Jóhannesarguðspjall

Jóhannesarguðspjall 5. 1-18

Stattu upp

Nú byrja ofsóknirnar. Jesús gefur færi á þeim með því að egna yfirmennina til reiði. Hefðum við nú ráðlagt honum þessa leið? Hann valdi að lækna á hvíldardegi þótt það væri stórsynd. Skyldi hafa verið skynsamlegra að bíða til morgundagsins? Hann ætlaði að gera þetta svona. Hann ætlaði að brjóta hefðirnar sem voru orðnar átrúnaður og segja að það væri hann sjálfur sem gæfi nýtt líf og eilíft líf. Hann fékk líflátshótun í staðinn.  Lækningin var við laugina þar sem fólk beið í biðröðum eftir lækningu. En Jesús sagði umyrðalaust við lamaða manninn sem beið þar í vonleysi: Stattu upp.   Og lamaði maðurinn stóð upp og gekk.

Skýringar Kvennakirkjunnar við Jóhannesaguðspjall munu smátt og smátt birtast hér (smellið á línuna)

By |8 mars 2015 11:50|Dagleg trú|

Syngjum sálm á dag

Það er svo gott að hugsa um alla dagana sem við áttum í jafnvægi, bæði af því að ekkert sérstakt truflaði okkur og af því að við réðum við það sem hefði annars truflað.  Rifjum það upp og syngjum lofgerðarsöng.  Við getum til dæmis sungið í dag  Ég vil ljóða um Drottin meðan lifi  eða Ástarfaðir himinhæða.    Ég segi það dagsatt að það er undursamlegt að syngja sálma.  Þegar við hittumst og eins einar með sjálfum okkur.  Það styrkir trú okkar stórkostlega og gleður okkur og gerir okkur enn fallegri og skemmtilegri.  Þó varla sé á það bætandi.  Syngjum samt og syngjum endilega og ég skal segja þér næst að það hefur margvísleg gæði.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |7 mars 2015 18:02|Dagleg trú|

Boðflennur

Við viðurkennum boðflennur, viðurkennum tilveru þeirra. Líka heima hjá okkur, í okkar hugarheimi. Eða finnst þér það ekki? Þær ryðjast eða læðast inn í huga okkar, líka á friðsömum dögum þegar við erum frjálsar og framtakssamar og þökkum fyrirgefningu Guðs. Þær koma líka þá daga. Þótt við séum á móti þeim. Þótt við höfum rekið þær út síðast. Þær koma samt. Sumar heita öfund og aðrar ótti við annað fólk, sumar afbrýðisemi og sumar reiði sem er út í bláinn. Sumar vantrú á sjálfum okkur. Þær eru fleiri. Og okkur finnst við pöddulegar að hafa ekki stoppað þær. Við skömmumst okkar fyrir þær. Það væri erfitt ef við værum ekki vinkonur Guðs. En við erum vinkonur hennar. Og hún hlær ekki að okkur og skammar okkur ekki þótt við séum svoddan pöddur. Hún hjálpar okkur. Hún fyrirgefur okkur og hjálpar okkur til að fyrirgefa sjálfum okkur og byrja upp á nýtt. Er það ekki undursamlegt? Jú, það er undursamlegt.

Blíðar kveðjur, Auður Eir

By |6 mars 2015 17:57|Dagleg trú|

Jóhannesarguðspjall

]Jóhannes  4. kafli

Fyrsti predikarinn sem Jesús sendi var kona

Jesús tók á sig krók til að hitta þessa konu.  Rabbíar eins og hann var töluðu ekki við konur á almannafæri og alls ekki útlenskar konur.  Þetta var algjört hneyksli og konan sá það sjálf og hvað þá vinir hans.  Ég held ekki að stelpunum í hópnum hafi ofboðið.  Og samverska konan var hvergi bangin.  Jesús gaf henni trúna.  Hún sá hver hann var og þá sá hún hver hún var.  Hún treysti honum og þá treysti hún sjálfri sér.   Af því að hann hafði trú á henni.  Hann var engum líkur og femínisti sem breytti heiminum.   Hann sagði við hana:  Hver sem drekkur af vatninu sem ég gef þyrstir aldrei aftur.  Því vatnið sem ég gef verður að lind sem streymir fram til eilífs lífs.

Skýringar Kvennakirkjunnar við Jóhannesaguðspjall munu smátt og smátt birtast hér (smellið á línuna)

By |5 mars 2015 21:03|Dagleg trú|

Jóhannesarguðspjall

Jóhannes 3. 3

Engin geta séð Guðs ríki nema þau endurfæðist

Endurfæðingin er boðuð í mörgum hópum kirkjunnar og sagt að við skulum gefast Jesú í eitt skipti fyrir öll og lifa eftir því upp frá því.  Það verða straumhvörf í lífinu og við getum rakið þau til tiltekinnar stundar.  Í öðrum hópum er sagt að við höfum alltaf tilheyrt Jesú vegna þess að hann tók á móti okkur í skírninni.  Hvað finnst þér?  Ég tel að við höfum alltaf tilheyrt Jesú og hann hafi staðfest það í skríninni.  Við eigum að taka afstöðu til þess, treysta því að í Jesú er Guð komin til okkar.  Við eigum að gera okkur grein fyrir afstöðu okkar.  Við eigum að standa við það  að okkur kristnu fólki er falið að lifa í trú okkar og boða hana og það er undirstaða og gleði lífs okkar.

