Það sem Konfúsíus sagði meira um leiðir til hamingjunnar

Styrkt hjarta og styrkur hugur hjálpar okkur til að komast yfir þá eftirsjá sem við hljótum að mæta og skissurnar sem við komumst ekki hjá að gera í lífinu.   Hver dagur verður endurfæðing og þú sýnir öðru fólki hvernig á að njóta lífsins.  Ef við erum skýr í hugsun og rausnarleg, hreinskilin og hugrökk er trúlegt að við hljótum margskonar ávinning sem við áttum ekki von á og finnum velvild í garð okkar.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |22 maí 2015 20:08|Dagleg trú|

Postulasagan

2. 1 –  13 Tungutalið á hvítasunnunni

Seinna varð annars konar tungutal iðkað sums staðar í nýstofnaðri kirkjunni eins og sést í Korinþubréfinu.  Það er enn talað tungum í sumum hlutum kristinnar kirkju eins og við þekkjum í Hvítasunnusöfnuðinum hér og berum sjálfsagða virðingu fyrir.  En undrið á hvítasunnunni  var einstakt.  Jesús gaf mátt sinn, skilning og kærleika eins og hann hafði lofað.  Svo að fólkið hans gat framkvæmt það sem hann fól því.  Það gat lífað í trúnni á hann, treyst honum í gleði og ofsóknum,  fyllst kjarki og breitt trúna út um alla veröldina.  Undur hvítasunnunnar  gerist þess vegna  líka núna í hvert skipti sem þau sem heyra fagnaðarerindið heyra að það er talað til þeirra.  Og undur hvítasunnunnar endurtekur sig alltaf þegar fólk Krists lifir í vináttu hans.  Heilagur andi  heldur áfram að gefa kristnu fólki sínu mátt, kjark og ást til að lifa í sífellri siðbót.

By |21 maí 2015 20:49|Dagleg trú|

Það sem Konfúsíus sagði um hamingjuna

Konfúsíus var og er hinn mikli spekingur Kínverja.  Hann var uppi um 500 fyrir Krist.  Við getum með gleði tekið til okkar margt í speki hans.  Hann segir:

Ef við erum laus við óró, ráðleysi og ótta höfum við minni ástæðu til að kvarta yfir því sem gerist kringum okkur og við finnum betur og betur til hamingju okkar.  Það er mesti lærdómur okkar að auka hæfileika okkar til að vera hamingjusöm.

Í kristinni trú treystum við því að Guð gefi okkur ró, ráð og hugrekki. Það byrjar hvern dag með bæn, samtali okkar og Guðs,  og heldur áfram allan daginn í vináttu Guðs.   Það er dásamlegt.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |20 maí 2015 20:08|Dagleg trú|

Postulasagan

Postulasagan   2. 1 -13  –   Hvítasunnan

Hvítasunnan var komin.  Hún var hátíð Ísraels til að minnast þess þegar lögmálið var gefið á Sínaí.  Hvítasunnan er hátíð kristinnar trúar af því að þá var kirkjan stofnuð.  Þau voru öll í loftstofunni.  Þá gerist undrið sem Jesús hafði heitið þeim en þau gátu ekki ímyndað sér  hvernig yrði.  Heilagur andi birtist með gný af himni og fyllti húsið.  Þeim birtust eldtungur sem settust á þau öll svo þau töluðu útlend tungumál sem þau kunnu ekki en andinn gaf þeim.  Fólk streymir að og öll heyra talað á sinni eigin tungu.   Það var undrið mikla, gjöf andans.

By |18 maí 2015 17:15|Dagleg trú|

Postulasagan

Það voru margar konur í hópnum

Lúkas er hvorki að segja ævisögur þeirra  Péturs,  Jóhannesar og Páls sem hann skrifar mest um né annarra í kirkjunni.  Hann er að skýra frá því hvernig fagnaðarerindið um upprisu Jesú Krists sigraði í margslungnum heiminum.   Hann segir varla nokkuð um konurnar í hópnum.  Hann  segir frá nokkrum þeirra í guðspjallinu og í upphafi 8. kaflans nafngreinir hann nokkrar þeirra sem unnu með Jesú.  Í  síðasta kafla Rómverjabréfisins, sem Páll skrifar,  er getið nokkurra kvenna sem höfðu þá forystuhlutverk í kirkjunni.   Störf þeirra hafa verið þau sömu og forystustörf mannanna í söfnuðunum.  Meðal þessara kvenna er Júnía sem var postuli.  Jesús kallaði konur til starfa og gerði þær að fyrstu vottum upprisunnar.  Hann breytti lífi þeirra og kirkjan fylgdi því um skeið eins og sést í bréfum Páls.  Páll átti margar samstarfskonur og  var kvenréttindamaður þótt það brygði stundum út af því.  En  það var ekki oft.

