About Arndis

This author has not yet filled in any details.
So far has created 454 blog entries.

Vertu leiðtogi í lífi þínu

Þú ferð með sjálfri þér hvert sem þú ferð.  Í öllu daglegu lífi, með hverjum sem þú ert og í öllu sem þú gerir, hversdagslegu og  sérstöku, erfiðu og góðu.
Hvað þarftu til þess?
Þú þarft að hafa sjálfa þig á hreinu.
Þú þarft að sjá hvað þú hefur ekki á hreinu.
Og hvað gleður þig og uppörvar.
Sjáðu hvað þig langar að gera betur.
Sjáðu  hver þú ert.
Þú ert yndisleg manneskja og vinkona Guðs.
Þú ert leiðtogi af því að þú ert vinkona Guðs.
Þú heldur áfram í lífi þínu, mild og máttug.  Og hún er með þér.

Námskeiðið er byggt á ráðleggingum Fjallræðunnar:   Treystu Guði hvaða tilfinningar sem fylla hjarta þitt.  Vertu hugrökk, friðsöm og umburðarlynd.  Ekki láta uppspunnar ásakanir særa þig lengi.  Ekki vera dómhörð, heldur ekki um sjálfa þig.  Hugsaðu oft um það góða sem þú átt.  Trúðu ekki öllu. Trúðu Jesú.

Námskeiðið er í Þingholtsstræti 17 byrjar mánudaginn 30. september og stendur til 28. október,
í  fimm kvöld, frá klukkan 19.30 til 21,  frá hálf átta til níu.
Það kostar 5000 krónur með námskeiðsbók.

Vertu innilega velkomin og skráðu þig á kvennakirkjan(hja)kvennakirkjan.is  eða í síma 5513934.

By |14 september 2013 21:49|Fréttir|

Safna saman

Ef þið leitið mín munuð þið finna mig. Þegar þið leitið mín af öllu hjarta læt ég ykkur finna mig, segir Drottinn. Ég mun snúa við högum ykkar og safna ykkur saman.  (Jeremía 29.13-14)
Á haustin er alls staðar verið að safna saman.  Börnin safnast saman í skólana aftur, fullorðna fólkið safnast saman til að sinna áhugamálum sínum.  Við söfnum saman kartöflum og grænmeti úr jörðinni.  Kindunum mínum verður bráðum safnað saman en misjöfn örlög munu þær vissulega hljóta.  Þegar ég safnaði saman berjum um daginn minntist ég hughreystandi orðanna sem Guð hefur oft sagt við fólkið sitt, þar sem Guð lofar að safna okkur saman.  Sum haust og suma daga þarf ég á því að halda að Guð safni mér saman.  Ég þarf þess líka að Guð hjálpi mér að safna saman því sem ég þarf að geyma og henda hinu.  Af öllu hjarta veit ég að Guð finnur mig og ég Guð og örugg hvíli ég í því að Guð safnar ekki bara mér saman heldur öllum hinum líka.
Guðbjörg Arnardóttir

By |11 september 2013 21:14|Dagleg trú|

Guð varðveitir útgang þinn og inngang

Ég valdi okkur þetta vers úr Davíðssálmi, 121.8, sem haustversið í byrjun starfsins og nýrrar byrjunar í lífi okkar með haustinu.  Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu, héðan í frá og að eilífu.  Við erum alltaf að byrja á nýju og nýju til tilbreytingar og endurnýjunar.  Nú varðveitir Guð okkur í útgöngu okkar úr sumrinu og inn i haustið.  Versið var haft yfir þegar við vorum skírðar og hefur alltaf fylgt okkur.  Guð hefur alltaf fylgt okkur, inn og út úr tímabilum og hugarhræringum og hverju sem er.  Það er svo stórkostlegt að ekki verður orðum að komið.

Hún blessar okkur þegar við göngum inn til hennar sem á bæði tímann og eilífðina og stjórnar Guðsríkinu.  Þú veist hvernig það er.  Við komum inn fyrir dyrnar og hún tekur strax á móti okkur, sest hjá okkur og hlustar og svarar.  Hún hlustar á allt og skilur allt og á alltf ráð.

