Guð hugsar til þín
Gleðilega jólahátíð elskulegu vinkonur og vinir.
Hátíð jólanna er hátíð ljóss og friðar. Á hverju ári á sama tíma erum við minnt á komu Jesús. Við erum minnt á hringrás lífsins, það er e.t.v. réttara að segja að lífið sé eins og spírall, því ekkert verður nákvæmlega eins aftur, þrátt fyrir endurtekningar.
Við upplifum oft sterkar tilfinningar um jólin, vegna þess að jólin eru tími viðkvæmra tilfinninga bæði gleði, saknaðar og eftirsjár. Þess vegna er þessi tími, tími minninga, drauma og vona. Við finnum líka svo vel að Jesú og jólahátíðin eru hluti af lífinu, samofin lífi okkar og tilveru. Þetta er sagan okkar. Saga sem lýsir þrá manneskjunnar að ekki sé allt sem sýnist. Að til sé Guð sem vill það besta fyrir okkur öll og að allt fari vel að endingu.
Í Biblíunni er sagan um Elísabetu frænku Maríu móður Jesús, sem langaði til að eignast barn. Þau hjónin Elísabet og Sakaría voru komin á miðjan aldur þegar hún varð þunguð. Hún var haldin hugarvíli á þessum tíma vegna þess að í margar vikur fann hún ekki fyrir barninu og var farin að örvænta að hún væri í raun þunguð.
Svo var það einn daginn að María þá unglingsstúlka kom óvænt í heimsókn, bankaði á dyrnar, Elísabet bauð Maríu inn sem faðmaði frænku sína og sagði „Elísabet! Til hamingju! Ég hef heyrt yndislegar fréttir, að þú eigir von á barni. Í Lúkasarguðspjalli (1.41) segir: þá varð það, þegar Elísabet heyrði kveðju Maríu, að barnið tók viðbragð í lífi hennar og Elísabet fylltist heilögum anda.
Svona er Guð , fólk kemur inn í líf okkar til þess að lífga við drauma okkar og væntingar, blása lífi í vonir okkar. Þetta eru einstaklingar sem eru jákvæðir og […]