Kirkjur finna nýjar leiðir

Fyrst námskeið haustsins í Kvennakirkjunni heitir Kirkjur finna nýjar leiðir. Námskeið er tvö
mánudagskvöldin  28. september  og 5. október  klukkan 20 til 21.30 í Þingholtsstræti 17

Á námskeiðinu verður einkum sagt frá tveimur konum sem komu hingað í ágúst á vegum Áhugamannafélags um guðfræðiráðstefnur og héldu námskeið og messu í Langholtskirkju.

Séra Arndis Linn og séra Elína Hrund eru í hópnum og tóku þátt í starfinu og ætla að segja okkur frá hugmyndum
og starfi þessarra ágætu kvenna.

Elína ætlar aukinheldur að segja frá ráðstefnu sem hún sækir í Bandaríkjunuum nýjungar í kirkjustarfi.

Við hellum upp á kaffi og bökum vöfflur og þú kemur ef þú getur og ert innilega velkomin

By |8 september 2015 19:20|Fréttir|

Og meira um fyrirgefninguna

Já, ég ætlaði að segja að fyrirgefningin tekur ekki af okkur frumkvæðið heldur hvetur okkur.  Við látum okkur ekki detta í hug að fyrirgefning Guðs geri okkur stikkfrí frá því að lifa lífinu með möguleikum þess og ómöguleikum.  Fyrirgefningin gerir okkur frjálsar til að mæta því sem við mætum, njóta lífsins og nota það, gera það sem þarf að gera og gera það vel.   Og taka því sem þarf að taka og standast það og horfast i hugrekki í augu við þá lífsreynslu sem við hefðum vilja komast hjá.    Eða hvað segir þú?

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |3 september 2015 21:17|Dagleg trú|

Fyrsta messa Kvennakirkjunnar á þessu hausti

Kvennakirkjan heldur fyrstu guðþjónustu haustsins í samstarfi við 40 ára fermingarbörn frá Suðureyri við Súgandafjörð. Guðþjónustan fer fram í Seltjarnarneskirkju sunnudaginn 13. September kl. 20:00. Auður Eir Vilhjálmsdóttir prédikar. Steingerður Þorgilsdóttir syngur djassaða sálma og Aðalheiður Þorsteinsdóttir sér að venju um tónlistina. Kleinukaffi í lok messunnar !

By |3 september 2015 20:45|Fréttir|

Fyrirgefningin

Ég skrifaði að ég teldi að fyrirgefning Guðs væri grundvöllur lífs okkar og mesta hamingja okkar að taka á móti henni og fyrirgefa sjálfum okkur.  Dag eftir dag, á hverjum degi.  Ég hitti stundum fólk sem er alveg á móti þessu og ber oft fyrir sig fyrirgefninguna í kaþólskum skriftum, að fremja glæp, fá fyrirgefningu og fara og fremja sama glæpinn eða aðra.  Það er bara vitleysa að tala svona.  Þetta er ekki fyrirgefningin sem nokkur kirkjudeild boðar.  Þetta er vanþekking ef ekki fyrirlitning, jú, fyrirlitning, á þeirri miklu náð sem þau finna sem koma til Jesú með sorg sína yfir eigin verkum eða hugsun og fá fyrirgefningu, óendanlegan létti sem bjargar lífi þeirra.

Blíðar kveður,  Auður Eir

By |1 september 2015 21:15|Dagleg trú|

Þau skuldbundu sig til að vinna engin vond verk

Kristin trú var tortryggð og kristið fólk var ofsótt.  Þau voru áskökuð um stórfellda glæpi, gjálífi og drykkjuskap og meira að segja mannát – hvað var það eiginlega þegar þau sögðust eta hold þessa manns sem þau sögðust trúa á?  Embættismaður keisarans, hann hét Plíníus og keisarinn Trajanus,  gerði sína eigin rannsókn til að senda keisaranum.  Það var  í byrjun annarrar aldar.  Hann komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri meinlaust fólk.  Það hittist snemma á fyrsta degi vikunnar og syngi lofsöng um  Krist sem þau sögðu að væri Guð.  Seinna um daginn hittust þau aftur til að borða saman venjulegan mat.  En morgunsamverunni lauk með því að þau unnu eið að því að fremja ekki vond verk.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |29 ágúst 2015 21:08|Dagleg trú|

Við höfum skuldbundið okkur

Kristið fólk hefur gefið út margar skuldbindingar.  Það skuldbatt sig til að halda trúfesti við orð frelsara síns Jesú Krists.  Það skrifaði yfirlýsingu sem við eigum í Postullegu trúarjátningunni frá annarri öld.  Við  orðum hana svona í Kvennakirkjunni:  Ég trúi á Guð sem skapar og er Jesús sem frelsar og Heilagur anda sem er alltaf hjá okkur.   En við flytjum hana líka í allri lengd sinni.   Þau urðu að gera sér grein fyrir trú sinni, sjálfra sín vegna fyrst og fremst, en líka til segja öðrum hver hún væri.  Það var mikið verk margra alda að tala saman til að fá niðurstöðu um trúarjátningar kirkjunnar.  Við búum að því mikla starfi og skulum þakka fyrir það og gera upp okkar eigin huga um þessar miklu yfirlýsingar.

