Upplýsingar

I.

Bandaríska konan Cheryl Strayed lagði upp í göngu á The Pacific Crest Trail, – 4.286 km leið sem liggur allt frá landamærum Kalforníu og Mexikó, yfir Sierra Nevada fjallgarðinn í suðri og Cascade fjallgarðinn (Fossafjöll) í norðri, að landamærum Washington fylkis og Kanada. Ástæðan fyrir því að hún, alls óvön fjallgöngum, ákvað að takast á við þessa áskorun, – að ganga einsömul í rúma þrjá mánuði þessa leið, lá fyrst og fremst í vanlíðan hennar vegna sorgar og missis og því róti sem það koma á líf hennar allt. Hún hafði ekki fundið leiðina til sjálfrar sín að nýju og eitthvað innra með henni hvíslaði að henni að þetta væri leiðin, að hana yrði hún að fara.

Í nýútkominni bók sinni Wild lýsir Cheryl glímunni sem hún átti í við sjálfa sig og lífið á göngunni, – allt það sem hver dagur færði henni í margbreytileika óbyggðanna. Átökunum við að lyfta útroðnum bakpokanum sem hún kunni ekki að pakka í og hún gaf nafnið Skrímsli og sárunum sem hann skyldi eftir sig á öxlum hennar og mjöðum. Hún lýsir ógninni sem leyndist svo víða og horfði stundum beint í augu hennar, og öllum ósigrunum. En hún lýsir líka gleðinni sem hún fann svo oft fyrir vegna alls þess sem hún sigraðist á, og vegna fegurðar náttúrunnar og vináttu þeirra sem hún hitti. Á göngunni hugleiddi hún lífið, reynslu sína og breytni. Á göngunni mætti innri sársauki hennar ytri sársauka. ***

Í þessum töluðum orðum er íslensk kona Vilborg Arna Gissurardóttir að undirbúa göngu á Suðurpólinn en ætlun hennar er að fljúga á upphafsstað frá Punta Arenas í Chile einmitt í dag. Leiðin sem Vilborg Arna ætlar að ganga er 1140 km og mun taka hana 50 daga ef allt gengur að óskum. Hún hefur undirbúið sig í langan tíma enda krefst ganga sem þessi gríðarlegrar þjálfunar og úthalds. Og hún verður að draga með sér vistir og ýmsan annað búnað til að geta tekist á við það sem hver dagur færir henni. Útivist, ævintýri og tengslin við náttúruna er ástríða Vilborgar Örnu sem hefur farið víða og tekist á við margt þó gangan á Suðurpólinn sé stærsta áskorunin til þessa. Hún ætlar að takast á við hana með jákvæðni, áræðni og hugrekki að leiðarljósi. Hún ætlar líka að blogga um ævintýrið sem bíður hennar á slóðinni: www.lifsspor.is og leyfa okkur hinum að fylgjast með. Til viðbótar við þetta safnar hún áheitum sem renna til Lífsins Styrktarfélags Kvennadeildar Landspítala. ***

Tvær ungar konur sem báðar hafa sett sér markmið að ganga einar, án utanaðkomandi aðstoðar og takast þannig á við sjálfa sig og náttúruna, umluktar fegurð hennar en um leið óteljandi hættum. Önnur hefur lokið göngu sinni. Hin er að hefja hana. Hvatinn að baki markmiðum þeirra er ólíkur en staða þeirra á göngunni er og verður án efa um margt svipuð.

II.

Við, – þú og ég erum kannski ekki að ganga yfir fjallgarða Kaliforníu eða á leið á Suðurpólinn en erum engu að síður á göngu. Við getum svo auðveldlega yfirfært myndina af göngu Cheryl og Vilborgar Örnu á líf okkar sjálfra.

Lífið er er ganga, – lífsganga. Og á göngunni mætum við svo mörgu. Hver dagur færir okkur alls konar verkefni. Við erum misvel undir þau búin, undir sumt getum við undirbúið okkur, allavega að einhverju leyti, en annað kemur okkur gjörsamlega í opna skjöldu. Margt er svo gleðilegt og gott en annað svo sárt og erfitt. Og enn annað allt í senn.

Við vitum að það skiptir öllu máli hvaða augum við horfum á heiminn og sjálfar okkur á göngu okkar, – að horfa með augum vonar og trúar og gleðinni yfir að eiga vináttu Guðs, í stað þess að efast og fyllast vanmætti og svartsýni. Með trúargleraugun á nefinu okkar vitum við að við erum Guði falin, „…við treystum Guði alltaf, alltaf og treystum sjálfum okkur af því að hún treystir okkur.“ – svo ég noti orð Auðar.

III.

