Upprisan  er fullnaðarsigur yfir dauða og illum öflum. Það allt er að baki. Angarnir eru vissulega hér og hvar, svona eins og njólinn. Hann er lífsseigur og ekki má undan líta. Hið illa er enn  á meðal okkar, er auður krossinn segir hátt og skýrt: Það eru síðustu fjörbrotin, það er á undanhaldi, máttur Krists og ást hans hafa náð undirtökunum.

Ást hans til okkar og löngun hans til að gefa okkur góða líðan er nútíð okkar og framtíð.

Páskar eru ný byrjun.

Með bestu kveðjum,  Dalla Þórðardóttir

By |15 apríl 2015 18:40|Dagleg trú|

Jóhannesarguðspjall

Jóhannes 8. 12 – 30
Ég hef alltaf sagt ykkur hver ég er
Fólkið heldur áfram að hugsa um hann og yfirmennirnir halda áfram að bíða færis til að handtaka hann. Hver ertu?, spurði fólkið. Og Jesús svaraði: Ég hef alltaf sagt ykkur hver ég er. Ég kem frá Guði og ég fer til Guðs og allt sem ég segi er frá Guði. Þegar hann sagði þetta fór margt fólk að trúa á hann.

Skýringar Kvennakirkjunnar við Jóhannesaguðspjall munu smátt og smátt birtast hér (smellið á línuna)

By |14 apríl 2015 22:28|Dagleg trú|

Og svo brjótum við eggið

En nú brjótum við eggið, þetta táknræna og fullkomna form.  Brjótum það til þess að komast að málshættinum.  Og jafnvel þar gegnir eggið hlutverki sínu. Það gefur upp form sitt. Raunverulegt egg er brotið til þess að unginn geti byrjað sitt eiginlega líf og við brjótum súkkulaði eggið, því að óbrotið verður það engum til gleði.  Eyðilegging verður til lífs.  Lífið sigrar og hefur tilgang.  Þetta gerðist páskamorguninn fyrsta. Jesús dó en hann gaf lif og hann gaf von.

 

Með bestu kveðjum  Dalla Þórðardóttir

By |14 apríl 2015 18:39|Dagleg trú|

Páskaeggið er tákn um endalausa ást Guðs

Eggið felur í sér mörg tákn. Páskaeggið er sporöskjulaga, við getum látið fingurna renna hring eftir hring, það veltur eftir borðinu og rekur sig aldrei á kant , þar er hvorki upphaf né endir. Eggið táknar endalausa ást, endalausa gleði. Það táknar tryggð sem gefst ekki upp. Sama táknmálið á við um hringinn, þann hring sem hjón draga á fingur hvort öðru. Sá hringur og formið minnir á þá ást sem vonar og fyrirgefur. Eins er með eggið. Það minnir á Guð sem alltaf hefur trú á þér.

Með bestu kveðjum,  Dalla Þórðardóttir

By |13 apríl 2015 18:35|Dagleg trú|

Jóhannesarguðspjall

Jóhannes 8. 1 – 11
Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum
Jesús lét sér ekki bregða. Hann fór til Olíufjallsins, líklega til að biðja. Svo kom hann snemma inn í borgina og hélt áfram að tala við þau sem söfnuðust í kringum hann og þau voru mörg. Þetta er hinn frægi kafli um konuna sem yfirmennirnir komu með til hans til að fá hann til að dæma hana fyrir siðferðisbrot eftir lögmálinu. Hann gæti ekki snúið sig út úr þessu en þeir gætu ákært hann hvernig sem hann brygðist við. En þeir gátu það ekki. Því hann sagði þessi gullnu orð: Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana. Þeir fór burt einn af öðrum. En Jesús talaði við konuna. Ég sakfelli þig ekki. Þú getur tekið upp nýtt líf, gerðu það.

Skýringar Kvennakirkjunnar við Jóhannesaguðspjall munu smátt og smátt birtast hér (smellið á línuna)

By |12 apríl 2015 22:26|Dagleg trú|