Guð hugsar til þín – Prédikun í Seltjarnarneskirkju 27. desember 2012

Guð hugsar til þín

Gleðilega jólahátíð elskulegu vinkonur og vinir.

Hátíð jólanna er hátíð ljóss og friðar. Á hverju ári á sama tíma erum við minnt á komu Jesús. Við erum minnt á hringrás lífsins, það er e.t.v. réttara að segja að lífið sé eins og spírall, því ekkert verður nákvæmlega eins aftur, þrátt fyrir endurtekningar.

Við upplifum oft sterkar tilfinningar um jólin, vegna þess að jólin eru tími viðkvæmra tilfinninga bæði gleði, saknaðar og eftirsjár. Þess vegna er þessi tími, tími minninga, drauma og vona. Við finnum líka svo vel að Jesú og jólahátíðin eru hluti af lífinu, samofin lífi okkar og tilveru. Þetta er sagan okkar. Saga sem lýsir þrá manneskjunnar að ekki sé allt sem sýnist. Að til sé Guð sem vill það besta fyrir okkur öll og að allt fari vel að endingu.

Í Biblíunni er sagan um Elísabetu frænku Maríu móður Jesús, sem langaði til að eignast barn. Þau hjónin Elísabet og Sakaría voru komin á miðjan aldur þegar hún varð þunguð. Hún var haldin hugarvíli á þessum tíma vegna þess að í margar vikur fann hún ekki fyrir barninu og var farin að örvænta að hún væri í raun þunguð.

Svo var það einn daginn að María þá unglingsstúlka kom óvænt í heimsókn, bankaði á dyrnar, Elísabet bauð Maríu inn sem faðmaði frænku sína og sagði „Elísabet! Til hamingju! Ég hef heyrt yndislegar fréttir, að þú eigir von á barni. Í Lúkasarguðspjalli (1.41) segir: þá varð það, þegar Elísabet heyrði kveðju Maríu, að barnið tók viðbragð í lífi hennar og Elísabet fylltist heilögum anda.

Svona er Guð , fólk kemur inn í líf okkar til þess að lífga við drauma okkar og væntingar, blása lífi í vonir okkar. Þetta eru einstaklingar sem eru jákvæðir og […]

Prédikun í Háteigskirkju 2. desember 2012

Við erum að huga að sjálfum okkur eins og alltaf, huga að blessun okkar, svo að við verðum sjálfar til blessunar, fyrir sjálfar okkur að annað fólk.
Við hugum að ræðunum sem Bryndís og Sveinbjörg fluttu í síðustu messum.  Sveinbjörg talaði um lífið sem væri ferð og vitnaði í gönguferð Cheryl Strayed um langa vegu  Bandaríkjanna   og væntanlega gönguferð  Vilborgar Örnu á Suðurpólinn.  Cheryl gekk alein í þrjá mánuði til að huggast og komast aftur til sjálfrar sín.  Og Sveinbjörg sagði:  Cheryl lýsir  átökunum við að lyfta útroðnum bakpokanum og sárunum sem hann skyldi eftir sig á öxlum hennar og mjöðum. Hún lýsir ógninni sem leyndist svo víða og horfði stundum beint í augu hennar, og öllum ósigrunum. En hún lýsir líka gleðinni sem hún fann svo oft fyrir vegna alls þess sem hún sigraðist á, og vegna fegurðar náttúrunnar og vináttu þeirra sem hún hitti. Á göngunni hugleiddi hún lífið, reynslu sína og breytni. Innri sársauki hennar mætti ytri sársauka.
Bryndís talaði um einn dag í sinni lífsgöngu, daginn sem hún dreif sig í að raka laufin úr garðinum svo að þau kæfðu ekki grasið og taka burtu laufin  sem voru búin að stífla rennurnar.
Hvers vegna ógnar lífið okkur stundum og hvers vegna verður það kæfandi og stíflandi?  Það er sagt í texta kvöldsins í 1. Kafla Jóhannesarguðspjalls.  Guð kom sjálf til okkar.  Hún var Jesús.  Hún kom til eignar sinnar.  En fólkið sem hún skapaði og átti tók ekki á móti frelsara sínum.  Þess vegna eru ógnir og erfiðleikar í heiminum.  Og þess vegna verður lífið stundum erfitt mitt í gleði þess og vináttu.  Líka fyrir fólkið sem treystir Guði hverja stund.
Aðventan býður okkur að kveikja á kertum og hlusta á jólasálma og huga að […]