Biðjum hver fyrir annarri. Biðjum fyrir þeim sem eiga í erfiðleikum núna og fyrir þeim sem eiga góða tíma í haustinu.  Jónas skrifaði í spádómsbókina sína, 2.8, að bænir okkar komi til Guðs og mér finnst ég geti séð þær koma inn úr gættinni og setjast við borðið hjá henni, litlar og fallegar og ná ekki niður á gólf.  Og hún sest hjá þeim og hlustar á þær og tekur málið að sér.

Blíðar haustkveðjur,  Auður

By |4 september 2013 21:04|Dagleg trú|

Kvennakirkjan heldur guðþjónustu í Neskirkju við Hagatorg

Sunnudaginn 8. september klukkan 20 heldur Kvennakirkjan guðþjónustu í Neskirkju við Hagatorg. Í guðþjónustunni setur séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir séra Arndísi G. Bernhardsdóttur Linn í embætti prests Kvennakirkjunnar en þær munu starfa saman sem prestar Kvennakirkjunnar. Séra Arndís prédikar, Anna Sigríður Helgadóttir syngur einsöng og Kór Kvennakirkjunnar leiðir söng undir stjórn Aðalheiðar Þorsteinsdóttur.

Kaffi í safnaðarheimilinu á eftir. Þær sem sjá sér fært að koma með kaffibrauð fá alúðarþakkir.

By |4 september 2013 14:58|Fréttir|

Konur sem standa í skilnaði

Konur sem standa í skilnaði

Konur með svipaða reynslu hittast og tala saman, tala við Guð og hlusta á hana, tala við leiðbeinendur   –   og ná áttum. Samverurnar hefjast  þriðjudaginn 1. október  klukkan 17.15 og standa til 18.30.  Leiðbeinendur verða Guðrún Elíasdóttir, Guðrún B. Jónsson og Kristín Ragnarsdóttir.

By |2 september 2013 23:04|Fréttir|

Námskeið Kvennakirkjunnar í haust

Námskeið Kvennakirkjunnar þetta haustið verða sem hér segir:

Vertu leiðtogi

Fyrir hvað fólk?  Fyrir þig. Þú útskrifast með þessa diplómu: Þú ert mild og máttug af því að þú ert vinkona Guðs. Kennslan er byggð á Fjallræðunni. Við kennum allar  með Auði Eir. Biblíuvers, bænir og söngur innifalið. Námskeiðið verður á  mánudögum klukkan 19:30 frá 30. september til 28. október.

Yndisleg uppörvun

Konur segja frá forgöngukonum kvenfrelsis á Íslandi.  Þú verður enn skemmtilegri og ánægðari með þig eftir námskeiðið. Þú verður frá þér numin og það endist. Námskeiðið verður á mánudögum klukkan 19:30 frá 4. nóvember til 2. desember.

Námskeiðin eru í Þingholtsstræti 17.  Skráðu þig á netfangið okkar, kvennakirkjan(hja)kvennakirkjan.is  áður en þau byrja. Námskeiðin kosta bara 5000 krónur.

 

By |11 ágúst 2013 14:17|Fréttir|

Útimessa í Öskjuhlíð

Sunnudaginn 11. ágúst verður Kvennakirkjan með útimessu í Öskjuhlíð sem hefst kl. 16:00. Við hittumst við inngang Perlunnar og göngum saman um Öskjuhlíðina. Auður Eir Vilhjálmsdóttir flytur hugleiðingu og við syngjum saman undir stjórn Aðalheiðar Þorsteinsdóttur.

