Um Markúsarguðspjall

Markúsaarguðspjall segir allra fyrst að Jesús sé frelsarinn sem var skrifað um í Gamla testamentinu.  Það var sjálf Biblía hebresku þjóðarinnar og kristið fólk fór að kalla það Gamla testamentið þegar Nýja testamentið var gefið út.  Jóhannes skírari undirbjó komu Jesú og segir að hún hafi verið undirbúin í Ritningunni sem þjóðin elskaði svo mikið.  Jesús kom og sagðist vera sá sem var skrifað um.  Hann kallaði fólk til að fylgja sér, líka konur eins og sést þótt það sé ekki skrifað nærri jafn mikið um þær og strákana.  En það var skrifað um þær sem var aldeilis ekki vaninn þá og það sýnir að þær voru fleiri en þær sem er sagt frá.  Segja kvennaguðfræðingarnir.  Jesús predikaði og læknaði.  Hann varð svo vinsæll að ef hann hefði bara stoppað og ekkert talað um að hann væri frelsarinn sem var búið að lofa hefði þetta ekki endað svona hörmulega.  En það hefði gleymst.  En hann sagðist vera Guð og þess vegna gæti hann fyrirgefið syndir og breytt lífi fólks.  Landsstjórunum fannst þetta óþolandi og skemmdarverk á trúnni.   Svo það stefndi strax að endalokunum eins og við lesum í guðspjallinu.  Hvað finnst þér?  Blíðar kveðjur.  Auður Eir

By |20 janúar 2022 16:11|Dagleg trú|

Biblían

Biblían er grundvallarrit kristinnar trúar.  Án Bibliunnar væri engin kristin trú og við vissum ekki af komu Jesú.  Við erum í hópi allra milljónanna sem treysta Biblíunni og elska hana, lesa hana og rannsaka.  Kvennakirkjur alls heimsins eru torg þar sem allar konur hennar eru kvaddar saman til að rannsaka Biblíuna.  Mikið eigum við gott að vera í hópnum.  Fólk heillaðist af kristinni trú af því að hún var öðruvísi en öll hin trúarbrögðin.  Hún var ekki um Guð í musteri eða styttum heldur um Guð sem elskar hverja einustu manneskju eins og hún er.  Hún er skapari allra og frelsari þeirra og er alltaf hjá þeim öllum í senn og hverri einustu.  Og þá hjá þér og mér.  Markús segir frá þessu öllu og mikið eigum við honum að þakka fyrir gullvönduð og áreiðanleg skrifin.  Ef hann og hinir hefðu ekki skrifað vissum við ekki að Jesús væri til.  Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |9 janúar 2022 18:21|Dagleg trú|

Áfram lesum við Markús í Þingholtsstrætinu

 Við lesum núna sjötta kaflann hjá Markúsi og tölum um hann á mánudaginn kemur.  Hann er um predikun Jesú í heimabænum og góðar móttökur sem breyttust í vondar.   Hvað þykistu vera?  Svo segir frá því að hann sendi postulana út til að predika.  Næst frá veislunni hjá Heródesi og stúpdótturinni sem dansaði fyrir gestina og mömmu hennar sem lét koma með höfuð Jóhannesar skírara á fati inn í veisluna.  Og síðast frá samveru Jesú með hópnum sínum, brauðveislunni með fólkinu úti í náttúrunni, storminum á vatninu og lækningunni þegar fólkið streymdi til Jesú til að læknast.  

Við lesum um postulana sem Jesús valdi til að vinna með sér.   Það voru ekki bara menn heldur líka konur og að það breytti sögu veraldarinnar. 

By |20 nóvember 2021 17:48|Dagleg trú|

Hvað um það þegar við læknumst ekki?

Við töluðum um 5. kaflann hjá Markúsi á mánudaginn var.  Töluðum mest um konuna með blæðingarnar.  Hún treysti Jesú.  Hann læknaði hana.  Hvað um það þegar við læknumst ekki?  Hvað um allt mótlætið sem hann frelsar okkur ekki frá?  Við vitnuðum í orði Jesú í síðustu kvöldmáltíðinni:  Ég ætla ekki að taka ykkur út úr þessum flókna heimi heldur gefa ykkur styrkinn til að vera þar.  Svo sagði hann:  Þið erum með mér í baráttunni við mótlætið.  Ég verð alltaf með ykkur.  Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |16 nóvember 2021 17:47|Dagleg trú|

Tvær Vinkonur okkar

Tvær vinkonur okkar

Tvær vinkonur okkar í hverfinu hafa fallið frá,   Þuríður Bergmann og Vilborg Dagbjartsdóttir.  
Þuríður bjó úti í Þingholtsstræti í húsi sem hún  gerði upp fyrir áratugum af miklu hugrekki og 
ræktaði garð sem var ævintýri. Hún var með fyrstu konum í Reykjavík til að annast glugga-
útstillingar.  Hún bauðst til að lána okkur stólana sína þegar við áttum ekki nógu marga fyrir allar 
konurnar sem komu til okkar.  Við kölluðum hana alltaf Þuríði á 13.

