Upplýsingar

Predikun á 50 ára vígsluafmæli í guðþjónustu í Háteigskirkju 29. september 2024
Elskulegu vinkonur og vinir.  Við höldum það hátíðlegt að við konur höfum verið prestar í  þjóðkirkjunni í 50 ár.  Við brutum glerþakið og opnuðum dyrnar.   Við gengum inn og kirkjan tók fagnandi á móti okkur með miklum gjöfum.  Hún gaf okkur söfnuði, kirkjur, predikunarstóla, skírnarfonta og rándýrar svartar hempur og mjallhvíta prestakraga.
Við gáfum henni líka gjafir.  Við sem gengum fyrstar gáfum henni kvennaguðfræðina.  Við sögðum henni að Guð væri kona, að það ætti aldrei að tala niður til kvenna af því að  Guð hefði aldrei gert það og Biblían sýndi það.  Kvennakirkjan tók við af okkur fyrstu prestunum sem eru flestar í Kvennakirkjunni.  Kvennakirkjan skrifaði biblíutexta á máli beggja kynja.  Og þegar hún frétti að kirkjan ætlaði að gefa út nýja Biblíuþýðingu skrifaði hún kirkjunni og stakk upp á því að Biblían yrði gefin út á máli beggja kyngja.  Alveg væri það stórkostlegt sagði kirkjan og gaf Nýja testamentið út á þessu kristilega málfari.    Og þegar ný sálmabók átti að koma út var Alla, Aðalheiður Þorsteinsdóttir píanóleikari Kvennakirkjunnar til ráðlegginga.   Hún rétti kirkjunni sálma á máli beggja kynja og kirkan  sagði takk innilega  og setti sálmana í nýjui sálmabókina.  
Við sögðum kirkjunni líka að Guð væri kona.   En kirkjan sagðist hafa Maríu og Kvennakirkjan þagði kurteislega þótt hún væri hissa.  Fólk hefur svo margar guðsmyndir.  Guðrún biskup talaði um gullkálfinn í eyðimörkinni þegar hún talaði við setningu Alþingis.  Hér lýkur tilvitnuninni og ég held áfram og segi að fólkið í eyðimörkinni hafi verið nýkomið úr þrældómnum og heiðindómnum og ekki áttað sig á því sem Guð var að segja.  Svo liðu aldirnar og fólk varð stórlega menntað í margvíslegum greinum.  Einn mannfræðingur sagði að guð hefði orðið til þegar fók fór að segja að sálir þeirra sem lifðu á undan þeim væru alveg sjálfstæðar frá líkamanum og ættu það til að setjast að í steinum og það væri hægt að tilbiðja þá eins og guð.   Þá kom félagsfræðingur og sagði að það væri mesta bull því fólk hefði séð að það þurfti guð til að halda hópnum saman.  Ekki aldeilis sagði Freud sjálfur.  Guð varð til af því að menn þurftu eitthvað til að lifa það af hverslags aular þeir væru.  Guð varð til af því að menn þurftu föður.  En Sigurjóna og Hans Magnús hérna vestur í bæ sögðu að það væri til eitthvað eitthvað sem sumt fólk kysi að kalla guð.  
En hvað sagði Guð sjálf?  Hún sagði:  Ég er Guð.  Ég ein er Guð.  Ég hef alltaf verið Guð.  Ég er sú sem ég er.  Og nú er ég komin niður af himni til að vera Jesús Kristur og frelsa ykkur.
Það er þess vegna sem við í Kvennakirkjunni tölum um Guð sem vinkonu okkar.  Af því að hún kom og varð manneskja eins og við.  
Við tölum líka um Guð í eyðimörkinni sem eldaði mat handa fólkinu sínu, kjúklinga og vöfflur og lét vatn spretta út úr klettunum af því að fólkið sem hún elskaði var svo hræðilega þyrst.  Hún sá um fötin og skóna eins og mömmur gera fyrir börnin sín svo að allt verði tilbúið í skrúðgönguna á 17. júní og aðra hátíðisdaga.   Jesús sagði líka að hann væri móðir sem safnaði ungunum saman.   Hann sagði að Guð væri kona sem bakar og sópar.  Við segum þetta allt.  En það skiptir öllu að Jesús var sjálfur Guð sem varð ein af okkur.  
Þess vegna er Guð vinkona okkar og við setjumst hjá henni eða förum með henni út að ganga. Suma daga segjum við að við ætlum ekki að segja neitt.  Og hún segir að hún ætli heldur ekkert að segja en vera bara hjá okkur.  En við tölum við hana þegar hún drekkur með okkur morgunkaffi og heyrum hana segja að nú  skulum við láta daginn verða verulega góðan.  Þú ferð í vinnuna, segir hún eða þú ferð ekkert i vinnuna.  Við segjum henni að við þurfum að hitta erfiða konu klukkan 3.   Þú getur það alveg, segir Guð.  Manstu að ég sagði við fólkið mitt einu sinni að með mér gæti það stokkið yfir veggi.  Þú stekkur yfir veggi með mér í dag.  Og þú getur gert svo margt skemmtilegt fyrir kvöldmat.  Þú getur gengið Sæbrautina og séð Esjuna.  Og farið í Sandholtl eða á Mokka með vinkonum þínum eða kannski á bókasafnið og þú getur talað við börnin þín og mömmu þína eða farið í leikhúsið eftir kvöldmat.  Ég gef þér þetta allt, elsku ljósið mitt og njóttu nú dagsins.
Það er sagt svona í kvennaguðfræðinni:  Þú átt ljósið í hjartanu.  Það er ljós Jesú sem er Guð vinkona þín.  Þú sást ljósið ekki fyrst þegar þú sást norðurljósin eða sjóinn eða fórst á djasstónleika eða í ræktina eða dreifst þig til sálfræðings eða last Guðrúnu frá Lundi í fyrsta sinn. Þú sást það þegar þú komst að krossinum.  Það var þar sem þú sást mátt Guðs sigra vanmátt heimsins.  Og þinn eigin vammátt.  Vanmátt tilfinninganna sem þú vilt ekki hafa, öfundina og óvildina og allt sem þú losnar ekki við.   Þegar þú komst að krossinum hvarf það allt.  Þú fannst frið og öryggi og gleðin og kjarkurinn  fyllti huga þinn.
Kvennaguðfræðin segir þetta svona af því að Lúter sagði að við skyldum ekki vera alltaf að reyna að gera eitthvað til að Guð elskaði okkur og öðru fólki þætti við merkileg.  Við skyldum bara fylla hjarta okkar af Jesú.  Þá fer okkur að langa svo til að gera eitthvað gott og gerum það líka.  Það er bara Orðið, bara trúin, bara náðin.  
Lúter sagði það af því að Jesús sagði það sem Þjóðhildur las.  
Jesús sagði það svona: Ég er Guð og ég er komin niður af himni til þín.  
Amen