María og Jósef voru fólk á ferð. Þau voru á ferðalagi frá Nasaret til Betlehem til að láta skrásetja sig því það var manntal í ríkinu. Þannig var hin fyrsta aðventa. Þau voru bíða fæðingar barnsins, undirbúa komu þess ásamt því að sinna því sem þurfti.
Við erum einnig að undirbúa komu barnsins á aðventunni. Að mörgu þarf að hyggja. Við erum fólk á ferð og sjaldan vill ferðin á okkur verða meiri en á aðventunni. Á aðventunni sem endra nær er Biblían vegakortið okkar og vísar okkur veginn til fyrirheitna staðarins sem í þessu tilfelli eru jólin.
Barnið er að fara að fæðast. Jólafastan, aðventa, er andlegt ferðalag til móts við birtu jólanna, fagnaðarerindi jólanna, gleðiboðskapinn: Yður er í dag frelsari fæddur. Undirbúum komu jólanna með tilhlökkun í hjarta. Iðrumst og hreinsum til í lífi okkar með hjálp Guðs. Þá fær ljós Guðs að lýsa upp hjörtu okkar og lýsa upp jólin.
Sr. Hulda Hrönn M. Helgadóttir