Gleðileg jól. Það er yndislegt að við skulum vera hér allar og öll saman í kvöld. Til að hittast og vera saman og óska hver annarri og hvert öðru gleðilegra jóla og syngja saman og biðja saman og heyra jólaguðspjallið og hlusta á Hallfríðí og Öllu.
Við hittumst til að finna friðinn sem jólaguðspjallið segir frá. Sem englarnir sungu um á Betlehemsvöllum í kyrrð jólanæturinnar: Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu. Hann sem gaf friðinn tók á móti hirðunum í fjárhúsinu, Jesús Kristur, frelsari heimsins. Hann var þar með Maríu og Jósef. Ofurlítið nýfætt barn. Hann átti eftir að verða undrunarefni og deiluefni og fólk átti eftir að andmæla honum og afneita honum. En líka að elska hann og slást í för með honum.
En þau sem hittu hann með þeim Maríu og Jósef allra fyrst af öllum, hirðarnir og vitringarnir, trúðu umsvifalaust á hann. Það var ekkert hik, enginn efi, engar spurningar. Þau trúðu því að hann væri sá sem englarnir sögðu. Hann var Guð sem var komin til þeirra og alls fólks veraldarinnar.
Við trúum því líka. Það er gæfa okkar og gleði allra daga. Margar okkar hafa sagt frá því í messunum, sagt frá trú sinni sem styrkir og gleður alla daga þeirra. Við hinar þökkum þeim fyrir að eiga þessa sterku og blíðu trú og segja okkur frá henni. Við segjum hver við aðra hvað konur Kvennakirkjunnar eiga mikla trú í hjarta sínu og hvað það gerir okkur öllum gott. Hvað það er gott að fá að vinna saman og vera saman.
Eins og alltaf ætlum við að tala um það í kvöld hvað trúin gerir okkur glaðar og öruggar. En í kvöld tölum við sérstaklega um það að það er allt […]