By |8 ágúst 2013 14:12|Fréttir, Óflokkað|

Margvísleg speki Söndags BT

Meðan ég enn naut þeirrar miklu gæfu að lesa Söndags BT reglulega bauðst mér margvísleg spekin og sum býr enn með mér.  Eins og  greinin um alla uppörvunina sem fólk átti að ausa hvert yfir annað með glaðlegum hvatningum.  Vertu bjartsýn og glaðleg og jákvæð og tillitssöm og sjálfstæð og þakklát og fjölmargt annað.  Það kemur fólki vel en fyrst og fremst sjálfri þér og það er einmitt markmiðið.  Ég hefði löngu gleymt greininni ef hún hefði ekki endað svona:  En það koma bara dagar hjá mér þegar mér er alveg ómögulegt að vera neitt af þessu en rembist samt við það og verð aðframkomin.  Ég fer heim eftir allt glaðlega viðmótið, dreg fyrir gluggana, tek símann og dyrabjölluna úr sambandi og skríð undir rúm.  Svo ég taki nú við af blaðakonunni bæti ég því við að mikið eigum við allar gott, hún og við, sem mætum sífellt alla vega dögum, að við skulum eiga Guð að vinkonu og treysta því að hún standi með okkur í þessu öllu.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |25 júlí 2013 21:59|Dagleg trú|

Leiðtogamenntun á grundvelli Fjallræðunnar

Við ætlum að halda námskeið í haust um leiðtogamenntun á grundvelli Fjallræðunnar. Það stendur til dæmis þar að við skulum æfa okkur í að vera með öðru fólki. Lesum orð um þetta frá Margaret Wheatley sem var hér í júní á vegum Þjónandi forystu. Hún segir að flest fólk sem hún þekkir vilji vera í betra sambandi við annað fólk. Það er sagt að við verðum að sýna sjálfsöryggi og vinna hratt. En það er miklu betra fyrir okkur að gefa okkur tíma til að tala saman og hlusta á ólíkar skoðanir hvert annars. Við víkkum okkar eigin skoðanir og komumst í samband við fólk sem við héldum að við skildum ekkert í, segir Margaret Wheatley.

Blíðar kveðjur, Auður Eir

By |20 júlí 2013 21:49|Dagleg trú|

Kvennaguðfræðin hefur elft kirkjuna og íslenskt samfélag

Við vígsluna í Dómkirkjunni í gær sagði Agnes biskup að um  merkisatburð væri að ræða þar sem í fyrsta sinn væri prestur vígður til að sinna sérstaklega þjónustu við konur í kirkjunni.  Í yfirlýsingu sem hún setti á heimasíðu sína www.biskup.is sagði hún  jafnframt að með vígslu prests Kvennakirkjunnar væri lögð áhersla á mikilvægi kvennaguðfræði og jafnréttis kynjanna fyrir kirkju framtíðarinnar á Íslandi. Kvennakirkjan fagnar þessum orðum biskups og tekur heilshugar undir þau. Agnes sagði m.a.
Í fyrsta sinn hefur prestur verið vígður til að sinna sérstaklega þjónustu við konur í kirkjunni.  Sr. Arndís G.  Bernhardsdóttir Linn mun þjóna í Kvennakirkjunni, sem hefur starfað í  20 ár sem sjálfstæð samtök á vettvangi þjóðkirkjunnar. Kvennakirkjan  hefur rannsakað og iðkað kvennaguðfræði, en kvennaguðfræði er guðfræði  sem konur skrifa um vináttu Guðs í lífi þeirra.  Kvennaguðfræðin hefur  eflt kirkjuna og íslenskt samfélag og mun halda áfram að gera það í  framtíðinni. Kvennaguðfræðin og jafnrétti kynjanna eru málefni  framtíðar en ekki bara fortíðar. Þó margt hafi áunnist í  jafnréttismálum og varðandi rétt og möguleika kvenna er jafnrétti ekki  náð. Stöðugt þarf að vinna áfram á þessum vettvangi og með vígslu  prests Kvennakirkjunnar er lögð áhersla á mikilvægi þessa málaflokks fyrir kirkju framtíðarinnar á Íslandi. Sr. Arndís hefur bæst í þann hóp presta er hafa á hendi sérþjónustu í kirkjunni eða hjá félagasamtökum. Fyrst um sinn verður þjónusta hennar sjálfboðin en  vonandi verður prestsþjónusta Kvennakirkjunnar launuð þegar fram líða  stundir.
Hér má lesa frétt um atburðinn á heimasíðu biskups Íslands

By |16 júlí 2013 14:54|Fréttir|