Vilborg bjó hérna niðri við Bókhlöðustíginn og kom stundum inn til okkar eða við spjölluðum 
á gangstéttinni.  Hún sagði að það væri mesti  misskilningur að vinstrafólk eins og hún væri ekki 
trúað, hún hefði alltaf farið í kirkju.   Vilborg var kennari og þjóðfræg  fyrir fallegu ljóðin sín.

By |13 nóvember 2021 22:16|Dagleg trú|

Tilboð Jesú

Góða vinkona.  Á mánudaginn var lásum við 4. kaflann í Markúsi.  Við töluðum mest um það mikla tilboð Jesú að taka það alvarlega sem hann býður okkur.  Svo að við  tökum ekki aðrar hugmyndir um gleði lífsins fram yfir hugmyndir hans.   Og látum ekki verkefnin sem mæta okkur, góð og erfið kæfa trú okkar.  Við skulum treysta Jesú, Guði vinkonu okkar svo að líf okkar haldi áfram að vera yndislegt.  Hvað hugsaðir þú? Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |13 nóvember 2021 16:21|Dagleg trú|

Biðjum hver fyrir annarri

Það er svo gott að geta beðið hver fyrir annarri, alltaf fyrir okkur öllum.  Þegar sérstakt ber að  biðjum við sérstaklega fyrir því.  Nú biðjum við fyrir vinkonum okkar sem hafa veikst.   
Við treystum Guði.  Alltaf.  Við höfum séð að hún er með okkur og hjálpar alltaf.  

By |12 nóvember 2021 22:15|Dagleg trú|

Treystum Guði æ og ætíð

Biblíufólkið sagði það.  Og gerði það.  Við líka.  Það er best af öllu.  Hún brallar svo, segjum við.  Af því að hún er alltaf að bralla  og hlaða á okkur gjöfum. 

Við skulum halda áfram að sjá allar þessar gjafir í daglegu lífi okkar.  Hvað finnst þér gleðja þig mest í dag?  Það er svo mikið sem berst að okkur.  Og líka mikið sem við fáum að gefa öðrum.   Við megum treysta því að við verðum einhverjum til hjálpar og blessunar.  Mörgum.

Við höfum alltaf verið sammála um að við eigum að hafa álit á sjálfum okkur.  Það er bæði bráðnauðsynlegt og engu síður fallegt, gott og skemmtilegt.  Við erum vinkonur Guðs og hún
gerir okkur mildar og máttugar.  Hún fyrirgefur okkur mistökin og gefur okkur gott og fallegt sjálfstraust til að láta mistökin ekki íþyngja okkur lengi en halda áfram í góðu lífi okkar.  Finnst þér það ekki?

Tökum nú eftir því hvað mikið af blessun berst að okkur í dag.  Sumt er það sama og í gær og miklu fleiri daga, sumt er eitthvað sérstakt.  Það er lífslist að sjá það, taka á  móti því og njóta þess.  Gerum það.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |11 nóvember 2021 22:13|Dagleg trú|

Lestur Markúsarguðpjalls heldur áfram

Nú, kæru vinkonur lesum við 4. kaflann hjá Markúsi.  Starfið er komið á legg, hópur tekinn til starfa og sérstakur postulahópur.  Það er fullt af konum í hópnum.  Jesús hefur sagt að öll séu velkomin en bara sum komi.   Í 4. kaflanum talar hann um þennan mikla hóp sem við erum hluti af.  Við tökum alla vega á móti því sem hann segir:  Við hugsum ekkert um það, eða okkur finnst kristin trú ekki hin rétta trú, eða við hugsum svo mikið um allt sem við erum að gera með áhyggjum og argaþrasi að við hugsum ekki lengra.  En.  Kannski tökum við bara á móti orðinu.  Orði Jesú.  Og sjáum hvað það er undursamlegt.  Já.   Það er nefnilega það sem við gerum.   Við treystum því að þótt trú okkar sér bara eins og krækiber þá sér Jesús um að hún verði allt í öllu í lífi okkar.  Hann kyrrir storminn, læknar angist okkar.  Það breytir lífi okkar.  Hann getur breytti okkur af því að hann er  Guð sem kom, Guð vinkona okkar sem kom og er hjá okkur.  Hvað segirðu?  Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |5 nóvember 2021 19:42|Dagleg trú|

3. kafli Markúsar

Í síðasta tíma lásum við þriðja kaflann hjá Markúsi og töluðum um byltinguna sem Jesús gerði með því að gera allar þessar  fjölmörgu og stórflottu konur að samstarfskonum.  Við töluðum um okkar eigin gleði af því að vera í hópnum og allt sem við eigum þess vegna í daglegu lífi okkar.  Við ræddum byltinguna sem við sjálfar sáum í kvennahreyfingunni á síðustu öld og breytingarnar sem urðu.  Ég spurði hvað þeim fyndist um stöðu okkar núna og næstu skref og lofaði að leggja ekki aftur fram svona leiðinlegar spurningar um mál sem við værum búnar að ræða svo vandlega að ekki væri á bætandi.  Niðurstaðan:  Verum glaðar í frelsi okkar og látum til okkar taka þar sem við getum, en alltaf í gleðinni sem við eigum í kristinni trú okkar.  Hvað finnst þér?  Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |3 nóvember 2021 16:47|Dagleg trú|