Á leið í návist guðs – sem breytir öllu – Guðsþjónusta í Fríkirkjunni í Hafnafirði 11. nóvember 2012

I.

Bandaríska konan Cheryl Strayed lagði upp í göngu á The Pacific Crest Trail, – 4.286 km leið sem liggur allt frá landamærum Kalforníu og Mexikó, yfir Sierra Nevada fjallgarðinn í suðri og Cascade fjallgarðinn (Fossafjöll) í norðri, að landamærum Washington fylkis og Kanada. Ástæðan fyrir því að hún, alls óvön fjallgöngum, ákvað að takast á við þessa áskorun, – að ganga einsömul í rúma þrjá mánuði þessa leið, lá fyrst og fremst í vanlíðan hennar vegna sorgar og missis og því róti sem það koma á líf hennar allt. Hún hafði ekki fundið leiðina til sjálfrar sín að nýju og eitthvað innra með henni hvíslaði að henni að þetta væri leiðin, að hana yrði hún að fara.

Í nýútkominni bók sinni Wild lýsir Cheryl glímunni sem hún átti í við sjálfa sig og lífið á göngunni, – allt það sem hver dagur færði henni í margbreytileika óbyggðanna. Átökunum við að lyfta útroðnum bakpokanum sem hún kunni ekki að pakka í og hún gaf nafnið Skrímsli og sárunum sem hann skyldi eftir sig á öxlum hennar og mjöðum. Hún lýsir ógninni sem leyndist svo víða og horfði stundum beint í augu hennar, og öllum ósigrunum. En hún lýsir líka gleðinni sem hún fann svo oft fyrir vegna alls þess sem hún sigraðist á, og vegna fegurðar náttúrunnar og vináttu þeirra sem hún hitti. Á göngunni hugleiddi hún lífið, reynslu sína og breytni. Á göngunni mætti innri sársauki hennar ytri sársauka. ***

Í þessum töluðum orðum er íslensk kona Vilborg Arna Gissurardóttir að undirbúa göngu á Suðurpólinn en ætlun hennar er að fljúga á upphafsstað frá Punta Arenas í Chile einmitt í dag. Leiðin sem Vilborg Arna ætlar að ganga er 1140 km og mun taka hana 50 daga […]

Guð gerir allt nýtt og okkur líka – Prédikun í Seljakirkju 14. október 2012

Í bókinni ÓÐUR LÍFSINS, speki frumbyggja Ameríku, er að finna ýmsan vísdóm um fegurð lífsins, þar stendur m.a.: Í bernsku var mér kennt,“Barnið gott, leiðin til að finna fegurð lífsins er að leita samhljóms í tilverunni. Vertu í samhljómi við allt sem er, og umfram allt, í samhljómi við sjálfa þig. Margt mun drífa á daga þína, sumt gott, annað ekki. – en það eitt að leita sífellt samhljóms verður mótvægi gegn hverjum vanda og færir þér fegurð.“

Við erum sífellt að leita samhljóms í lífinu. Stundum er það svo að okkur reynist erfitt að ljá lífi okkar merkingu. Það kunna að vera ýmsar ástæður fyrir því. Sjálfsmyndin hefur ef til vill krumpast vegna persónulegs áfalls. Við finnum fyrir einmannaleika, depurð, ótta, sektarkennd, reiði,

Við getum átt í erfiðleikum með samskipti, verið undir álagi og streitu allt þetta veldur okkur hugarangri. Við finnum að það hefur eitthvað stíflast innra með okkur. Þegar við erum orðin svo full af hugarangri að örvæntingin er farin að frussa í allar áttir, frussast yfir okkur og aðra þá stöldrum við við og spyrjum: hvernig getum við mætt þessum tilfinningum. Hvað getum við gert best til þess að bregðast við?

