Við erum enn að skoða bókina okkar Göngum í hús Guðs.
Eftir trúarjátningarnar koma bænir í bænastundunum þegar við lesum bænirnar sem eru skrifaðar og lagðar í bænakörfuna okkar.
Fyrst og síðast í bænastundinni lesum við sameiginlega bæn . Píanóleikari okkar Aðalheiður Þorsteinsdóttir spilar í upphafi og lokum bænastundarinnar og milli bænanna, við lesum nokkrar bænir í einu og stundum syngur Anna Sigga söngkona okkar með Aðalheiði. Ein upphafsbænin í bænastundunum er svona:
Við finnum það Guð að það er margt í lífinu sem særir okkur. Við finnum það líka að þú læknar okkur aftur og aftur af því öllu. Við biðjum þig að hjálpa okkur að óttast ekki lífið heldur fela það í þínar hendur og treysta því. Kenndu okkur að nota lífið og njóta þess og læknast hjá þér með því að skapa með þér í daglegu lífi okkar. Við þökkum þér fyrir að heyra allar bænir okkar. Í Jesú nafni. Amen.
Svo eru lesnar bænir úr bænakörfunni og lokabænin. Ein er svona:
Elsku Guð vinkona okkar. Við vitum að þú hlustar á allt sem við segjum þér upphátt og í hljóði. Við vitum að þú hjálpar þeim sem við báðum fyrir og að þú hjálpar okkur að hjálpa þar sem við getum. Blessaðu okkur Guð, blessaðu Kvennakirkjuna, blessaðu söfnuðinn hér í …. kirkju og kirkju þína um víða veröld. Blessaðu þau öll sem berjast fyrir réttlætinu. Blessaðu þau sem þjást af því að þau njóta ekki réttlætis. Í Jesú nafni. Amen.
Í punktalínunni er nafnið á söfnuðinum sem lánar okkur kirkju sína í messunni. Bænastundinni lýkur með því að við förum með Faðir vor saman.
Blíðar kveðjur, Auður Eir