Skýringar Kvennakirkjunnar við Jóhannesaguðspjall munu smátt og smátt birtast hér (smellið á línuna)

By |3 mars 2015 20:50|Dagleg trú|

Fyrirgefningin

Við eigum ýmis kjörorð í Kvennakirkjunni sem spretta upp úr guðfræðinni sem sprettur upp úr samtölum okkar kringum furuborðið á mánudagskvöldum, en líka víðar og oftar.  Eitt kjörorðið er orðin fjögur:  Fyrirgefning, frelsi, friður og femínismi.  Svo bættum við framtaksseminni við.  Við hugsum:  Fyrirgefningin er undirstaða lífs okkar, fyrirgefning Guðs sem leyfir okkur að fyrirgefa sjálfum okkur.  Í fyrirgefningunni verðum við frjálsar og í frelsinu eignumst við frið.  Og í friði til að vera við sjálfar eignumst við djúpa og glaðlega löngunina til að vinna að femínismanum.  Og vera framtakssamar yfirleitt.  Því það er í því sem við gerum í daglegu lífi okkar sem við finnum blessun kristinnar trúar okkar.  Finnst þér það ekki?

 

Blíðar kveðjur, Auður

By |2 mars 2015 22:36|Dagleg trú|

Jesús

Jesús  …

Hann gekk um, læknaði, boðaði kærleika og kenndi að guðsríki væri í nánd.

Hann boðaði  “milliliðalaust”  guðsríki og sniðgekk lögmálsboðun og siðareglur.  Hann boðaði Guð sem fyrirgefur og læknar en refsar ekki. Hann kemur óþekktur inn á sviðið,  ekki lærður rabbi, predikar á meðal fólksins  miskunn, fyrirgefningu og lækningu fyrir hina blásnauðu.  Hann fékk allar ráðandi stéttir og þorra almennings á móti sér og var krossfestur sem drottinsvikari og guðlastari.

Úr bæklingi Guðmundar G. Þórarinssonar verkfræðings:

HVER VAR JESÚS Í RAUN OG VERU OG HVERT VAR ERINDI HANS?

By |1 mars 2015 20:36|Dagleg trú|

Jóhannesarguðspjall

Jóhannes 3. 3

Engin geta séð Guðs ríki nema þau endurfæðist

Endurfæðingin er boðuð í mörgum hópum kirkjunnar og sagt að við skulum gefast Jesú í eitt skipti fyrir öll og lifa eftir því upp frá því.  Það verða straumhvörf í lífinu og við getum rakið þau til tiltekinnar stundar.  Í öðrum hópum er sagt að við höfum alltaf tilheyrt Jesú vegna þess að hann tók á móti okkur í skírninni.  Hvað finnst þér?  Ég tel að við höfum alltaf tilheyrt Jesú og hann hafi staðfest það í skríninni.  Við eigum að taka afstöðu til þess, treysta því að í Jesú er Guð komin til okkar.  Við eigum að gera okkur grein fyrir afstöðu okkar.  Við eigum að standa við það  að okkur kristnu fólki er falið að lifa í trú okkar og boða hana og það er undirstaða og gleði lífs okkar.

By |28 febrúar 2015 23:19|Dagleg trú, Óflokkað|

Það er svo gott að hittast

Nú er talað um geðheilsuna og við fáum glaðlegar hvatningar til að gæta að henni.  Alveg dásamlegt.  Ég held að bæði kirkjan og heilbrigðiskerfið ættu að hvetja til þess að búðir verði aftur opnaðar í hverri götu eins og einu sinni.  Það held ég að myndi styrkja geðið og gefa okkur öryggi með hinum.  Við finnum þetta öryggi þegar við hittumst í Kvennakirkjunni og Sigríður Magnúsdóttir orti þessi vers sem við syngjum saman:

Í gleði Guðs geng ég nú glaðsinna inn,

ó, hve gott er að fagna með þér.

Hérna finn ég þann frið sem oft fjarlægur er

og ég finn að þú samgleðst með mér.

Og gott er að ganga hér inn

því gleði og vináttu finn.

Hérna finn ég þann frið sem oft fjarlægur er

og ég finn að þú samgleðst með mér.

 

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |26 febrúar 2015 20:20|Dagleg trú|

Jóhannesarguðspjall

Jóhannesarguðspjall  3. Kafli

Svo elskaði Guð heiminn að hún kom

Litla Biblían, Jóh. 3. 16 er í þessum kafla:   Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn stendur í útgáfunni frá 1981.  En í nýju útgáfunni frá 2007 er talað um einkason.  Mér finnst þetta megi standa svona:  Svo elskaði Guð heiminn að hún kom sjálf og var Jesús svo að öll sem trúa á hann glatist ekki heldur hafi eilíft líf.  Þetta er nefnilega svona eins og Biblían vitnar um.  Kaflinn er aðallega um samtal Nikódemusar og Jesú og Jesús segir honum að endurfæðast.  Hvernig í ósköpunum get ég fæðst aftur, spyr Nikódemus.  Þú eignast nýtt líf þegar þú trúir á mig, svaraði Jesús. Það er Guð sem gefur þér nýtt líf.

By |24 febrúar 2015 23:18|Dagleg trú|