Guðþjónusta í Hallgrímskirkju

Fyrsta guðþjónusta haustsins verður í Hallgrímskirkju sunnudagskvöldið 19. september klukkan 20
Við göngum inn gegnum bakdyrnar sunnan megin

Aðalheiður Þorsteinsdóttir flettir með okkur bókinni okkar Göngum í hús Guðs og við syngjum og hlustum og heyrum predikun Auðar.

Svo drekkum við kaffi og spjöllum. Verið öll hjartanlega velkomin!

By |15 september 2021 8:55|Fréttir|

Við tökum á móti blessun Guðs

Þetta er áframhald af því sem við höfum skrifað úr bók okkar Göngum í hús Guðs. 
Í lokin flytjum við blessunarorð sem prestarnir flytja eða við flytjum allar saman.
Ein eru eftir prest okkar séra Arndísi G. Bernhardsdóttur Linn:

Guð sem skapaði þig og elskar þig segir við þig:  “Treystu mér”.

Fyrstu blessunarorðin sem við fluttum eru þessi og ég skrifaði 1993:

Guð sem skapaði þig til að vera frjáls, blessar þig.
Jesús sem frelsar þig svo að þú getir skapað með Guði, blessar þig.
Heilagur andi sem vekur þig með kossi á hverjum morgni
og er hjá þér allan daginn og alla nóttina, blessar þig.  Amen.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |6 september 2021 18:20|Fréttir|

Kveðjuorðin í Kvennakirkjunni

Þetta er úr bókinni okkar Göngum í hús Guðs.

 Kveðjuorðin koma á eftir orðum bænastundanna.  Ein eru svona:

Kvöldið er búið, dagarnir bíða.  Yndislegir af því að Guð er hjá okkur, líka þegar þeir eru erfiðir.  Förum heim með hugrekki og góðar hugmyndir.  Hlökkum til vinnunnar og hlökkum til heimilishaldsins, hvort sem við búum með mörgum eða sjálfum okkur.  Við eigum allar fólk til að annast.  Gerum það vel.   Látum börnin fá að vera með unglingunum og unglingana með okkur og verum með gamla fólkinu sem einu sinni annaðist okkur.

Förum með blessun Guðs sem umvefur okkur í kvöld.  Förum og verum glaðar.  Verum hugrakkar.  Verum mildar og máttugar.  

Önnur eru  úr bók Carolu Mosbach í Þýskalandi,  Traces of heaven:

Heimili okkar er öruggur staður,  þar er hlýtt og bjart og kyrrt.  Með bókum og hljómlist og eldhúsi þar sem við getum talað saman.  Með útsýni út um gluggana svo að sjáum langt í burtu.  Með plássi fyrir fólk og plássi fyrir eitt og annað og annað og eitt og fyrir líf sem er fullt af litum.  

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |1 september 2021 16:10|Fréttir|

Bænastundir Kvennakirkjunnar

Við erum enn að skoða bókina okkar Göngum í hús Guðs.

Eftir trúarjátningarnar koma bænir í bænastundunum þegar við lesum bænirnar sem eru skrifaðar og lagðar í bænakörfuna okkar.

Fyrst og síðast í bænastundinni lesum við sameiginlega bæn .  Píanóleikari okkar Aðalheiður Þorsteinsdóttir spilar í upphafi og lokum bænastundarinnar og milli bænanna, við lesum nokkrar bænir í einu og stundum syngur Anna Sigga söngkona okkar með Aðalheiði.  Ein upphafsbænin í bænastundunum er svona:

Við finnum það Guð að það er margt í lífinu sem særir okkur.  Við finnum það líka að þú læknar okkur aftur og aftur af því öllu.  Við biðjum þig að hjálpa okkur að óttast ekki lífið heldur fela það í þínar hendur og  treysta því.  Kenndu okkur að nota lífið og njóta þess og læknast hjá þér með því að skapa með þér í daglegu lífi okkar.  Við þökkum þér fyrir að heyra  allar bænir okkar.  Í Jesú nafni.  Amen.  

