About Arndis

This author has not yet filled in any details.
So far has created 454 blog entries.

Jóhannesarguðspjall

Jóhannes 1.  19 – 34

Sjá, Guðs lamb, sem ber synd heimsins.

Jóhannes skírari var ekki Jóhannes sem skrifaði guðspjallið.  Jóhannes skírari undirbjó komu Jesú og yfirmenn þjóðfélagsins töldu að hann væri kannski sá sem sagðist vera sendur af Guði en þeir vildu ekkert heyra um slíka óhæfu.  Jóhannes skírði fólk í Jórdan og bað það að breyta um hugarfar.  Jesús kom til að skírast eins og hin þótt hann þyrfti ekki að skipta um hugarfar.  Ég þekkti hann ekki þegar hann kom, sagði Jóhannes, en Guð sagði mér hver væri kominn.  Hann ber synd heimsins, sagði Jóhannes.  Og það átti eftir að koma í ljós og verða meginboðskapur kristinnar trúar.

Jóhannesarguðspjall mun smátt og smátt birtast hér (smellið á hér)

By |9 febrúar 2015 16:13|Dagleg trú|

Það er margt sem ég segi við Guð á morgnana

Trúin er mér mjög dýrmæt og hún er hluti af mínum hversdegi.  Það er margt sem ég segi Guði sérstaklega á morgnana.  Þá stend ég við stofugluggann minn og tala við Guð.  Kannski liggur ekki vel á mér og þá bið ég Guð að hjálpa mér að láta það ekki bitna á þeim sem ég mæti.  Stundum liggur vel á mér og þá get ég þakkað Guði fyrir gleðina og bið um hjálp til að sýna öðrum hana.  Guð er alltaf til staðar sama hvað klukkan er og sama hvaða dagur er.  Stundum er það lítilfjörlegt sem þig langar að segja og Guð hlustar alltaf.  Svo geta komið risamál en ekkert er of stórt fyrir Guð.  Það eru ekki mjög mörg ár síðan ég lærði að segja:  „ Ég ræð ekki við þetta viltu hjálpa mér.  Ég afhendi þér það.“

Bestu kveðjur,  Ásta Kr. Jónsdóttir

By |8 febrúar 2015 16:10|Dagleg trú|

Morgunstund með Guði

Það er ýmislegt sem við getum gert til að styrkja og glæða heilsu okkar eins og við hugsum sem betur fer svo mikið um núna.  Ég er viss um að það allra besta til þess er að eiga morgunstund með Guði, henni sjálfri sem á alla veröldina og okkur og heldur svo mikið upp á okkur og sækist eftir hjálp okkar.  Í morgunstundunum tölum við bara saman, segjum henni það sem við viljum og hlustum á hana.  Við syngjum þetta svona í upphafi í guðþjónustunum okkar og Bára Grímsdóttir gaf okkur lag til að syngja við orðin.  Guð er auðvitað til viðtals á öllum tímum.

Við komun Guð til þín,

til að segja þér allt sem í hjartanu býr,

frá áhyggjum, sorg og gleðinni djúpu

og hlusta á þig svara, Guð.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |6 febrúar 2015 16:08|Dagleg trú|

Jóhannesarguðspjall

Jóhannes 1.  5 – 18

Hann var í heiminum, og heimurinn var til orðinn fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki.

Það eru alls ekki aðlaðandi skilaboð að heimurinn vildi ekki sjá hann.  En þau eru sannleikurinn sem við þekkjum auðvitað úr okkar eigin samtíð.  Það verður alltaf gáta hvers vegna sumt fólk fyrr og síðar þiggur tilboðið um að trúa því að Guð hafi komið í Jesú en önnur kæra sig ekki um það og segja sum að Guð sé ekkert frekar í kristinni trú en annarri.  En lausnin er gefin aftur og aftur í guðspjallinu:  Við sjáum hver Jesús er þegar við komum til hans og fylgjum honum.  Við sjáum það ekki annars staðar.  Hjá okkur þar sem kristin trú hefur verið boðuð um aldir  er öllum boðið að koma og slást í hópinn sem stendur vörð um trúna á Guð sem kom í Jesú.

Jóhannesarguðspjall mun smátt og smátt birtast hér (smellið á hér)

By |5 febrúar 2015 16:09|Dagleg trú|

Áhrif Jesú hafa orðið meiri en nokkurs annars

Fyrir u.þ.b. 2000 árum yfirgaf  trésmiður í Nazaret iðju sína og gekk sem farandpredikari milli nokkurra þorpa á bökkum Genesaretvatns. Áhrif hans á líf manna á jörðinni hafa orðið meiri en nokkurs annars. Á kenningum hans byggja fjölmennustu trúarbrögð mannkynsins, um 2 milljarðar manna játa kristna trú. Heimildum ber ekki saman um hversu lengi hann prédikaði.  Hann prédikaði  í innan við 3 ár,  e.t.v aðeins eitt ár. Ekkert er til eftir hann ritað. Áhrif  hans á veraldarsöguna eru slík að við miðum tímatal okkar við fæðingu hans. Við skiptum tímatali okkar í tímabilin fyrir fæðingu hans og eftir hana. Hann talaði tungumál sem fáir skildu, arameisku. Engir fjölmiðlar, dagblöð, útvarp eða sjónvarp breiddu út kenningu hans. Eigi að síður barst hún yfir þröskulda tungumála, landamæra og menningarheima og breiddist út um stóran hluta heimsins.

Úr bæklingi Guðmundar G. Þórarinssonar verkfræðings:

HVER VAR JESÚS Í RAUN OG VERU OG HVERT VAR ERINDI HANS?