Frásaga guðspjallsins sem lesin var hér áðan segir frá Jesú, sem ásamt lærisveinum sínum, er á ferð að boða öllum þeim er heyra vilja Guðsríkið, – fagnaðarerindið um kærleika Guðs vinkonu okkar. Hann gerir það ekki aðeins með orðum heldur líka verkum. Hann læknar og hann líknar. Okkur er m.a. sagt frá konu sem glímt hefur við erfið veikindi um árabil og hefur það markað lífsgöngu hennar þjáningu og vonleysi. Þegar hér er komið við sögu hafði hún leitað til margra lækna og greitt það dýru verði, en án árangurs. Líklega hafði þessi kona haft spurnir af Jesú og öllum kraftaverkunum sem hann gerði á meðal fólksins, því sagan sýnir okkur að hún vonaði, hún trúði að hann gæti gefið henni heilsu að nýju. Og þegar Jesús varð á vegi hennar þá reyndi hún að nálgast hann, bara rétt svo að hún gæti snert hann. Trú hennar var svo takmarkalaus að hún vissi í hjarta sínu að með því einu yrði hún heil. Og það var þá sem Jesús sagði við hana: „Dóttir trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði.“ Með trú sinni öðlaðist hún lækningu og þar með breytta þjóðfélagsstöðu, hún var ekki lengur útskúfuð. Hún var manneskja, dýrmætt barn Guðs. Með því að varpa öllu yfir á Guð, vænta einskis af sjálfri sér en alls af henni, með því að trúa var henni bjargað. Hún öðlaðist nýjan lífsgrundvöll. Hún gekk inn í nýjan veruleika.

IV.

„…trú þín hefur bjargað þér.“ – Jesús segir þessi orð við þig og mig. Jesús gerði kraftaverk, hann gerir kraftaverk, alla daga. Og jafnvel þó að við, sem lifum á tímum vísinda og tækni, getum undirbúið okkur og útibúið okkur á alls konar hátt, fyrir margs konar göngur, höfum við jafnmikla þörf fyrir þau eins og konan sem trúði. Við erum jafn óheilar og áður. Í eigin mætti erum við ekki færar um að lifa í sátt við Guð og sjálfar okkur, að treysta Guði og okkur sjálfum. Því Guð og aðeins Guð ein getur hjálpað okkur.

En er það ekki einmitt hér sem efinn kemur svo oft upp? Það er nefnilega ekkert svo flókið að trúa að Guð er og geti mikið en að hún vilji eitthvað með okkur hafa er annað mál.

Guð er kærleikur, hún elskar okkur og þráir vináttu okkar, hún fyrirgefur okkur og tekur okkur í sátt, alltaf. Og það skiptir engu þó við hverfum ítrekað af leið, við getum verið fullvissar um að hún tekur á móti okkur aftur.

Á þennan hátt er líf í trú nýr veruleiki með styrkum lífsgrundvelli þar sem við erum allar jafnar, umvafðar kærleika Guðs. En þessi nýi veruleiki verður ekki endilega einfaldari en sá gamli, laus við þjáningu og sorg, staður þar sem allt er slétt og fellt. Nei, – en hann er og verður veruleiki í návist Guðs. „

Hvert get ég farið frá anda þínum,
Hvert flúið frá augliti þínu?
Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar,
Þótt ég gerði undirheima að hvílu minni, þá ertu einnig þar.
Þótt ég lyfti mér á vængjum morgunroðans
og settist við hið ysta haf,
einnig þar mundi hönd þín leiða mig
og hægri hönd þín halda mér.“ (Sálm 139)

Við getum verið vissar um að Guð huggar okkur við barm sinn í sorginni og reisir okkur við í þjáningunni, hvar sem við erum, hvenær sem er. Þannig verðum verðum færar um að takast á við lífið, lífsgönguna og njóta hennar.

V. Guð var í för með Cheryl þegar hún gekk The Pacific Crest Trail. Hún var týnd sjálfri sér (og Guði, – lífinu) en hún kom til sjálfrar sín að nýju. Hún segir frá því á einum stað í bók sinni að þegar sorgin heltók hana hafi hún sannarlega verið viss um návist Guðs en hún hefði líka verið viss um að aðstæður hennar skiptu hana (Guð) engu máli. Aftur á móti í lok göngunnar sem hún endaði við Brú Guðanna er liggur yfir Columbia ána á landamærum fylkjanna Oregon og Washington, þakkar hún: „Ekki aðeins fyrir gönguna löngu, heldur fyrir allt það sem hún loksins fann safnast upp innra með sér; fyrir allt það sem gangan hafði kennt henni og allt það sem hún fann að hún hafði meðtekið en átti eftir að vinna úr.“ (Bls. 310)

Vilborg Arna er að hefja sína göngu. Saga hennar er enn ósögð. við hugsum til hennar í bænum okkar. Við vitum að Guð mun ganga við hlið hennar og bera hana á örmum sér, – allt eftir því hvernig allt verður. Við biðjum að hún finni að hún er á leiðinni í návist Guðs sem breytir öllu.

Sannarlega breytir trú okkar og fyrirgefning Guðs vinkonu okkar lífi okkar. Það er sem við göngum út úr skugganum inn í sólskinið. Og þó að stundum dragi skýr fyrir sólu og við sjáum ekki geisla hennar endurspeglast í umhverfinu finnum við fyrir hlýju þeirra. Og við vitum að við höfum eignast nýtt líf.