Sagan:
Það hafa skiptst á skin og skúrir síðustu vikurnar. Það er alls ekki óvanalegt að það rigni á haustin, enda oft talað um haustrigningar. Svo við þurfum aldeilis ekki að vera hissa eða pirra okkur yfir því að það rigni. Þannig var veðrið um daginn á ósköp venjulegum haustdegi, ekki hundi út sigandi.

Konan og hundurinn virtu þetta orðatiltæki ekki viðlits, ákveðin í að leggja út í veðrið. Hún klæddi sig í pollabuxur fór í regnkápu og gönguskó. Hundurinn dillaði skottinu, sem er félagsleg tjáning, eins og þegar við fólkið tölum saman. Gleðin og […]

Sökkvum okkur niður í ást Guðs – Prédikun í Friðrikskapellu 16. september 2012

Þetta er hugleiðingarstund á undan predikuninni og ég ætla að biðja okkur að hugleiða það hvernig okkur líður þegar haustið byrjar. Ég ætla að segja okkur tvær sögur.

Einu sinni fór ég í boð. Þar var svo fínt fólk og talaði svo mörg tungumál að þótt mér fyndist ég prúðbúin og glaðbeitt þegar ég fór að heiman fannst mér lítið til um klæðnað minn og tilveru innan um þau. Ég varð fegin að komast heim.

Hin sagan er svona: Einu sinni fór ég í annað boð. Ég fór ekkert prúðbúin en samt fannst mér ég miklu fínni en hin. Þetta var smáundarlegt fólk af ýmum orsökum og sagan gæti verið svoleiðis að þau hafi verið svo góð og skemmtileg sem hin voru ekki. En það var ekki svoleiðis.

En mér fannst ég hins vegar bera ögn af þeim og strax á leiðinni út í fór ég að skammast mín afskaplega fyrir það. Ég fór líka að sjá að ég mátti taka þessu öllu rólega, þetta var bara alla vega fólk sem var ekkert að hugsa um það hvernig ég leit út eða hvað ég sagði. Það var ekkert að hugsa um mig og var alveg sama um mig og ég átti ekki að vera svona upptekin af sjálfri mér.

Ég sagði svona við Guð: Mikið ertu alltaf dásamleg að gefast ekki upp á mér. Þótt ég hugsi svona kolómögulegar hugsanir og sé svona upptekin af sjálfri mér og ætli aldrei að losna við það. Og mér þótti Guð segja við mig: Ég skil þig. Ég var oft í boðum þar sem fólki var alveg sama um mig. Og þá sagði ég við vinkonu okkar Guð: En þú varst samt alltaf með alla vega fólki og lést það ekki finna […]

Samvera á Bríetartorgi 28. ágúst 2012

Hérna á Bríetartorgi er minningarstaður um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur sem flutti fyrst kvenna í samtíð sinni opinbert erindi um kvenréttindi. Það var árið 1887. Hún bjó hérna í gula húsinu á móti sem fékk Reykjavíkurverðlaun um daginn. Seinna bjó hún í húsi sem stóð beint á móti gula húsinu okkar númer 17, hennar hús var númer 18 þar sem speglahúsið er núna. Við minnumst hennar í dag í þakklæti. Og líka Þórunnr KP sem bjó í okkar húsi og var með Bríeti í að stofna Kvenréttindafélagið árið 1907. Og minnumst þess með hógværð að okkar hús fékk líka verðlaun og Þuríður á 13 tvisvar.

