Við viðurkennum boðflennur, viðurkennum tilveru þeirra. Líka heima hjá okkur, í okkar hugarheimi. Eða finnst þér það ekki? Þær ryðjast eða læðast inn í huga okkar, líka á friðsömum dögum þegar við erum frjálsar og framtakssamar og þökkum fyrirgefningu Guðs. Þær koma líka þá daga. Þótt við séum á móti þeim. Þótt við höfum rekið þær út síðast. Þær koma samt. Sumar heita öfund og aðrar ótti við annað fólk, sumar afbrýðisemi og sumar reiði sem er út í bláinn. Sumar vantrú á sjálfum okkur. Þær eru fleiri. Og okkur finnst við pöddulegar að hafa ekki stoppað þær. Við skömmumst okkar fyrir þær. Það væri erfitt ef við værum ekki vinkonur Guðs. En við erum vinkonur hennar. Og hún hlær ekki að okkur og skammar okkur ekki þótt við séum svoddan pöddur. Hún hjálpar okkur. Hún fyrirgefur okkur og hjálpar okkur til að fyrirgefa sjálfum okkur og byrja upp á nýtt. Er það ekki undursamlegt? Jú, það er undursamlegt.
Blíðar kveðjur, Auður Eir