By |16 maí 2015 16:57|Dagleg trú|

Til hamingju með sumarið framundan

Nú skín sólin í kuldanum en kannski verður rigninin
Komin þegar þú færð þetta bréf.  Sumir dagar eru
hlýrri en aðrir og sums staðar hlýrra en annars
staðar, það er hlýrra undir húsveggjum en úti á
götu.  Það er eins og með lífið sjálft.  Eða hvað
finnst þér?

Mér finnst verulega skynsamlegt að njóta þess
þegar við getum að sitja undir hlýjum veggjunum
okkar.  Við eigum það bara skilið.  Það er jafn
skynsamlegt að sitja að góðum hugsunum eins og
við mögulega getum og vera ekki að hleypa hvers
lags hugsunum að okkur sem við getum ekkert gert
við.  Eða hvað finnst þér?

En við þurfum samt stundum að fara út í kuldann
og líka

Blíðar kveðjur

Auður Eir

By |15 maí 2015 12:02|Dagleg trú|

Postulasagan

Postulasagan   1. 9 – 26  –  Jesús fer til himna og hverfur í skýjunum 

Eftir þetta fór hann til himna og hvarf í skýjum himinsins.  En englar koma og segja hópnum að Jesús komi aftur eins og hann fór.  Þau fara fagnandi til Jerúsalem og safnast saman í loftstofunni sem þau höfðu til umráða og velja  Matteus í stað Júdasar til að koma í hóp postulanna.  Lúkas nafngreinir nokkra mannanna og segir að fjölskylda Jesú hafi líka verið þarna.   Hann nafngreinir ekki konurnar í hópnum nema Maríu mömmu Jesú.  En hann segir frá því að konurnar hafi líka verið þar:  Konurnar voru einnig í hópnum, skrifar hann.

By |14 maí 2015 16:56|Dagleg trú|

Upprisa Krists í upprisu vorsins

Ég var að hugsa um það einhvern tíma um daginn að það væri dásamlegt að vera stödd einmitt hér og á þessu skeiði ársins. Þann morgun, í það morgunsár var greinileg breyting í lofti, það var vorilmur  og fuglar sungu. Allt á réttri leið. Og enn er vorið ekki komið, svo að við höfum tíma til að hlakka til, og við finnum það nálgast litlum fótum og hljóðlegum.

Við göngum burt frá vetri og inn í hlýju.  Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn.

Með bestu kveðjum,  Dalla Þórðardóttir

By |13 maí 2015 21:26|Dagleg trú|

Postulagsagan 1. 1- 8

Jesús er hjá fólkinu sínu  í 40 daga eftir upprisuna og segir að þau munu eignast kraft til að boða fagnaðarerindið um allan heiminn

Lúkasarguðspjalli lýkur á frásögunni um himnaför Jesú þegar hann skildist við hópinn sinn.  Þá hafði hann  verið hjá honum í 40 daga eftir upprisuna. Þessi dagur er kallaður uppstigningardagur í kristinni kirkju, dagurinn þegar Jesús  steig upp til himna.  Frá honum eru 10 dagar til hvítasunnu.   Það var í nánd við Betaníu sem Jesús sté til himna og þar byrjar Postulasagan.  Jesús  er enn hjá þeim og þau geta spurt hann.  Þau spyrja hvort hann ætli nú að endurreisa ríkið handa þjóð sinni.  Þið þurfið ekki að vita tímann, segir Jesús, en þið eigið eftir að boða fagnaðarerindið bæði hér og til endimarka jarðarinnar.  Heilagur andi gefur ykkur kraftinn til þess.

By |12 maí 2015 16:51|Dagleg trú|

Nesti fyrir gesti – en fyrst og fremst fyrir heimlisfólk

Nesti fyrir gesti – en fyrst og fremst fyrir heimilisfólk er yfirskrift maí guðþjónustu Kvennakirkjunnar. Hún verður haldin í Garðakirkju sunnudaginn 17. maí kl. 20:00. Athugum að nú er kvöldmessa. Sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir prédikar um nesti handa gestum en allra helst fyrir heimafólk. Guðrún B. Jónsdóttir verður með vitnisburð. Aðalheiður Þorsteinsdóttir og konur Kvennakirkjunnar leiða sönginn. Að venju er kaffi að athöfninni lokinni í Króki og þær sem sjá sér fært að koma með meðlæti fá alúðarþakkir.

By |12 maí 2015 13:21|Fréttir|