Svo eru lesnar bænir úr bænakörfunni og lokabænin.  Ein er svona:

Elsku Guð vinkona okkar.  Við vitum að þú hlustar á allt sem við segjum þér upphátt og í hljóði.  Við vitum að þú hjálpar þeim sem við báðum fyrir og að þú hjálpar okkur að hjálpa þar sem við getum.  Blessaðu okkur Guð,  blessaðu Kvennakirkjuna, blessaðu söfnuðinn hér í …. kirkju og kirkju þína um víða veröld.  Blessaðu þau öll sem berjast fyrir réttlætinu.  Blessaðu þau sem þjást af því að þau njóta ekki réttlætis.  Í Jesú nafni.  Amen.  

Í punktalínunni er nafnið á söfnuðinum sem lánar okkur kirkju sína í messunni.  Bænastundinni lýkur með því að við förum með Faðir vor saman.  

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |24 ágúst 2021 15:42|Fréttir|

Trúarjátningar

Við erum að fjalla um bókina okkar Göngum í hús Guðs.

Á eftir bænum okkar um fyrirgefningu koma trúarjátningar okkar.

Þessi trúarjátning okkar er beint úr Postullegu trúarjátningunni sem er  næstum alltaf farið með í guðþjónustum þjóðkirkju okkar og er sameiginleg játning allrar kristinnar kirkju um allan heim.  Við flytjum hana með þessum orðum:

Ég trúi á Guð sem skapar og er Jesús sem frelsar
Og Heilagur andi sem er alltaf hjá okkur.  

Ragnheiður Ragnarsdóttir sem fermdist hjá okkur og er tónlistarkona í Kanada samdi lag við játninguna og við syngjum það í guðþjónustunum.

 Þetta er úr trúarjátningu séra Stefaníu Guðlaugar Steinsdóttur:

Ég túi því að Guð sé kona,
Ég trúi því að hún sé sú hæsta og mesta.
Ég trúi því að hún sé besta vinkona mín
sem vakir yfir mér dag og nótt
og stendur með mér í blíðu og stríðu.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |16 ágúst 2021 18:03|Fréttir|

Þakkir fyrir fyrirgefningu Guðs

Við höldum áfram að rekja bókina okkar Göngum í hús Guðs.

Á eftir upphafsorðunum koma þakkir fyrir fyrirgefningu Guðs.  Þessi fyrirgefningarbæn var samin í Kvennakirkjunni árið 2021:

Guð fyrirgefur okkur.  Við skulum hætta að burðast með byrðar sem Guð hefur tekið af okkur.  Við skulum taka á móti gleðinni sem Guð gefur okkur.  Þorum að vera reisnarlegar og glaðværar.  Heyrum hvað Guð sagði fólkinu sínu á leið þess til fyrirheitna landsins:  

Nú legg ég fyrr þig veg lífsins og veg dauðans.  Veldu nú lífið.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |9 ágúst 2021 14:44|Fréttir|

Göngum í hús Guðs

Við skulum blaða í nýju bókinni okkar Göngum í hús Guðs.  Hún er til nota fyrir sjálfar okkur og þau sem vilja nota hana á einhvern hátt eftir sínum óskum.  Þar er margt af því sem við höfum flutt í guðþjónustum okkar og höldum áfram að flytja.  Við höfum inngangsorð um messuna og skrifum um messuformin sem við notum og svo koma kaflar einn eftir annan um það sem við flytjum í messunum.  

Þetta er einn af upphafssálmunum og er eftir Sigríði Magnúsdóttur en lagið er  eftir Gunnar Persson í útlöndum:

Í gleði Guðs geng ég nú glaðsinna inn,
ó, hve gott er að fagna með þér. 
Hérna finn ég þann frið sem oft fjarlægur er
og ég finn að þú samgleðst með mér.
Og gott er að ganga hér inn því gleði og vináttu finn.
Hérna finn ég þann frið sem oft fjarlægur er
Og ég finn að þú samgleðst með mér.

Næst í bókinni eru orð í upphafi guðþjónustunnar.  Þessi eru úr bókinni No Longer Strangers sem kom út hjá Lúterska heimssambandinu og fleirum árið 1983 og við höfum metið mikils:

Verum innilega velkomnar til að njóta vináttu Guðs og vináttu hver annarrar og hlusta á fagnaðarerindið sem gerir líf okkar yndislegt.  Hvers vegna komum við?