Svo förum við að hugsa til sjálfra okkar. Við erum komnar hingað til að uppörva hver aðra í lífsins löngu göngu, alltaf alltaf reiðubúnar til að taka hver aðra að okkur á gönguferðinni. Það er alltaf þess vegna sem við hittumst og það er hvorki meira né minna en yndislegt og takk fyrir að koma. Það er svo gott fyrir okkur hinar að þú komst.

Við Elísabet vorum hérna líka í gær og kannski fleiri af okkur. Við hlustuðum á djass á Laugaveginum og horfðum á biðraðir eftir beikoni á beikonhátíðinni á Skólavörðustígnum og keyptum svo á heimleiðinni túmata og hnetur hérna upp í Bónus og töluðum við vinkonu okkar á kassanum, hana sem er frá Hong Kong og er svo skemmtileg. Göturnar eru líka fullar af fólki í dag og við erum hluti af öllu þessu lifandi lífi og það er svo dæmalaust gott.

Og hvernig líður þér nú í dag? Það er alltaf spurningin, alltaf sama spurningin: Hvernig líður þér?

Af því að við höldum hópinn með Guði til að hjálpast að við að láta okkur líða vel.

Ég ætla að segja þrennt um það […]

Prédikun frú Agnesar M. Sigurðardóttur biskups við Þvottalaugarnar 19. júní 2012

Jesús og samverska konan Jóhannes 4:1-29 (sjá guðspjallstexta í lok prédikunar)

Náð sé með yður og friður frá Guði skapara okkar og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Þegar ég hugsaði til þessarar stundar hér við þvottalaugarnar sá ég fyrir mér í huganum  bograndi konur  að þvo þvott.  Skrafandi saman því vinnan er jú meira en vinna, hún er líka félagslegt fyrirbæri.  Ég sá líka fyrir mér aðrar vinnandi konur.  Konur vestur á Ísafirði sem börðu klakann af kerjunum til að geta vaskað fiskinn sem beið þeirra.  Þessum konum kynntist ég á menntaskólaárum mínum, þó aðeins að sögn því þær voru löngu farnar héðan úr heimi á þeim tíma.  Hins vegar kom saga þeirra upp þegar ritgerð var unnin og þá fyrst áttaði ég mig á því að konur og karlar höfðu ekki staðið jafnfætis launalega séð á árum áður.  Og nú 100 árum síðar og 40 árum eftir að ég vann ritgerðina forðum er enn verið að tala um launamun karla og kvenna sem konurnar á Ísafirði vöktu athygli á og neituðu að vinna nema leiðrétt væri.

Þó enginn læri af annarra reynslu af því er sagt er þá er það nú svo að sögur um annað fólk, atvik og lífshagi kennir okkur margt og vekur okkur til umhugsunar um aðrar aðstæður og lífsviðhorf.  Konurnar á Ísafirði forðum daga áttu sinn þátt í því að launakjör kvenna breyttust þó enn megi betur gera.  Þær vöktu samtíð sína til umhugsunar og sú viðhorfsbreyting sem þá varð er liður í því að við erum hér samankomin í kvöld.  Okkur finnst margt einkennilegt sem var.  Að konur stæðu ekki jafnfætis körlum hvað kosningaþátttöku varðar til dæmis.  En samtímanum fyrir hartnær 100 árum fannst einkennilegt að konur nokkrar skyldu hafa orð á mismuninum.

Þannig […]

Prédikun í Hvalsneskirkju 13. maí 2012

Vonarríkt sumar!

I.

