Við höfum skuldbundið okkur

Kristið fólk hefur gefið út margar skuldbindingar.  Það skuldbatt sig til að halda trúfesti við orð frelsara síns Jesú Krists.  Það skrifaði yfirlýsingu sem við eigum í Postullegu trúarjátningunni frá annarri öld.  Við  orðum hana svona í Kvennakirkjunni:  Ég trúi á Guð sem skapar og er Jesús sem frelsar og Heilagur anda sem er alltaf hjá okkur.   En við flytjum hana líka í allri lengd sinni.   Þau urðu að gera sér grein fyrir trú sinni, sjálfra sín vegna fyrst og fremst, en líka til segja öðrum hver hún væri.  Það var mikið verk margra alda að tala saman til að fá niðurstöðu um trúarjátningar kirkjunnar.  Við búum að því mikla starfi og skulum þakka fyrir það og gera upp okkar eigin huga um þessar miklu yfirlýsingar.

Með blíðum kveðjum,  Auður Eir

By |27 ágúst 2015 21:07|Dagleg trú|

Við skulum skuldbinda okkur

Við skulum skuldbinda okkur

Árið 1993 kom fólk saman í Chicago til að finna og koma orðum að siðfræði sem fólk gæti komið sér saman um.

Íhugum viðfangsefnið, niðurstöður þessa fundar:

Við skuldbindum okkur til að iðka menningu sem virðir líf og er laus við ofbeldi
menningu réttláts hagkerfis og samstöðu
menningu umburðarlyndis og lífs í sannleika
menningu jafnréttis og samvinnu karla og kvenna

Leyfum öðrum að iðka sína trú og leita leiða til að vinna að friði og sátt. Við trúum að Guð hjálpi okkur til að finna leiðir. Hún skundar til hjálpar við hitt fólkið á einhvern annan hátt, treystum henni til þess. En að við skömmumst okkar fyrir okkar kristnu trú, nei, ekki aldeilis!  Eða að við sláum af þessum kröfum um virðingu og jafnrétti, af því að það hentar ekki fólki sem ekki trúir eða trúir öðru. Það skal aldrei verða!

http://en.wikipedia.org/wiki/Towards_a_Global_Ethic:_An_Initial_Declaration

Commitment to a culture of non-violence and respect for life
Commitment to a culture of solidarity and a just economic order
Commitment to a culture of tolerance and a life of truthfulness
Commitment to a culture of equal rights and partnership between men and women

Með bestu kveðjum,  Yrsa Þórðardóttir

By |25 ágúst 2015 21:04|Dagleg trú|

Við getum beðið fyrir öllum

Þau sem trúa ekki á Guð sem opinberaðist í Jesú og reis upp á páskum, eru afskaplega gott fólk og virðingarvert. Þau bara trúa ekki á okkar Guð. En Guð trúir á þau.

Í löndum þar sem kristni hefur tímabundið verið skotið til hliðar af virðingu við veraldlegt lýðveldi, benda sum á að nú sé komið nóg. Rómverska kirkjan heldur áfram að banna konum að vera prestar, múslimakonum er bannað að vera með slæður á höfði, fólk er illa upplýst um trúarbrögð almennt og þá jafnframt bókmenntir og listasögu.

Hvað getum við gert? Við getum beðið fyrir öllum og siglt í kjölfar friðarhreyfinga nútímans og rifjað upp okkar guðfræði. Jesús barðist fyrir jafnrétti. Jesús ítrekaði gullnu regluna: komdu fram við aðra eins og þú vilt að þau komi fram við þig.

Með bestu kveðjum,  Yrsa Þórðardóttir

By |6 júlí 2015 15:42|Dagleg trú|

Gætum að andlegum auðæfum okkar

Það er dýrmætt að eiga trú.  Það er fjársjóður.  Látum engan og ekkert taka hana frá okkur.  Hún er frjálst val.  Og það er einnig dýrmætt að fá að lifa í kristnu samfélagi, hvort heldur sem er í kirkjunni eða í þjóðfélaginu.  Það er yndislegt að hafa frelsi til að sækja kirkjur og fá þar kraft og blessun til að fara aftur út í hið daglega líf.  Gætum að andlegum auðæfum okkar.  Við erum fulltrúar Guðs í heiminum.  Við berum ábyrgð að standa vörð um réttlætið.

Með bestu kveðjum,  Hulda Hrönn M. Helgadóttir

 

By |1 júlí 2015 15:38|Dagleg trú|

Ef einhver elskar okkur

Astrid Lindgren sjálf í eigin persónu sagði að við gætum allt mögulegt ef einhver elskaði okkur.  Og einhver elska okkur.  Og við elskum fólk og gefum því máttinn til að gera allt mögulegt gott og undursamlegt.  Hugsum um það og fyllumst himinlifandi fögnuði.  Gerum eitthvað yndislegt í dag.  Við finnum gleði kristinnar trúar í gleði hversdaganna.  Við finnum gleði daganna í gleði kristinnar trúar.  Guð og við, við og Guð.  Hún sem kom og var Jesús.  Við vinnum saman að gleðinni.  Svo ef við sjáum sólskinsblett í heiði þá setjumst allar það og gleðjum oss.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |24 júní 2015 15:37|Dagleg trú|

Kristin trú breytir lífi okkar

Í Lútherstrúarlöndum er áhersla á menntun, og þar er aukin efnahagsleg velferð og félagsleg velferð.  Guð er vinur okkar í blíðu og stríðu og gengur með okkur lífsins götu.  Það er dýrmætt og gerir okkur styrk í gangi.  Það hefur áhrif á líf kristins fólks að vita sig elskuð og virt af Guði og skynja kærleika hans til þess.  Kristin trú breytir lífi okkar.  Hún hefur þau áhrif að við viljum segja öðrum frá Guði og kærleika hans til mannanna, og hjálpar okkur til að leita leiða til að umgangast fólk af skilningi.  Hætt er við að þau sem ekki trúa vilji grafa undan okkar trú.  Á því þurfum við að passa okkur.

