Upplýsingar

Prédikun Auðar Eir Vilhjálmsdóttur í Hallgrímskirkju sunnudagskvöldið 15. janúar 2017

Hildigunnur sagði í spjallinu sínu áðan um heimilishaldið og fjölskylduna að með nýjum tímum kæmu nýjar úlpur.  Hugsum meira um það.  Koma nýjar úlpur með nýjum tímum eða koma nýir tímar með nýjum úlpum?Ég held það sé bara hvort tveggja.  Hvernig var þetta með Lúter?  Nú erum við að byrja afmælisár siðbótarinnar sem Lúter hratt úr vör og varð til að breyta allri kristinni kirkju.  Það komu nýir tímar af því að Lúter fór í nýja úlpu eða með öðrum orðum hugsaði hann nýjar hugsanir.  Og svo upp úr því fór fleira og fleira fólk í nýjar úlpur, hugsaði býjar huganair og þá breyttust tímarnir.

Hvað breyttist?  Kirkjan breyttist úr reglu í frelsi.  Það var ekki lengur lausn lífsins að leggja sig í líma til að gera það besta heldur var lausnin að gera ekki nokkurn skapaðan hlut annan en að taka á móti frelsi Jesú.  Það er þrennt sem við fáum þegar við tökum á móti Jesú, sagði Lúter.  Við fáum Orðið, trúna og náðina.  Það er allt alveg ókeypis.  Og  það verður að miklum auðævum.  Í Jesú eigum við Orðið sem segir okkur frá grundvelli lífsins og vísar okkar veginn.  Í trúnni grípur Jesús hjarta okkar og gefur okkur kærleikann sem er hin besta allra dyggða af því að það er í kærleikanum sem við tökum hvert annað að okkur, gefum að borða og drekka og spörum ekkert til að koma til hjálpar.  Og það er í náðinni sem við verðum þau sem Guð skapaði okkur til að vera.

Það var sagt að við þyrftum fyrst og fremst að lifa lífi okkar í kærleika.  En það er mesta vitleysa að kærleikurinn frelsi okkur.  Páll postuli sagði sjálfur að það væri mesta vitleysa.  Við megum steinhætta að reyna alla daga að vera nógu góðar manneskjur.  Því það er ekki fyrir góð verk okkar sem Guð tekur okkur að sér heldur fyrir trú okkar.

Lúter var hreint af ganga af göflunum í áreynslu sinni til að vera nógu góður.  Hvað var það að vera nógu góð manneskja?  Lúter gat það ekki hvernig sem hann reyndi og leið hroðalega.  Svo þegar hann var að skrifa skýringar við Ritninguna las hann í Rómverjabréfinu, Rómverja 1.17 að við eignumst rétta stöðu í lífinu fyrir trúna en ekki verkin.  Og hann sá að trúin var ekki hans eigið verk heldur gjöf Guðs.  Og náðin var það líka og Orðið líka.   Þá létti Lúter svo mikið að allt líf hans breyttist.  Af því að hugsanir hann breyttust.  Þær breyttust af því að Guð breytti þeim.

Guð breytir líka hugsunum okkar og gefur okkur nýja úlpu á hverjum einasta degi.  Þegar dagarnir eru góðir og skemmtilegir getur það læðst að okkur að við höfum þetta í hendi okkar, bara ef við sýnum kærleika og förum eftir góðum reglum er allt í lagi.  Ég var með minni fjölskyldu í dag eins og Hildigunnur var með sinni.  Ég eldaði mat og þau komu og við borðuðum og töluðum og okkur leið svo vel.  Svona var það líka svo oft heima hjá Lúter.  Og hann spurði:  Er þetta kannski bara nóg?  Og hann svaraði:  Nei, alls ekki.  Af því að þessi góða líðan er ekki okkar eigið framtak heldur gjöf Guðs.

Og nú ætla ég að spyrja þig hvort þú vitir hvað það er að feisa.  Veistu það.  Tengdasonur dóttur minnar er verslunarstjóri og hann sagði mér það.  Að feisa er að jafna í hillunum í búðinni.  Svo þær verði flottar.  Ég held að ef Lúter hefði vitað það hefði hann beðið okkur innilega að feisa nú líf okkar.  Jafna allt svo það verði flott.  Og hann hefði sagt að við gerðum það með þvi að feisa trú okkar.  Jafna hana í flotta röð þar sem Jesús væri i miðjunni og svo Orðið, trúin og náðin við hliðina.  Það er að fara í nýja úlpu á hverjum degi.  Það er að gera ekkert,  láta sér ekki detta í huga að okkar eigin kærleikur og verk ættu að vera fremst.  Heldur Jesús sjálfur.  Svo að við lifum í trú okkar sem krefst einskis en gefur allt og gerir okkur að prestum og kristniboðum á hverjum degi.  Það er held ég áframhald af siðbótinni sem við höfum alltaf lifað í og höldum því áfram á siðbótarárinu.  Við eigum eftir að tala miklu meira um þetta á þessu afmælisári.  Amen