Áhrifa sögunnar gætir hér í Hvalsneskirkju. Svipmyndir úr lífi sr. Hallgríms Péturssonar, sálmaskálds, sækja á. Það rifjast upp að hingað var hann vígður árið 1644 af sr. Brynjólfi Sveinssyni, biskupi í Skálholti. Þá var það líklega hér sem Hallgrími og Guðríði, konu hans, fæddist dóttirin Steinunn, litla stúlkan sem var eftirlæti föður síns og yndi. Og hér horfðu þau á bak henni er hún lést aðeins þriggja ára gömul. Hún var föður sínum mikill harmdauði, – eins og sorgarljóðin sem hann orti bera vitni um. Líka veðraður legsteinn hennar og grafskrift, en álitið er að Hallgrímur hafi sjálfur hafi unnið steininn úr grásteinshellu og ritað á hann nafn hennar og dánarár.

Hér steig Hallgrímur sín fyrstu spor í þjónustu kirkjunnar, – þjónustu sem átti eftir að bera mikinn ávöxt og móta trúaruppeldi flestra Íslendinga. Svo samofin eru sálmar hans – Passíusálmarnir, og öll bænaversin, trúararfi okkar og trúariðkan. Það er mjög við hæfi, á þessum 5. sunnudegi eftir páska, sem jafnframt er hinn almenni bænadagur kirkjunnar, að vera einmitt hér og minnast hans, sem gaf okkur svo óendanlega dýrmæt orð á tungu til að tjá með gleði okkar og sorg frammi fyrir Guði frelsara okkar.

II.

Í kringum borðið í Kvennakirkjunni eiga sér oft stað djúpar og einægar umræður um lífið og tilveruna og samskipti okkar við Guð, vinkonu okkar. Hvernig við finnum fyrir nálægð hennar, – og jafnvel stundum ekki, hvernig við tölum við hana um allt það sem hvílir á okkur og hvenær okkur reynist það svo erfitt. Við berum saman bækur okkar og miðlum af persónulegri reynslu. Hafi fluga verið á vegg í Þingholtsstræti þegar við síðast ræddum um bænina og bænarlífið hefur hún líklega heyrt eftirfarandi orðaskipti:„Hvernig er best að biðja og rækta […]

Guðþjónusta í Friðrikskapellu 15. apríl 2012

Er upprisan alþjóðasamningur ?

Messan er búin að vera predikun eins og alltaf. Við höfum haldið hana saman eins og við gerum alltaf. Og þessi predikun fellur inn í allt annað á þessu góða kvöldi. Það er yndislegt að mega huga að öllum messum okkar og hafa þær eins og við viljum allra helst. Við erum alltaf að vona að við segjum hver annarri eitthvað sem verður svo gott að fara með heim og nota í dögunum framundan.

Þess vegna ætlaði ég að byrja þennan hluta predikunarinnar á því að spyrja þig hvernig þú myndir byrja ef þú stæðir hérna í mínum sporum. En svo datt mér önnur spurning í hug og fannst hún svo ljómandi að ég ákvað að fara beint í hana. Hún er þessi:

Heldurðu að upprisan hafi verið alþjóðlegur samningur? Svona eins og samningar eru gerðir núna á vegum Sameinuðu þjóðanna um eitt og annað eins og barnaheill og heilbrigðismál?

Upprisan var alþjóðleg. Hún var orðsending Guðs til allra þjóða heimsins um frelsi og frið. Allar þjóðirnar máttu setjast við samningaborðið og skrifa undir.

Það gerðist seinna að heilu þjóðirnar undirrituðu. Við undirrituðum. Það var árið 1000 og skrifað niður að það er upphaf laga vorra að hver maður skal vera kristinn.

En nú skulum við hverfa aftur til baka að frásögunni af upprisunni sem Guðrún las úr Markúsarguðsjalli. Þann dag og næstu daga voru gerðir miklir samningar. Ekki alþjóðlegir og ekki þjóðlegir heldur milli Guðs annars vegar og einstaklinga hins vegar. Markúsarguðspjall segir frá því að tvær Maríur og ein Salóme hafi undirritað. Á næstu dögum undirrituðu líklega öll úr vinahópnum sem fylgdi Jesú. Og á næstu áratugum undirrituðu fleiri og fleiri úti um allan heiminn.

