About Arndis

This author has not yet filled in any details.
So far has created 454 blog entries.

Það er tíska að tala illa um kirkjuna og kristna trú

Það er tíska þessi árin hér á landi að tortryggja samband ríkis og kirkju.  Ennfremur heyrist sú mótbára að það eigi ekki lengur við ef mikill hluti og jafnvel meiri hluti þjóðar sé annarrar trúar en kristinnar.  En þetta samband er byggt á vilja kirkjunnar og ríkisvaldsins til þess að heiðra það samband sem lengi hefur verið á milli þessara aðila.  Helstu grunnstoðir íslensks þjóðfélags eru byggðar á kristinni skoðun.  Skólaskylda og almenn lestrarkennsla er byggð á hugmyndum endurreisnarmanna og siðbótarinnar, velferðarkerfið á skilningi kristinna manna á því að hvert mannsbarn er systkin okkar.

Förum ekki of geyst svo að við missum ekki það sem við eigum.  Fyrir nokkrum árum, það var árið 2003, hitti ég mann á götu í Montréal í Kanada.  Hann var prófessor í sögu við háskóla þar.  Hann sagði við mig:  „Haldið í þjóðkirkjuna ykkar og þessi sterku tengsl sem þið hafið við ríkið.  Ríkið þarf á því að halda.  Þar sem skorið hefur verið á þessi bönd, er fólk farið að fá bakþanka.“ Ég er sammála honum.

Bestu kveðjur, Dalla Þórðardóttir

By |22 janúar 2015 15:21|Dagleg trú|

Er hægt að hafa þjóðkirkju og trúfrelsi?

Já, segir Pétur Kr. Hafstein fyrrum forseti kirkjuráðs og fyrrverandi hæstaréttardómari.   Hér var kristni og kirkja nánast frá upphafi Íslandsbyggðar og siðbreyting um miðja 16. öld kollvarpaði ekki þeim grunni sem kristinn dómur í landinu byggðist á.  Í stjórnarskránni 1874 sagði í fyrsta sinn í lögum að hin evangeliska lúterska kirkja skyldi vera þjóðkirkja Íslands.  Landsmenn fengu nú rétt til að stofna félög til að þjóna Guði eftir sannfæringu hvers og eins og ríkisvaldið átti hins vegar að styðja og vernda þjóðkirkjuna.  Þjóðkirkjan er ekki ríkiskirkja heldur stjálfstæð stofnun sem hefur réttindi og skyldur að lögum, skrifar Pétur Kr. Hafstein.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |19 janúar 2015 15:20|Dagleg trú|

Stöndum vörð um trúfrelsið

Við búum í landi sem hefur opinbera kristna trú og þjóðkirkju sem boðar hana.  Í 62. grein stjórnarskrár okkar er sagt að þjóðkirkjan njóti meiri stuðnings og beri meiri skyldur en önnur trúfélög sem starfa í landinu.   Í Mannréttindasáttmála Evrópu, 9. grein, segir að hver manneskja eigi rétt á að rækja trú sína eða sannfæringu.  Fer það saman að þjóðkirkjan hafi þá meiri stuðning og skyldur en önnur trúfélög?   Já.  Það fer ekki gegn trúfrelsi að ríki hafi opinbera trú segir í áliti Mannréttindanefndar Evrópu.

Blíðar kveðjur, Auður Eir

By |15 janúar 2015 15:18|Dagleg trú|

Rithöfundar koma

Mánudagsnámskeiðin hjá okkur í Kvennakirkjunni byjar aftur þegar við fáum rithöfunda til okkar á mánudögum  í Þingholtsstræti 17,  frá kl. 20 til 21.30. 
Mánudagskvöldið 19.janúar  kemur Kristín Steinsdóttir og talar um bókina Vonarlandið. Bókin er um þvottakonurnar sem þvoðu í Þvottalaugunum og vináttu þeirra hver við aðra.Mánudagskvöldið 26.  janúar tölum við um leikritið Dúkkuheimilið eftir Henrik Ibsen sem við sjáum saman í Borgarleikhúsinu fimmtudaginn 22. janúar. Unnur Ösp Stefánsdóttir sem leikur Nóru kemur til okkar og ræðir við okkur. Þau sem vilja koma með verða að staðfesta  í síðasta lagi 18. janúar  í síma 551 3934 eða 864 2534.Mánudagskvöldið 2. febrúar kemur Guðrún Eva Mínervudóttir og talar um bók sína Englaryk.  Bókin fjallar um unga stúlku sem segist hafa séð Jesú og um vandræðaganginn sem það veldur umhverfi hennar. Mándudagskvöldið 9. febrúar kemur Helga Guðrún Johnsson og talar um bók sína Saga þeirra,  sagan mín sem segir sögu kvenna þriggja kynslóða fram til þessa dags.

By |13 janúar 2015 13:21|Fréttir|

Komum saman í Langholtskirkju

Fyrsta guðþjónusta Kvennakirkjunnar á þessu ári  verður í Langholtskirkju, sunnudaginn 18. janúar kl. 14. Séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir predikar. Ásta Kr. Jónsdóttir segir frá trú sinnni. Olga Lilja Bjarnadóttir syngur. Aðalheiður Þorsteinsdóttir leiðir sönginn með kór Kvennakirkjunnar.  Kaffi í safnaðarheimilinu.  Þuríður Magnúsdóttir er kaffimóðir. Þær sem sjá sér fært að færa meðlæti fá alúðarþakkir.

By |12 janúar 2015 22:38|Fréttir|

Börnin sem fara í kirkjuna á skólatíma

Við höldum  áfram að ræða um rétt eða bann við kirkjustundum með börnum á skólatíma.  Í Morgunblaðinu 16. desember síðast liðinn er Fréttaskýring Önnu Lilju Þórhallsdóttur.

