Maímessa í Garðakirkju

Maímessa Kvennakirkjunnar verður í Garðakirkju 14, maí klukkan 20.Edda Björgvinsdóttir predikar,   Rannveig Guðmundsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir tala og Guðrún Ásmundsdóttir les ljóð.  Kristín Stefánsdóttir syngur einsöng.  Aðalheiður Þorsteinsdóttir og séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir sjá um messuna með kór Kvennakirkjunnar.   Þetta verður yndisleg messa og alveg sérstaklega ef þú kemur.

By |4 maí 2017 12:54|Fréttir|

Gleðilega páska !

Hugsýki beygir fólk en vingjarnlegt orð gleður það.   Þetta stendur í Orðskviðunum 12.25.   Ég held það sé svo prýðilegt fyrir okkur að hugsa um það á þessum gleðidögum sem kirkjan kallar dagana eftir páska.  Auðvitað á það við alla daga ársins og það er einmitt vegna hugsýki sumra daga sem getur mætt hverri manneskju sem það er undursamlegt að heyra um gleðina.

Gleðjumst og gleðjumst vegna þess að páskarnir færa okkur gleði á hverjum einasta degi, líka þeim sem eru allt annað en gleðilegir heldur dagar sorgar eða annars sem beygir okkur.  Á þeim dögum reisir það okkur við að heyra vingjarnleg orð sem Guð segir sjálf við okkur og gefur öðrum til að gefa okkur

Páskarnir færa okkur örugga vissu um ást Guðs og styrk hennar og hjálp og nærveru allra daga.  Hún sem skapaði allt og heldur alltaf áfram að skapa kom og varð manneskja eins og við.  Hún var Jesús.  Hann sem lifði daga sína við sömu kjör og við, í gleði og mótlæti eins og við,  og gekk alla leið inn í dauðann  eins og við gerum.

Nema hann gekk lengra.  Hann gekk þangað sem við hefðum ekki komist ef hann hefði ekki farið þangað.  Hann sigraði dauðann. Hann reis upp til nýs lífs.  Og hann gefur okkur það nýja líf sem hann vann til að færa okkur öllum.

Syngjum um það á hverjum einasta degi.  Syngjum sálm á dag. Jesús er upprisinn.  Hann lifir. Hann er hjá okkur.  Svo að gleðin er alltaf nærri, líka þegar við erum beygðar.  Og við megum treysta því að við rísum alltaf alltaf upp til nýrrar gleði.

Blíðar kveðjur og gleðilega daga.  Auður

By |18 apríl 2017 21:09|Dagleg trú|

Guðþjónusta í Neskirkju við Hagatorg

Guðþjónusta Kvennakirkjunna nú í apríl verður í Neskirkju, sunnudaginn 23. apríl kl. 20. Prestarnir séra Dalla Þórðardóttir og séra Yrsa Þórðardóttir predika.

Ragnheiður Ragnarsdóttir syngur eigið lag og Elín Þöll Þórðardóttir og Yrsa Þórðardóttir syngja

Séra Arndís og séra Auður, Aðalheiður  Þorsteinsdóttir og kór Kvennakirkjunnar og öll sem koma sjá um messuhaldið

Þær sem sjá sér fært að koma með meðlæti  fá alúðarþakkir.

Sjáumst í Neskirkju !

By |18 apríl 2017 21:05|Fréttir|

Loforð Guðs

Í Kvennakirkjunni tölum við  um kvíðann og þann undursamlega sannleika að Guð læknar kvíða okkar.  Við skulum heyra loforð Guðs:

Guð sagði aftur og aftur við fólkið sitt að það skyldi alltaf rifja það upp fyrir sér hvernig hún hjálpaði því.  Fyrst og fremst skyldu þau minnast þess hvernig hún frelsaði þau þegar þau voru þrælar í Egyptalandi.  Þá leiddi ég ykkur yfir hafið og gegnum eyðimörkina.  Ég fór á undan ykkur á kvöldin eins og ljós til  að finna ykkur næturstað og ég gekk á eftir ykkur á daginn eins og ský svo að óvinirnir sem eltu ykkur sæju ykkur ekki.

Eins og Guð frelsaði fólkið sitt úr þrældómi í Gamla testamentinu með því að standa á milli þeirra og óvinanna segir í Nýja testamentið hvernig hún kom í Jesú til að frelsa okkur frá okkar eigin hugsunum sem elta okkur.  Hugsunum eins og kvíðanum.

Jesús kom og sagði við okkur:  Komið til mín með þungar hugsanir ykkar og ég gef ykkur frið í hjarta ykkar.  Ég gef ykkur minn frið en ekki það sem heimurinn kallar frið og er engnn friður.  Ég frelsa þig.  Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af  því hvernig þú getur gert þetta.  Þú þarft ekkert að gera.  Þú skalt bara vera í mér eins og greinin er á tréinu.  Vertu í mér og þá finnurðu frið.

