Það er talað um tregðu fólks til að sækja kirkju. Og beina andstöðu við kristna trú. Og skeytingarleysi. Kirkjufólkið spyr hvert annað hvað við eigum til bragðs að taka. Ég veit að í útlendum kirkjum eru haldnar ráðstefnur til að tala saman um það hvað sé hægt að gera til að fá fólktil að koma.
Ég hef mína skoðun á málinu og hef haft hana lengi. Ég veit ekki hvortþú ert sammála og það er ekkert víst. En hún er svona:
Fólk ræður hvað það hugsar og segir og hvert það fer til að sækja sér gleði og uppörvun eða huggun og ráð eða hvað sem það leitar að. Ég þarf að undirbúa það sem ég ætla að segja með frásögu úr kirkjunni.
Þegar Lúter fór að predika varð vakning. En bara hundrað árum seinna var kirkjan sigin í deyfð og sinnuleysi. Þá var prestur í Strassborg sem hét Filip Jakob Spener, Hann velti því fyrir sér hvernig væri hægt að fá fólk til að koma. Honum datt í hug að safna þeim saman sem höfðu áhuga svo að þau gætu beðið saman og lesið Biblíuna og talað um trú sína. Hann gerði það og brátt hófst ný vakning með nýjum áhuga og gleði.
Ég held við ættum að hafa þetta ráð og það muni takast eins og þá. Þess vegna held ég að við skulum halda áfram að halda saman í trú okkar, hittast eins og við getum, en biðja líka hver fyrir sig og lesa Orðið og lifa í glaðlegri trú okkar. Það eru margir hópar í kirkjunni eins og hópur okkar í Kvennakirkjunni. Þeir eru allir uppspretta kristinnar trúar sem umfaðmar og styrkir og gleður. Ég held að þessir góðu og yndislegu hópar séu besta leiðin til að boða trúna, þeir styrkja
þau sem koma og þau breiða frið og framtak trúarinnar út frá sér
Blíðar kveðjur, Auður