Við skulum tala við Guð á hverjum degi. Við megum segja henni allt, það sem við segjum öðrum og það sem við segjum engri nema henni. Og líka það sem við viljum varla segja sjálfum okkur. Hún hlustar alltaf og skilur alltaf. Og hjálpar alltaf. Í messunum í Kvennakirkjunni, leggjum við bænir okkar í körfu og lesum þær upphátt. Einni bænastundinni lýkur svona:
Við vitum og finnum að þú ert hjá okkur og heyrðir allt sem við sögðum. Við felum þér líka allar bænirnar sem voru beðnar í hljóði. Við felum þér okkur sjálfar og sjálf og þökkum þér fyrir að mega biðja hver fyrir annarri og hvert fyrir öðru á hverjum degi. Við þökkum þér fyrir Kvennakirkjuna okkar og fyrir alla söfnuði landsins og alla kirkju heimsins. Við biðjum þig fyrir öllum sem bera boðskap fagnaðarerindisins til annarra. Í Jesú nafni. Amen
Blíðar kveðjur, Auður Eir