Haustferð til Selfoss

Kvennakirkjan leggur í Haustferð til Selfoss laugardaginn 24. september.  Förum frá BSÍ kl. 11 og röðum okkur í bílana hjá þeim sem keyra. Drekkum kaffi og förum í búðir og göngum um götur.Heimsækjum séra Guðbjörgu í kirkjuna og höfum helgistund. Setjumst og fáum okkur veitingar og tölum saman um starfið framundan.

By |12 september 2016 21:32|Fréttir|

Tölum saman um það hvernig við tölum saman

Hittumst og tölum saman um það hvernig við tölum saman.

Boðað er til samræðu- og fræðslufundar mánudaginn 19. september kl. 16:00-17:30 á fjórðu hæðinni á Biskupsstofu, en það er í samræmi við hugmyndina sem kom upp í 40 ára vígsluafmæli sr. Auðar Eir. Örþingsnefnd kirkjunnar, FPK og Kvennakirkjan munu standa að þessum fundum sem áætlað er að hafa 1 x í mánuði. Yfirskrift fyrsta fundarins er: Hvernig tölum við saman ?
sr. Jóhanna Magnúsdóttir flytur erindi á þessum fyrsta fundi okkar og á eftir verða umræður og kaffitár. Sveinbjörg Pálsdóttir sér um að hafa stjórn á okkur, og svo tölum við saman.

By |10 september 2016 11:04|Fréttir|

Guðþjónusta við Kjarlvasstaði á Kvenréttindadaginn

Guðþjónusta verður 19.  júní klukkan 20 við Kjarlvalsstaði. Séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir predikar. Konur frá KRFÍ og KFÍ bjóða fólk velkomið og lesa ritningarlestra Anna Sigríður Helgadóttir syngur Aðalheiður Þorsteinsdóttir og kór Kvennakirkjunnar stjórna söngnum. Verið öll velkomin.

By |3 júní 2016 22:19|Fréttir|

Guðþjónusta Kvennakirkjunnar á Álftanesi

Guðþjónusta Kvennakirkjunnar verður að þessu sinni í Garðakirkju á Álftanesi sunnudagskvöldið 8. maí kl. 20:00. Signý Gunnarsdóttir og Sólveig Hannesdóttir segja frá trú sinni. Aðalheiður Þorsteinsdóttir og kór Kvennakirkjunnar leiða okkur í undursamlegum sálmum.

Á eftir verður kaffi í litla fallega húsinu Króki. Þær sem sjá sér fært að færa okkur veitingar sem
við getum borðað úr servéttunum okkar fá alúðarþakkir

By |4 maí 2016 16:39|Fréttir|

Séra Arndís prestur í Mosfellsbæ

Prestur okkar séra Arndís G. Bernhardsdóttir Linn hefur nú verið kosin prestur í Mosfellsbæ og þjónar hinum tveimur kirkjum þar, Mosfellskirkju og Lágafellskirkju með séra Ragnheiði Jónsdótur sóknarpresti.  Séra Arndís hefur starfað lengi í safnaðarstarfi og sem kirkjuvörður í Mosfellsbæ og er fædd þar og uppalin.

Kvennakirkjan óskar séra Arndísi innilega til hamingju og biður henni blessunar Guðs í einu og öllu.  Séra Arndís vígðist prestur Kvennakirkjunnar árið 2013. Hún heldur áfram að vera prestur okkar með séra Auði og við höldum áfram að vera henni allt sem við getum til gleði og styrktar eins og hún er okkur.

 

By |29 apríl 2016 21:52|Fréttir|

Það sem við erum alltaf að segja

Já, nú erum við að skrifa bókina sem við einu sinni ákváðum að skrifa:  Kaffihús vinkvenna Guðs.  Við erum að skrifa um fyrirgefninguna sem er  aðalboðskapur bókarinnar.

Þess vegna er það þegar ég kem á ýmsa staði innan um fólk að mér dettur í hug hvort þetta fólk sé eitthvað að hugsa um það sem við erum að tala um og skrifa.  Ætli þau séu stundum að hugsa um syndina sem er fyrirgefin?  Ég bara veit það ekki.

Ætli við séum kannski bara að tala út í bláinn og ættum frekar að tala öðru vísi, segja annað og segja það á annan hátt?

