Það er tíska að tala illa um kirkjuna og kristna trú
Það er tíska þessi árin hér á landi að tortryggja samband ríkis og kirkju. Ennfremur heyrist sú mótbára að það eigi ekki lengur við ef mikill hluti og jafnvel meiri hluti þjóðar sé annarrar trúar en kristinnar. En þetta samband er byggt á vilja kirkjunnar og ríkisvaldsins til þess að heiðra það samband sem lengi hefur verið á milli þessara aðila. Helstu grunnstoðir íslensks þjóðfélags eru byggðar á kristinni skoðun. Skólaskylda og almenn lestrarkennsla er byggð á hugmyndum endurreisnarmanna og siðbótarinnar, velferðarkerfið á skilningi kristinna manna á því að hvert mannsbarn er systkin okkar.
Förum ekki of geyst svo að við missum ekki það sem við eigum. Fyrir nokkrum árum, það var árið 2003, hitti ég mann á götu í Montréal í Kanada. Hann var prófessor í sögu við háskóla þar. Hann sagði við mig: „Haldið í þjóðkirkjuna ykkar og þessi sterku tengsl sem þið hafið við ríkið. Ríkið þarf á því að halda. Þar sem skorið hefur verið á þessi bönd, er fólk farið að fá bakþanka.“ Ég er sammála honum.
Bestu kveðjur, Dalla Þórðardóttir