Við getum lesið textann svona.

Svona getum við lesið textann sem ég sendi síðast

Ég hef nú nýjar hugmyndir og er farin að framkvæma þær og þið sjáið það. Ég gef ykkur ný blóm í garðinn, ég vökva hann svo að það sem er þurrt og vatnslaust verður mjúkt og ilmandi og blómin vaxa og trén fá ný lauf.  Það er eins með garð ykkar eigin huga.  Ég gef ykkur orðið mitt.  Og það hefur áhrif.  Þið farið að gera það sem gleður ykkur og verður að svo miklu gagni.

Bestu kveðjur,  Sigrún Gunnarsdóttir

By |15 apríl 2016 21:56|Dagleg trú|

Þegar tómur hugur okkar verður eins og nývökvuð blómabreiða

Þetta eru versin sem ég skrifaði um síðast:

Eyðimörkin og hið þurra landið skulu gleðjast, öræfin skulu fagna og

blómgast sem lilja.  Þau skulu blómgast ríkulega og fagna af unaði og gleði.

Ég geri eyðimörkina að vatnstjörnum og þurrlendið að uppsprettum.

Sjá, nú hef ég nýtt fyrir stafni.  Það tekur þegar að votta fyrir því. 

Sjáið þið það ekki?

Ég geri veg um eyðimörkina og leiði ár um öræfin.

Því eins og regn og snjór fellur af himni ofan og hverfur eigi þangað aftur fyrr en það hefur vökvað jörðina og gert hana frjósama og gróandi og gefið þeim sem sáðu sæði og brauð þeim sem eta, eins er því farið með mitt orð sem útgengur af mínum munni: Það hverfur ekki aftur til mín við svo búið, ekki fyrr en það hefur framkvæmt það sem mér líkar vel og komið því til vegar sem ég fól því að framkvæma.

Ég skrifa ykkur næst hvernig við getum líka lesið þau.

Bestu kveðjur,  Sigrún Gunnarsdóttir

By |13 apríl 2016 21:56|Dagleg trú|

Guð skapaði þig til að skapa með sér

Ef við höfum einhvern tíma hugsað að við hljótum alltaf að bíða ósigur fyrir því sem dregur okkur niður þá skulum við hætta að hugsa það.  Ef við höfum hugsað að vanmátturin eða hrokinn séu einkenni okkar skulum við hætta að hugsa það.  Það eru ekki þessar hugsanir sem Guð gefur okkur til að vinna eftir.  Hún segir ekki að við verðum alltaf að sigra og að okkur megi aldrei mistakast.  En hún segir að hún muni alltaf gefa okkur máttinn aftur.

Það er í ráðningarsamningnum að við vinnum eftir þessu.  Það er að stíga út úr vanmættinum og inn í máttinn sem er máttur Guðs.  Máttur okkar er máttur sem er utan við sjálfar okkur.  Það er máttur Guðs.   Skilurðu?  Já, já, við skiljum þetta og þökkum innilega og förum í kaffi.

Úr bók Kvennakirkjunnar: Vertu leiðtogi í þínu eigin lífi.

Með blíðum kveðjum,  Auður Eir

By |11 apríl 2016 21:54|Dagleg trú|

Kærasta Samsons áður en hann hitti Dalílu

En áður en við komum að Dalílu, ber að geta fyrsta sambands hans . Auðvitað þurfti hann að verða ástfanginn af dóttur óvinarins, Filistastúlku og var ekki tauti við hann komið. Það er upphaf ógæfunnar. Strax eftir brúðkaupið varð Samson svo ósáttur við þorpsbúa að til deilna kom , lausn hans var að hann gerði sér hægt um hönd og drap þarna þrjátíu manns, sem hann taldi að hefðu svikið sig og rauk svo heim í foreldrahús í bræði. Þegar hann sneri aftur að dágóðum tíma liðnum, hafði brúður hans verið gift öðrum manni. Þarna er vendipunktur í sögunni. Samson verður úr þessu upptekinn af því að hefna ófara sinna en honum gleymist ætlunarverkið, að frelsa þjóðina sína undan oki Filista.

Bestu kveðjur,  Dalla Þórðardóttir

 

By |9 apríl 2016 21:50|Dagleg trú|

Guð gefur okkur tækifærin

Það er Guð sem gefur okkur tækifærin og styður okkur í því að nota þau. Gefur okkur nýjar hugmyndir og hugsanir og hjálpar okkur að sjá hvar möguleikarnir eru. Þegar allt virðist komið í þrot, við sjáum ekki út úr myrkrinu, er Guð á sínum stað, í hjarta okkar og ef við stöldrum við og hlustum heyrum við hvar tækifærin eru, hvað við getum gert til að rækta blómin okkar, lífgað þau, gefið þeim næringu. Þessum blómum sem eru í garði lífs okkar, garði okkar eigin huga.

Um þetta er skrifað í Jesaja. Þar segir hvernig Guð gefur okkur frjósama garða og gerir eyðimörk að vatnstjörnum og þurrlendið að uppsprettum. (Jes. 35.1-2 og 41.18 og 43.19 og 55.10) og ég sendi ykkur þessar ritningargreinar í næstu kveðju.