Guð blessar okkur orðið sitt.  Amen.

By |11 mars 2017 14:06|Dagleg trú|

Guðþjónusta í Laugarneskirkju

Á næsta sunnudag, 12. mars kl. 20 verður Guðþjónusta Kvennakirkjunnar  í Laugarneskirkju . Séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir predikar og Hálfdan Árni Jónsson les ritningarlestur. Þorsteinn Jónsson leikur á gítar og Hugrún Elfa Sigurðardóttir á flautu

Við syngjum með  Aðalheiði Þorsteinsdóttur og kór Kvennakirkjunnar

Kaffi á eftir og þær sem sjá sér fært að koma með meðlæti fá alúðarþakkir

 

 

By |9 mars 2017 13:11|Fréttir|

Hvaða siðbót ættum við að gera ?

Nú er siðbótarárið mikla, 500 ár síðan Lúter kom fram með stórkostlega siðbót sína.  Hann sagði að við skyldum ekki treysta siðum og hefðum heldur trúnni.  Það breytti kirkjunni og gaf hverri einustu manneskju sem það vildi þiggja sannfæringu um að hún ætti frið og uppörvun Guðs.  Guð myndi styðja hana til að nota trú sína í öllu daglegu lífi sínu.

Síðan eru 500 ár.  Hvað segjum við núna?  Við skulum  tala saman um það.  Ég hef sagt að ég held að það séekki sem verst fyrir okkur að halda áfram eins og við  höfum gert.  Standa staðfastar í trú okkar og gleðjast yfir henni og nota hana í öllum dögum okkar.  Við skulumhalda áfram að tala saman og efla trú okkar, dýpka hana og víkka og gera okkur betur og betur grein fyrir þvi hvað hún er.  Við skulum dýpka guðfræði okkar og við skulum vinna þau verk sem við getum í trúnni.

Eða hvað finnst þér?

Ég held að þetta sé svo gagnlegt.  Af því að ég er handviss um að það hefur mikil áhrif.  Við berum allar með okkur trausta og glaðlega trú okkar út í daglegt lífið og höfum áhrif í kringum okkur.  Og það gera aðrir hópar líka.  Svo í sameiningu breytum við heiminum.  Og það held ég nú að  sé áframhaldandi siðbót.

Blíðar kveðjur, Auður Eir.

 

 

By |8 febrúar 2017 10:36|Dagleg trú|

Afmælisguðþjónusta Kvennakirkjunnar

Afmælisguðþjónusta Kvennakirkjunnar verður í Neskirkju sunnudaginn 12. febrúar kl. 20:00. Sr. Arndís G. Bernhardsdóttir Linn prédikar. Aðalheiður Þorsteinsdóttir stjórnar sálmasöng okkar. Anna Guðmundsdóttir annast kaffið. Þær sem sjá sér fært að færa góðgerðir

By |7 febrúar 2017 21:35|Fréttir|

Námskeið Kvennakirkjunnar halda áfram

Námskeið Kvennakirkjunnar halda áfram á mánudögum eins og fyrir jólin. Næst hittumst við 30. janúar kl. 16:30 til 18 í Þingholtsstrætinu og ræðum um jólabækur. Allar velkomnar.

By |28 janúar 2017 23:31|Fréttir|

Samverustund Kristín Gunnlaugsdóttir myndlistarkona

Mánudaginn 23. janúar hitta kvennakirkjukonur Kristínu Gunnlaugsdóttur myndlistarkonu í Neskirkju klukkan 4.30.  Hún ætlar að fjalla um verk sín sem eru nú til sýnis í kirkjunni.  Þessi góða samverustund verður á vegum Örþingsnefndar Þjóðkirkjunnar, Félags prestvígðra kvenna og Kvennakirkjunnar.  Þetta verður gaman og komið nú allar sem mögulega getið.  Það margborgar sig og er fínt tækifæri.

By |19 janúar 2017 15:04|Fréttir|

Fyrsta guðþjónusta Kvennakirkju haldin í Hallgrímskirkju

Fyrsta guðþjónusta Kvennakirkjunnar á nýju ári er í Hallgrímskirkju, sunnudaginn 15. janúar kl. 20:00.Við göngum ekki inn um aðaldyrnar heldur bakatil um suðurdyr sem  snúa að Eiríksgötu

Þetta verður messa við kaffiborð og við tökum upp á ýmsu og verðum allar með eins og okkur sýnist

Auður predikar og Aðalheiður stjórnar söngnum með pompi og prakt. Þær sem sjá sér fært að koma með meðlæti verða sérlega heiðraðar

GLEÐILEGT ÁR OG TAKK FYRIN HITT ÁRIÐ

By |11 janúar 2017 21:45|Fréttir|