Það getur bara verið.  Við gerum það líka.  Við tölum um gleðina yfir að vera til og möguleikana til að gera dagana frábæra og gefum gullin ráð úr orðum Biblíunnar:  Hættu nú að dæma annað fólk og sjálfa þig.  En gerðu þér grein fyrir því sem er um að ske. Vertu ekki að fylla hjarta þitt af furðulegum hugmyndum en hafðu nóg rúm þar fyrir það sem er gott og gleðilegt.  Sjáðu hvað þú átt margt í dögunum núna og í minningunum.  Njóttu þess og notaðu.

Þetta segjum við og svo margt fleira í öllum guðþjónustunum og á námskeiðunum og í bókunum okkar.  Þetta er guðfræðin okkar og miklu dýpri en heillaráð til sjálfshjálpar sem eru samt frábær og við notum sjálfar í guðfræði okkar.  Hún er alltaf, hvað sem hún fjallar um, fagnaðarerindið um fyrirgefninguna.  Fyrirgefning Guðs er stórkostlegasta gjöf daganna og í henni megum við fyrirgefa sjálfum okkur.

Blíðar kveðjur,  Auðir

By |25 apríl 2016 21:33|Dagleg trú|

Biðjum hver fyrir annarri

Góðu vinkonur, það er ómetanlegt að eiga hver aðra að.  Að geta komið og hitt hver aðra og fundið öryggið og friðinn af því að vera með öðrum konum sem eiga sömu trúna og við, trúna á Jesúm frelsara okkar sem er Guð vinkona okkar. Biðjum hver fyrir annarri.  Við eigum góða og gleðilega daga og við eigum líka þunga og erfiða daga.  Við segjum það aftur og aftur.  Við skiptumst á,  sumar okkar eiga góða daga núna og aðrar erfiða, við eigum allar góða daga og erfiða eins og við vitum.

Biðjum hver fyrir annarri og vitum og gleðjumst yfir því að það er beðið fyrir okkur á hverjum einasta degi.

Með blíðum kveðjum,

Auður Eir

By |22 apríl 2016 21:30|Dagleg trú|

Við höfum umboð frá Guði

Náð Guðs og orð Guðs kemur til okkar og við leggjum okkur fram við að sjá og heyra.

Sjá vel og vandlega hver og hvar við erum. Gefum sjálfum okkur umboð til að vera við sjálf, þar sem við erum, bara rétt si svona eins og við erum. Stöndum með sjálfum okkur í því sem við erum, hér og nú.

Með bestu kveðjum,  Sigrún Gunnarsdóttir

By |20 apríl 2016 22:01|Dagleg trú|

Úr Ráðningarsamingnum í Guðsríkinu

Þú þarft hugrekki til að lifa kristna trú þína.

Það er að lifa í frelsi Guðs en ekki reglum þínum og annarra.

Þú ert yndisleg manneskja

Guð sagði það.  Treysti því og njóttu þess.

Úr bók Kvennakirkjunnar: Vertu leiðtogi í þínu eigin lífi.

Með blíðum kveðjum,  Auður Eir

By |19 apríl 2016 22:00|Dagleg trú|

Dalía, ó, Dalía – af hverju sveikstu okkar mann?

Og nú er komið að Dalílu, sem einnig var af þjóð Filista. Þeir fengu hana til að komast að leyndarmáli Samsonar, hvernig stæði á kröftum hans. Hann sagði henni þá að ef hár hans yrði klippt yrði hann linur og sem aðrir menn. Og hún svæfði hann og hár hans var klippt. Er hann vaknaði voru kraftar hans horfnir, hvort sem það var eftir hárskurðinn eða, af því að Guð hafði tekið anda sinn frá honum, sem þykir allt eins líklegt. Samson treysti á krafta sína og taldi sig alls ekki venjulegan mann, hann sem átti að verja friðinn, gekk á rétt annarra, borðaði óhreina fæðu, storkaði venjum. Hann gat allt, hefði getað sagt að breyttu breytanda: “ Það er bara fyrir löggur og kellingar” en hann, hann mátti allt.

Þangað til allt í einu. Guð var ekki lengur með í för.

Sagan er ekki búin.

Bestu kveðjur,  Dalla Þórðardóttir

By |17 apríl 2016 21:57|Dagleg trú|