Til að minnast þess hvað ritningin segir okkur um hjálp Guðs.
Til að finna og gleðjast yfir nærveru Guðs í hversdegi okkar.
Til að leggja dýpsta ótta okkar,  gleði og vonir fyrir Guð.
Til að hafa kjark til að sjá að við eigum heilaga nærveru Guðs
í venjulegum atburðum lífsins.
Til að þakka Guði ástina í náðinni sem hún sýnir okkur í Jesú Kristi.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |30 júlí 2021 19:35|Fréttir|

Kvennakirkjan horfir fram til haustsins

Góðu vinkonur.  

Við erum svo margar farnar af hlakka til að hittast í september.  Við skulum  vona að þá verðum við aftur orðið grænt land.  Biðjum Guð að blessa jörðina sína.  Hún vill að við biðjum.  Gerum það.  Það er svo gott fyrir okkur að sitja hjá henni og tala við hana og heyra hvað nú segir.  Hún segir að það sé líka svo gott fyrir sig.

Það stendur auðvitað til að byrja með messu í september.  Við ætlum þá að láta nýju bókina okkar móta guðþjónustuna, eins og hún mótar allar guðþjónustur okkar.  Hún er einmitt um messurnar okkar og heitir:  Göngum í hús Guðs  –   guðþjónustan okkar.

Við ætlum að kynna hana í fyrstu messunni, syngja sálmana í henni og biðja bænanna og lesa lestrana úr Biblíunni.  Það verður svo gaman.  Við stöndum allar að bókinni en píanóleikarinn okkar Aðalheiður Þorsteinsdóttir hafði umsjónina með öllu saman.  

Bókin er gullfalleg.  Soffía Árnadóttir setti hana upp og teiknaði myndir í hana. 

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |27 júlí 2021 15:19|Fréttir|

Nýr framkvæmdastjóri Lútherska heimsambandsins

Á kvennréttindaginn, 19. júní var kosin nýr framkvæmdastjóri lútherska heimsambandsins. Séra Anne Burghardt verður fyrsta konan sem gegnir þessari leiðtogastöðu.

Lúterska heimssambandið (LWF) hefur kosið eistneska guðfræðinginn séra Anne Burghardt sem næsta framkvæmdastjóra  sambandsins.  Hinn 45 ára gamli Burghardt starfar nú sem yfirmaður þróunar fyrir guðfræðistofnun Eistlensku evangelísku lútersku kirkjunnar (EELC) og er ráðgjafi kirkjunnar vegna alþjóðlegra og samkirkjulegra tengsla.

Burghardt mun taka við sem nýr framkvæmdastjóri LWF í byrjun nóvember og taka við af séra Dr Martin Junge sem hefur leitt samfélag 148 meðlimakirkna síðustu ellefu ár. Hún verður fyrsta konan sem gegnir þessari leiðtogastöðu.

Eftir tilkynninguna sagði Burghardt:

„Ég er auðmjúk yfir þessum mikla heiðri og þakklát fyrir það traust sem meðlimir heimsambandsins hafa sýnt mér. Um leið og ég tek við þessari  sérstöku ábyrgð innan heimsambandsins, bið ég um leiðsögn anda Guðs. Ég fagna því að hafa möguleika á að vinna með ráðinu, með aðildarkirkjum og með mismunandi samstarfsaðilum, þar sem LWF heldur áfram að taka þátt í heildrænu verkefni Guðs. Megi Guð blessa samfélag okkar svo það geti verið blessun fyrir  kirkju og heim. “

Sjá nánar á heimasíðu Lútherska heimsambandsins með því að smella hér.

By |21 júní 2021 11:33|Fréttir|

Sjáumst hress í haust!

19. júnímessan verður ekki núna. Starf Kvennakirkjunnar hefst af fullum krafti í haust þegar september rennur upp svo fagur eins og alltaf. Þá bíða okkur nýútsprungnar bækur sem við bjóðum hver annarri og þeim sem vilja slást í hópinn. Þær eru alveg að renna sér í prentun. Þær eru til að safna okkur til biblíulestra, um Markúsarguðspjall, Postulasöguna og bréfin og Gamla testamentið. Mikið verður gaman. Látum okkur líða vel í sumrinu og hittumst í haust.

By |15 júní 2021 20:04|Fréttir|