En það var líka mótmælt. Það var strax sagt að vinahópurinn […]

Messa í Seltjarnarneskirkju 11. mars 2012

Góða fólk.

Eins og glögg augu sjá er ég ekki Sveinbjörg. Sveinbjörg er veik og biður innilega að heilsa og saknar okkar og vonar að við björgum málunum þótt hún geti ekki flutt ræðuna sem hún ætlaði að gera í kvöld. Við björgum málunum eins og alltaf og biðjum Guð að lækna hana og þær aðrar vinkonur okkar sem eru veikar í kvöld.

Ég gæti alveg hugsað mér að vera Sveinbjörg. Ég held að það sé verulega gaman, svo mikla hæfileika sem sú góða kona hefur. Ég segi þetta í fullu trausti þess að Sveinbjörg gæti stundum hugsað sér að vera ég. Eða þú. Og ég segi þetta af því að það er innifalið í boðskap kvöldsins sem er eitt af kvöldum föstunnar. Það er sá yndislegi boðskapur að við skulum setja okkur í sport hver annarrar og vita mætavel að við erum allar hluti hver af annarri. Það er með því sem við finnum hverjar við erum sjálfar.

Það er skrifuð mektar guðfræði um það að við skulum bæði vera við sjálfar og við allar saman. Sveinbjörg ætlaði að predika um 13. kaflann í Jóhannesarguðspjalli og ég ætla þess vegna að gera það líka. 13. kaflinn í Jóhannesarguðspjalli er hluti af frásögunni um síðustu kvöldmáltíðina og það sem Jesús sagði þá við vinkonur sína og vini. Og við spyrjum nú strax hvað hann segi þar um það að við eigum bæði að vera það sem við erum sjálfar hver og ein og það sem við erum allar saman.

Það er auðvitað stórlega eftirsóknarvert að vita það. Einfaldlega af því að við erum alltaf að leita eftir því að vita hverjar við erum. Það er svo eftirsóknarvert að við förum á rándýr námskeið til að læra það og kaupum […]

Afmælismessa í Neskirkju 19. febrúar 2012

Elskulegu vinkonur. Það er yndislegt að hittast í afmælismessu og fagna yfir löngu og góðu starfi okkar. Yfir því að við fáum alltaf að hittast og gefa hver annarri gleði Guðs til daglegra starfa okkar, gleðina sem hún gefur okkur til að gefa hver annarri og hvert öðru.
Og samt byrja ég svo hátíðlega stund með gamalli sögu. Og segi svo tvær aðrar enn eldri á eftir. Fyrsta sagan er um eina af okkur sem fór í saumaklúbb. Hvað segirðu gott, sögðu vinkonurnar, og hún svaraði: Allt svo fínt, ég tók neðri skápana í gær. Ég hef oft sagt þér þessa sögu hennar. Af því að hún er svo dæmalaust góð. Vinkona okkar hlær að henni og segir að hún sýni andlega fátækt sína og þröngsýni sem nær ekkert út fyrir daglegt stússið. En það er hvorki satt né rétt. Enda er vinkona okkar stórmenntuð. En alveg óháð því er hún stórkostleg. Ég segi þessa sögu sem afmælissögu af því að við hittumst alltaf til að hjálpa hver annarri til að laga til í lífi okkar. Svo að við getum tekið út úr huga okkar það sem við viljum ekki að sé þar. Og hent því. Og sett nýjar hugsanir í staðinn. Þær þurfa alls ekki að vera nýjar. Þær geta verið gamlar, en nýjar í huga okkar núna, eitthvað sem við áttum en gleymdum. Til dæmis það hvað það var gott að vera til í hverfinu okkar þegar við vorum litlar, eða hvað það var gott núna rétt um daginn að fá að vera með góðum manneskjum eða setjast við kvöldmatinn. Það er svo margt sem er svo gott. Við hittumst til að segja hver annarri að það sé best að fylla hugann með því. […]