 

Með bestu kveðjum,  Hulda Hrönn M. Helgadóttir

By |19 júní 2015 15:37|Dagleg trú|

Að biðja fyrir símaskránni

Snjallsímar eru til margs brúklegir. Margir þekkja hversu gott er að gæjast í þá þegar þarf að bíða og láta tímann líða. Hvernig væri að nota tækifærið næst þegar þú þarft að láta tímann líða og biðja fyrir símaskránni , ekki kannski öllum á já.is – heldur bara fólkinu í símaskránni í símanum þínum. Í henni eru væntanlega öll þau sem þér eru kærust og skipta þig mestu máli. Þar er líka þau sem hafa kennt þér, veitt þér aðstoð og kannski einhver sem hafa hjálpað þér á ögurstundu. Kannski eru þar líka einhver sem þú hefur ekki hugsað til lengi eða jafnvel þau sem þú veist að þú heyrir aldrei í aftur. Þú gætir byrjað á A eða Ö eða bara skrollað og látið tilviljunina ráða, tekið einn bókstaf á dag eða valið tvö fólk í hverri viku –  Spurning um að prófa næst þegar þú ert að fikta í símanum ! Biðjið án afláts (Fyrra Þessaloníkubréf 5:17) líka með snjallsímanum !

Með kærleikans kveðju Arndís Linn

By |4 júní 2015 20:16|Dagleg trú|

Hún er hjá okkur dag og nótt

Hún hraðar sér til okkar.  Til að hjálpa okkur og líkna okkur.  Dagarnir eru alla vega,  eins og við vitum svo mætavel af því að við höfum séð það aftur og aftur.  Stundum segi ég söguna af konunni sem stoppaði á grænu ljósi á Hringbrautinni, kannski var það annars staðar.  En það er alveg satt,  hún stoppaði af þvi að græna ljósið var búið að vera svo lengi að hún treysti því ekki að það yrði áfram.  Ætli við stoppum ekki stundum þótt  við höfum grænt ljós í lífinu?  Kvíðum og þjáumst af sektarkennd þótt ekkert sé að ógna okkur?   Hvað segir þú?  Þá sér Guð  hvað við hugsum og hraðar sér af himni með hjálp og líkn.  Hún treystir okkur til að taka á móti.   Þetta er úr sálminum fagra Á hendur fel þú honum er himna stýrir borg.  Númer 38 í sálmabókinni.  Syngjum.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

 

By |2 júní 2015 20:13|Dagleg trú|

Af himni er þú þér hraðar, með hjálp og líkn til vor

Guð flýtir sér að koma til móts við okkur, hún er alltaf hjá okkur dag og nótt. Nú er fólk víða um heim að hugsa með sér: hvernig getum við verið með Guði og haft hana með í ráðum? Það er ekki lengur í tísku. Orðræðan er þannig að fólk getur hreinlega orðið vandræðalegt ef ég segist vera kristin. Svo fer ég kannski hjá mér ef það nefnir álfa og heilun. Hvað þá ef ég fer eitthvað að nefna Islam og jafnrétti kynjanna.

Frá lokum síðari heimsstyrjaldar hefur fólk eflst í friðarbaráttu og viljað halda fast í áunnin mannréttindi og fenginn sigur í baráttu gegn þrælahaldi. Gleymum því ekki hversu miklir sigrar unnust þar vegna stanslausrar vinnu kristins fólks, sem hafði trúarlegar ástæður til að virða allt fólk.

Sömuleiðis erum við nú, kristið fólk,  sannfært um blessun Guðs og hvatningu til góðra verka. Að lifa blessuð alla daga er ástand sem hvetur til góðs.

Með bestu kveðjum,  Yrsa Þórðardóttir

By |30 maí 2015 20:11|Dagleg trú|

Það sem Jesús sagði um hamingjuna og fullkomnunina

Jesús sagði að við yrðum hamingjusöm og fullkomin með því einu að eiga vináttu sína.  Vertu í mér, þá verð ég í þér.  Ég er frelsari þinn.  Ég elska þig.  Ég dó og reis upp fyrir þig.    Jesús segir okkur að hann gefi okkur sjálfur styrkinn til að taka á móti gæfu hvers dags.  Hann gefur okkur frið hugans til að gera það sem við þurfum að gera og það sem okkur langar til að gera.  Hann gerir okkur mildar og máttugar, hugrakkar og skemmtilegar.  Hann fyrirgefur okkur og endurnýjar okkur.  Hikum ekki, tökum við því og lifum í blessun kristinnar trúar okkur.

Blíðar kveðjur, Auður Eir

By |26 maí 2015 20:10|Dagleg trú|