° Þar segir að allur gangur sé á því hvort sveitarfélög hafi reglur um kirkjuferðir barna á skólatíma.  ° Lítið er um athugasemdir frá foreldrum um þetta til sveitarfélaga, skóla eða landssamtaka foreldra um samstarf heimila og skóla.

° Skóli í  Reykjavík sendi foreldrum tölvupóst um að óskað væri eftir því við prestinn að ekki skyldi tala um trú.

° Sigurlás Þorleifssona skólastjóri í Vestmannaeyjum sagði að kirkjuferðin væri hugsuð sem sögustund.

° Halldór Halldórsson, oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins segir að kirkjuheimsóknir á skólatíma stangist ekki á við reglur Mannréttindaráðs um samskipti skóla og trúfélaga.  Þar er sagt að það eigi að virða fornar hefðir.  Það á ekki að takmarka frelsi allra barna þótt foreldrar sumra barna vilji ekki að þau fari í kirkju.  Foreldrar geti sagt til ef þau vilja ekki að barnið fari í kirkju.

°  Í skólum í Garðabæ,  Kópavogi og á Seltjarnarnesi er börnunum sem fara ekki í kirkju boðið upp á aðra samveru.

° Danska menntamálaráðuneytið telur það í fullu samræmi við dönsk grunnskólalög að jólahefðir séu hluti af skólastarfi.

° Norska menntamálaráðuneytið segir að ef skólar vilja fara með nemendur í kirkju á skólatíma þurfi samráð foreldra og börn skuli skrá sig til kirkjuferðarinnar.

Hvað segir þú?

Blíðar kveðjur, Auður Eir

By |12 janúar 2015 15:17|Dagleg trú|

Kristin trú er menningararfleið

Það er semsagt sagt í 29. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að menntun barna skuli beinast að því að móta með barninu virðingu fyrir menningarlegri arfleifð þess og þjóðernislegum gildum þess lands sem það býr í.  Ef barnið er frá öðru landi á það  líka að fá að mótast til virðingar fyrir menningararfleifð þess lands.  Og börn eiga að fá að kynnast menningarháttum sem eru frábrugðnir menningu þess sjálfs.

Kristin trú er menningararfleifð á Íslandi.  Börnin eiga að fá að læra um þessa arfleifð, þau eiga að fá að læra um kristna trú.  Börn sem koma annars staðar að fá tækifæri til að kynnast kristinni trú.  Þau eiga rétt á að njóta sinna arfleifða.  Og það á að kenna öllum börnum víðsýni.

Ef þið viljið skoða þetta þá má finna bókina Alþjóðlega mannréttindasáttmála sem Málflutningsskrifstofa gaf út 1992.  Þar er kaflinn Samningur um réttindi barna, Samþykkt Alsherjarþings Sameinuðu þjóðanna frá 1989, fullgilt fyrir hönd Íslands 1992.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |8 janúar 2015 15:16|Dagleg trú|

Þjóðkirkjan og trúfrelsið

Á aðventunni var enn einu sinni rætt um samstarf kirkju og skóla.  Umræðan á rætur sínar í reglum sem Mannréttindaráð Reykjavíkur setti um samskipti leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila borgarinnar annars vegar og trúar og lífsskoðunarfélaga hins vegar.   Í þessum reglum er sagt að trúar og lífsskoðunarfélög skuli ekki stunda starfsemi sína innan veggja skólanna á skólatíma eða á starfstíma frístundaheimilanna.   Talið er að þetta byggist á trúfrelsi barna og foreldra þeirra og minnt á barnasáttmála.

En það er nú svo að í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir i 29. grein að menntun barna skuli beinast að því að móta með barninu virðingu fyrir menningarlegri arfleifð þess og þjóðernislegum gildum þess lands sem það býr í og þess lands sem það kann að vera upprunnið frá og fyrir öðrum menningarháttum sem eru frábrugðnir menningu þess sjálfs.

Hvað segirðu um þetta?

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |6 janúar 2015 15:14|Dagleg trú|

Komum saman og mótum starf Kvennakirkjunnar

Þá er kominn tími til að Kvennakirkjukonur komi saman og móti starfið næstu mánuðina. Í þeim tilgangi verður opin stýrihópsfundur í sölum Kvennakirkjunnar að Þingholtsstræti 17, fimmtudaginn 8. janúar kl. 16:30. Allar Kvennakirkjukonur er boðnar sérlega velkomnar að taka þátt í að móta starfið framundan.

By |6 janúar 2015 13:24|Fréttir|

Gleðilegt ár !

Gleðilegt nýtt ár.  Guð gefur þér það sem þér þykir þig skorta og bætir við það sem þú átt.  Hún dýpkar og víkkar traust okkar á undursamlega kristna trú okkar. Hún elskar okkur og treystir á okkur í baráttunni við að bæta veröldina.  Það er mikill heiður og gleði eins og  við höfum margreynt.

Við ætlum nú á nýju ári að beita okkur að ýmsu eins og fyrri árin.  Við ætlum að bjóða rithöfundum.  Við ætlum  að halda áfram að gera okkur grein fyrir því hvað fólk er að hugsa um kristna trú í þjóðfélaginu núna.  Við ætlum líka að gá að hvað við getum gert til að mæta kvíðanum. Og við ætlum að gá að nýjum orðum í guðfræði okkar.  Við þurfum að hugsa nýjar hugsanir og það gefur okkur enn sem fyrr gullin tækifæri til að hjálpast að við að komast að niðurstöðum.  Þess vegna sendi ég til að byrja með pistla með hugmyndum um fyrsta verkefnið:   Hvar er trúin núna?

Blíðar kveðjur, Auður Eir

By |2 janúar 2015 15:14|Dagleg trú|