Með blíðum kveðjum,  Auður Eir

By |27 ágúst 2015 21:07|Dagleg trú|

Við skulum skuldbinda okkur

Við skulum skuldbinda okkur

Árið 1993 kom fólk saman í Chicago til að finna og koma orðum að siðfræði sem fólk gæti komið sér saman um.

Íhugum viðfangsefnið, niðurstöður þessa fundar:

Við skuldbindum okkur til að iðka menningu sem virðir líf og er laus við ofbeldi
menningu réttláts hagkerfis og samstöðu
menningu umburðarlyndis og lífs í sannleika
menningu jafnréttis og samvinnu karla og kvenna

Leyfum öðrum að iðka sína trú og leita leiða til að vinna að friði og sátt. Við trúum að Guð hjálpi okkur til að finna leiðir. Hún skundar til hjálpar við hitt fólkið á einhvern annan hátt, treystum henni til þess. En að við skömmumst okkar fyrir okkar kristnu trú, nei, ekki aldeilis!  Eða að við sláum af þessum kröfum um virðingu og jafnrétti, af því að það hentar ekki fólki sem ekki trúir eða trúir öðru. Það skal aldrei verða!

http://en.wikipedia.org/wiki/Towards_a_Global_Ethic:_An_Initial_Declaration

Commitment to a culture of non-violence and respect for life
Commitment to a culture of solidarity and a just economic order
Commitment to a culture of tolerance and a life of truthfulness
Commitment to a culture of equal rights and partnership between men and women

Með bestu kveðjum,  Yrsa Þórðardóttir

By |25 ágúst 2015 21:04|Dagleg trú|

Við getum beðið fyrir öllum

Þau sem trúa ekki á Guð sem opinberaðist í Jesú og reis upp á páskum, eru afskaplega gott fólk og virðingarvert. Þau bara trúa ekki á okkar Guð. En Guð trúir á þau.

Í löndum þar sem kristni hefur tímabundið verið skotið til hliðar af virðingu við veraldlegt lýðveldi, benda sum á að nú sé komið nóg. Rómverska kirkjan heldur áfram að banna konum að vera prestar, múslimakonum er bannað að vera með slæður á höfði, fólk er illa upplýst um trúarbrögð almennt og þá jafnframt bókmenntir og listasögu.

Hvað getum við gert? Við getum beðið fyrir öllum og siglt í kjölfar friðarhreyfinga nútímans og rifjað upp okkar guðfræði. Jesús barðist fyrir jafnrétti. Jesús ítrekaði gullnu regluna: komdu fram við aðra eins og þú vilt að þau komi fram við þig.

Með bestu kveðjum,  Yrsa Þórðardóttir

By |6 júlí 2015 15:42|Dagleg trú|

Kvennakirkjan býður í Vöfflukaffi

Til að fagna sumri bjóðum við í Kvennakirkjunni í vöfflukaffi þriðjudaginn 7. júlí kl. 20:00. Við komum saman og fögnum samstarfinu og njótum þess að vera til. Kaffið verður í húsakynnum Kvennakirkjunnar Þingholtsstræti 17 og þangað eru allir velkomnir að fagna lífinu með Guði.

By |4 júlí 2015 9:34|Fréttir|

Gætum að andlegum auðæfum okkar

Það er dýrmætt að eiga trú.  Það er fjársjóður.  Látum engan og ekkert taka hana frá okkur.  Hún er frjálst val.  Og það er einnig dýrmætt að fá að lifa í kristnu samfélagi, hvort heldur sem er í kirkjunni eða í þjóðfélaginu.  Það er yndislegt að hafa frelsi til að sækja kirkjur og fá þar kraft og blessun til að fara aftur út í hið daglega líf.  Gætum að andlegum auðæfum okkar.  Við erum fulltrúar Guðs í heiminum.  Við berum ábyrgð að standa vörð um réttlætið.

Með bestu kveðjum,  Hulda Hrönn M. Helgadóttir

 

By |1 júlí 2015 15:38|Dagleg trú|