Námskeið til jóla

Við ætlum að tala um kvennaguðfræði.
Við förum yfir kvennaguðfræðina sem við þekkjum og fáum gesti til að spjalla við okkur um þeirra sýn
Eins og alltaf drögum við fleira inn í námskeiðið. Í fyrsta tímanum, mánudaginn 30. september
kemur séra Guðbjörg Jóhannesdóttir í Langholtskirkju. Seinna koma séra Guðrún Karlsdóttir í Grafarvogi og séra Dalla Þórðardóttir í Skagafirði og það koma fleiri.

Námskeiðin eru á mánudöugm frá klukkan hálf fimm til sex í Þingholtsstræti 17.
KOMUM ALLAR SEM GETUM

By |24 september 2019 19:57|Fréttir|

Blíðir dagar haustsins

Guð, þú hefur verið okkur athvarf frá kyni til kyns.
Líka frá ári til árs og mánuði og viku, degi til dags
og klukkutíma og mínútu til mínútu.  Alltaf.

Við sögðum í mánudagssamtali í Þingholtsstræti
að yfirskrift trúar okkar væri traust.  Við treystum.
Við hugsum ekki um Guð allan daginn en við vitum að
hún er alltaf hjá okkur í öllu sem við gerum.  Við
tölum við hana þegar við vöknum og þegar við keyrum
um á daginn og á kvöldin þegar við komum heim. Við
þökkum hennni fyrir að hafa verið með okkur allan
daginn.

Guð er með okkur í þessum mildu haustdögum og
hún var hjá okkur í ótrúlegum sólardögunum.  Í
stóru og smáu.  Séra Kristín Pálsdóttir sagði í
morgunbæninni á mánudaginn að við fyndum það
stóra í því smáa.  Við finnum mikla návist Guðs
í smáum atburðum og augnablikum daganna.

Til hamingju með það.  Til hamingju með þig
sjálfa og vináttu þína og Guðs.

Biðjum hver fyrir annarri.

Blíðar kveðjur,  Auður

By |24 september 2019 19:52|Dagleg trú|

Fyrirhuguð messa í Öskjuhlíð fellur niður

Í ljósi viðvarana frá veðurfræðingum sem spá gulri viðvörun, grenjandi rigningu og roki  á sunnudag verður fyrirhuguð messa í Öskjuhlíð felld niður.

By |23 ágúst 2019 20:56|Fréttir|

Nú byrjum við

Gleðilegt haust.  Það er rétt að koma segir fólk.  En enn er sumar.
Dag eftir dag er góða veðrið sem við vöknum til og sofnum frá.
Við þökkum Guði hvern dag.  Og njótum daganna.  Við byrjum
messurnar okkar og höldum svo áfram.  Eins og við höldum
áfram með gleðina frá góða sumrinu sem var eins og öll sumur
voru þegar við vorum litlar og lékum okkur alla daga.  Leikum
okkur líka núna eins og við getum, mitt í ábyrgð okkar og alls
sem við þurfum að gera.  Ef við leikum okkur líka verður öll
vinnan svo miklu betri.  Gleðjum yfir trú okkar á Guð vinkonu
okkar.    Hún brallar svo.

Blíðar kveðjur,  Auður

By |22 ágúst 2019 21:02|Dagleg trú|

Fyrsta messa Kvennakirkjunnar

Sunnudaginn 25. ágúst klukkan fimm, klukkan 17 höfum við fyrstu messuna okkar í byrjun haustsins.  Við hittumst fyrir framan Perluna og fáum okkur gönguferð um Öskjuhlíðina og stoppum við og við til að syngja og biðja og lesa saman úr Biblíunni og höfum  ofurlitla hugleiðingu einhvers staðar.  Svo förum við í kaffi í Perluna og tölum saman.  Verum allar innilega velkomnar.

By |22 ágúst 2019 20:41|Fréttir|

Messa Kvennakirkjunnar á Kvennadaginn 19. júní

Þann 19. júní verðu messa Kvennakirkjunnar við Kjarvalsstaði klukkan 20. Það verður Söngmessa með Aðalheiði Þorsteinsdóttur og Önnu Sigríði Helgadóttur og prédikun séra Auðar Eir Vilhjálmsdóttur. Verið öll hjartanlega velkomin!