Með bestu kveðjur þangað til, Sigrún Gunnarsdóttir

By |7 apríl 2016 21:49|Dagleg trú|

Guðþjónusta í Fríkirkjunni í Hafnarfirði

Guðþjónusta Kvennakirkjunnar í apríl verður í Fríkirkjunni í Hafnarfirði sunnudaginn 10. apríl kl. 20. ATHUGUM AÐ NÚ ER KVÖLDMESSA!!. Ræðuefnið er Kjaftasögur. Séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir predikar. Ragnhildur Ásgeirsdóttir syngur. Aðalheiður Þorsteinsdóttir stjórnar
gleðilegum söng okkar með kór Kvennakirkjunnar. Kaffi í safnaðarheimilinu þær sem sjá sér fært að koma með meðlæti fá aðlúðarþakkir

By |5 apríl 2016 21:28|Fréttir|

Okkar deild í Guðsríkinu

Við höfum fengið vinnu í Guðsríkinu.  Guðsríkið er aldagamalt alþjóðafyrirtæki.  Við vinnum þar með milljónum fólks um alla veröldina.  Daglegt líf okkar er okkar deild.  Þar gerist allt og þar tökum við á móti efni Guðsríkisins og dreifum því.  Með því sem við erum, hugsum, segjum og gerum.  Það þarf að koma fram með nýjar hugmyndir og taka upp nýja möguleika, koma verkum frá, læra að gleðjast yfir því sem tekst, þora að taka þátt í því sem kann að misheppnast og taka því sem heppnast ekki.

Það er mikið að gera.  Við kæmum því ekki af nema af því að Guð gefur okkur máttinn og mildina.

Úr bók Kvennakirkjunnar: Vertu leiðtogi í þínu eigin lífi.

Með blíðum kveðjum,  Auður Eir

By |3 apríl 2016 21:48|Dagleg trú|

Samson með síða hár

Þetta er framhaldskafli um Samson.  Þið þekkið ef til vill söguna af Samson.  Hana að finna í 13. -16 . kafla í Dómarabókinni.

Hann kom í þennan heim til þess að gegna ákveðnu hlutverki; honum var í upphafi plantað í góða jörð og hann átti að bera ríkulegan ávöxt. En það fór á annan veg.  Hann átti að byrja á því að frelsa landa sína undan yfirráðum Filista, útlendinga, sem okuðu þjóðina. Og þess vegna er það i senn dapulegt og hlálegt að um hann var sagt: “Hann var dómari í Ísrael á dögum Filista. “Tímabil hans sem leiðtoga var merkt einmitt því sem hafði átt að verða hans helsta verk. Honum var ætlað að verða hetja.  Engill tilkynnti móður hans að frá fæðingu mætti aldrei skerða hár hans, hann var frátekinn. Samson hafði ofurkrafta og taldi sjálfur, og ef til vill var það rétt, að þeir tengdust lokkaflóðinu og að ef hárið yrði klippt yrði hann linur sem aðrir menn, eins og það er orðað.   Og hvað skyldi nú framhaldið verða?

Bestu kveðjur,  Dalla Þórðardóttir

By |1 apríl 2016 21:46|Dagleg trú|

Spekúlerum í hlutunum

Áður en við byrjum að á því að henda, geyma og hafa fremst spekúlerum við í hlutunum. Horfum yfir, spáum í hlutina, tökum ákvarðanir gerum áætlun.

Í garði okkar eigin huga eru hæðir og hólar, lautir og lægðir. Hæðirnar má nota til að taka sprett, hlaupa upp og horfa yfir. Hafa yfirsýn og sjá hvernig gengur, hvað grær og dafnar og hvar óræktin er, hvað er visið og vanrækt. Við getum líka horft yfir girðinguna, hvernig, hvaða hugmyndir eru notaðar í öðrum görðum og hvernig vöxturinn er þar, handan við girðinguna.

Lautirnar má nota til að komast í var, vera í skjóli, hvíla sig og hugsa málið, skoða hugsanir sínar, vega og meta og taka ákvörðun. Taka ákvörðun miðað við það sem við sjáum frá hólnum, það sem við sjáum í huga okkar, miðað við tækifærin hverju sinni, hvað tilheyrir möguleikum okkar.

Bestu kveðjur,  Sigrún Gunnarsdóttir

 

By |30 mars 2016 21:46|Dagleg trú|

Hjálpum hver annarri til að fyrirgefa sjálfum okkur

Við þurfum að hafa sjálfar okkur á hreinu til að vera leiðtogar okkar.  Það er svo undursalegt að við getum ráðið við okkur og yfir okkur.  Af því að Guð gefur okkur máttinn til þess.

Til að hafa sjálfar okkur á hreinu þurfum við að læra að fyrirgefa mistökin.  Okkar mistök og mistök annarra.  Fyrirgefningin er ein af undirstöðum lífsins.  Hún er gjöf Guðs til okkar og við þurfum ekki að gera neitt nema taka á móti henni.  Trúirðu því?  Það er alveg óhætt því það er alveg satt.  Guð sagði það.

Hvað finnst þér þú þurfa að fyrirgefa þér?  Hvað vildirðu biðja annað fólk að fyrirgefa þér?

Hvað finnst þér þú þurfa að fyrirgefa öðrum?  Það þarf smátíma til að hugsa um þetta.

Úr bók Kvennakirkjunnar: Vertu leiðtogi í þínu eigin lífi.  Með blíðum kveðjum,  Auður Eir

By |28 mars 2016 21:44|Dagleg trú|