By |11 júní 2019 22:22|Fréttir|

Kveðjur eftir páska

Það er innileg ósk okkar að við höfum allar átt gleðilega páska og fundið nálægð Guðs í hjarta okkar.  Við skulum biðja hver fyrir annarri og vita að það er beðið fyrir okkur.

Við höfum fylgst með páskadögunum öllum, öllu sem Jesús og vinkonur hans og vinir gengu í gegnum á leiðinni til Jerúsalem þegar Jesús sagði þeim að hann myndi deyja.  Við lásum um
hugarró hans á dögunum í Jerúsalem þegar hann hélt áfram predikun sinni þótt hann vissi hvað var í vændum.  Við lásum um samveruna við síðustu kvöldmáltíðina, handtökuna, dómsmeðferðina hjá Gyðingum og Rómverjum og krossfestinguna. Og upprisuna á páskamorgun þegar Jesús hitti konurnar  við gröfina og sagði þeim fagnaðarerindið sem breytti öllu í huga og lífi hópsins hans og svo allra þeirra sem áttu eftir að heyra og lifa upprisuna í eigin lífi.

Við höfum allar fundið gleði kristinnar trúar og finnum hana í hverjum degi okkar, þeim sem eru glaðlegir og þeim sem eru erfiðir og geta verið óskiljanlegir.  Guð blessar okkur eins og alltaf og talar við okkur í Orðinu og lífinu.  Guð blessar þig og allt sem þú felur henni.  Hún blessar okkur allar saman og styður okkur í predikun okkar.

Blíðar kveðjur,  Auður

By |23 apríl 2019 8:21|Dagleg trú|

Biblíulestur Kvennaguðfræðinnar

Allt starf okkar í Kvennakirkjunni er byggt á kvennaguðfræðinni sem við höfum lesið saman öll okkar ár og fjallað um á margvíslegan hátt.
Kvennaguðfræðin var umfangsmikil og áhrifarík á tveimur síðustu öldum og alltaf hluti af allri kvennahreyfingunni.   Kvennahreyfingin barðist fyrir rétti, sjálfstæði og sjálfsmynd kvenna og gegn kúguninni sem konur þoldu um allar aldir.

Kúgunin var rakin til Biblíunnar og kvennaguðfræðin rannsakaði málið.  Það var augljóst að ásökunin var rétt og konur sögðu sig úr kirkjunni.

Það var líka augljóst að kvenfyrirlitning Biblíunnar kom aldrei nokkurn tíma frá Guði heldur frá þeim tímum þegar Biblían var skrifuð.  Kvennaguðfræðingar kirkjunnar skrifuðu mikla guðfræði um eilifa samstöðu Guðs sem konum í þjáningu þeirra og órétti sem birtist í Biblíunni á öllum öldum.  Þær sáu og skrifuðu um frelsun Guðs.  Kirkjan hefur alltaf safnað fólki sínu saman til
biblíulestra til að styrkjast og fagna.

By |20 apríl 2019 12:19|Dagleg trú|

Guðþjónusta Kvennakirkjunnar 28. apríl kl. 20

Guðþjónusta Kvennakirkjunnar verður að þessu sinni í stofum okkar í Þingholtsstræti 17, 28. apríl kl. 20.  Séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir predikar. Aðalheiður Þorsteinsdóttir stjórnar söng okkar
og við höldum messuna allar saman.
Þær sem sjá sér fært að færa kaffibrauð fá alúðarþakkir

By |20 apríl 2019 12:08|Fréttir|

Námskeið um Kvíðann

Á mánudaginn kemur, 25. mars byrjum við námskeið um kvíðann, þessa yfirþyrmandi ógn aldarinnar.  Við mætum henni núna með samtali um fyrirgefninguna.  Við lesum fyrst bók prestanna í Suður Afríku Mpho og Desmond Tutu en hann var biskup þar.  Svo bröllum við fleira.

Námskeiðið er í stofum okkar á jarðhæð í Þingholtsstræti 17 og hefst klukkan hálf fimm og stendur til sex.  Það verður yndislegt og ókeypis og með kaffi.   Komdu endilega ef þig langar og kemst.

By |24 mars 2019 3:01|Fréttir|