By |4 febrúar 2015 15:57|Dagleg trú|

Jóhannesarguðspjall

Jóhannes 1.  1 – 4

Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð.  Hann var í upphafi hjá Guði.  Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans var ekki neitt, sem til er.  Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna.

Þetta eru skilaboðin til okkar um Guð sem kom til okkar og varð manneskja eins og við.  Hún varð Jesús.  Jesús var alltaf til eins og Guð var alltaf til.  Eins og Guð er líf okkar er Jesús líf okkar og ljós okkar.  Þetta sjáum við aðeins með augum kristinnar trúar.  Það er gjöf Guðs sem við megum taka á móti og njóta alla daga okkar.  Guð kom og varð manneskja eins og við.  Það er mesti viðburður heimssögunnar.

Jóhannesarguðspjall mun smátt og smátt birtast hér (smellið á hér)

By |3 febrúar 2015 15:54|Dagleg trú|

Það sem Hollande Frakklandsforseti sagði

“ Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þær í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það , sem ég hef boðið yður” Matteusarguðspjall, 28. 19-20.

Í kjölfar árásarinnar á tímaritið Charlie Hebdo í París heimsótti Hollande Frakklandsforseti hjálparsveitir hersins til að þakka þeim liðsinni.

Hann sagði efnislega eitthvað á þessa leið: “ Bæði hér heima og á erlendri grundu hafið þið unnið þrekvirki, með því að færa hungruðum fæðu, heimta slasaða úr hættum, stilla til friðar þar sem stríð geisar og leysa fanga úr haldi”.   Hann sagði að sveitirnar ynnu að því að flytja anda mannúðar og frelsis og jafnréttis hvar sem þar færu.

Síðan sagði hann: “ Ég þakka ykkur það starf sem þið leggið fram af hollustu við ríkið. Það er mikilvægt.  Og nú vil ég ennfremur bæta því við að hver einasti borgari, kona, karl og barn má vera opinber embættismaður, til að flytja anda mannúðar hvar sem þau eru. “

Lærisveinarnir ellefu fengu að fara til fundar við upprisinn frelsara og hann fól þeim mikilvægt erindi.

Við, hver og eitt, megum taka það til okkar. Við erum lærisveinar Guðs ríkis og embættismenn þess.

Við megum fara og kenna og segja frá og sýna hvers Guð er megnugur.

Hversu fagrir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans….

Með bestu kveðjum,  Dalla Þórðardóttir

By |2 febrúar 2015 18:59|Dagleg trú|

Við stöndum vörð um trú okkar

Ég er hugfangin af kanadíska þjóðsöngnum sem segir:  Ó. Kanada, ó, Kanada, við stöndum vörð um þig.   Þetta segjum við um kristna trú okkar: Við stöndum vörð um þig.  Í samtali við önnur trúarbrögð sem eru í minnihluta hérna sjáum við að þau standa vörð um sína trú.  Við gætum orðið svo kurteis meirihluti að við hættum  að standa vörðinn sem við eigum að standa um okkar trú.

Við þurfum að gera okkur grein fyrir því sem kann að gerast ef við hættum að standa vörðinn.  Þá verður kristin trú er ekki lengur boðuð alls staðar í landi okkar, í hverum bæ og sveit.   Þá verður tómarúm sem fyllist af einhverju öðru.  Við höfum ekki hugmynd um hvað það yrði.  Þá verðum við vegalaus.  Þá verða sjálfsögð gæðin sem við höldum að séu frá sjálfum okkur ekki lengur sjálfsögð.  Af því að þau nærast ekki af okkur heldur Jesú frelsara okkar.  Stöndum vörð.  Það er undursamlegt sameiginlegt verkefni okkar.  Kristin trú stendur vörð um okkur og vekur sífellt með okkur vináttu og réttlæti og allt sem við þurfum.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |29 janúar 2015 15:30|Dagleg trú|

Er boðskapur Krists hætturlegur?

Kolbrún Bergþórsdóttir varpar fram spurningunni í Morgunblaðinu 18. desember síðast liðinn.  Hún segir þar:  Heimsóknir grunnskólanema í kirkjur hafa orðið að deiluefni fyrir þessi jól. Eins og stundum áður.  Sem rök gegn þessum heimsóknum er sagt að skólinn eigi að vera hlutlaus stofnun og ekki hampa einum trúarbrögðum umfram önnur.  Þetta eru sérkennileg rök þegar haft er í huga að Íslendingar eru að miklum meirihluta kristnir.  Það er nánast eins og þessi staðreynd þyki svo óþægileg að skólabörn megi ekki vita af henni.  Hvað er eiginlega svo skammarlegt við kristindóminn að ekki megi fara með skólabörn í kirkju á skólatíma og minna þau þannig á af hverju jólin eru haldin?  Og af hverju er talið nánast hættulegt fyrir börn að prestur opni munninn í návist þeirra og nefni kristna trú á nafn?  „Trúarinnræting!“ gólar Mannréttindaráð borgarinnar, sem virðist vera býsna furðulegt apparat, segir Kolbrún Bergþórsdóttir.

Blíðar kveðjur, Auður Eir

By |29 janúar 2015 15:28|Dagleg trú|

Hagur ríkisin er sá að kirkjan er alls staðar

Hvaða hag hefur ríkið af tengslunum við þjóðkirkjuna sem Dalla talaði um í sinni kveðju?  Það er blessun fagnaðarerindisins.  Með þessum tengslum er það tryggt að fagnaðarerindið er boðað um allt landið, kirkjan starfar alls staðar, hún er alls staðar nálæg og allt fólk getur notið þjónustu hennar, hvort sem það tilheyrir henni eða ekki.  Kristin trú er uppspretta gæða daglegs lífs.  Uppsprettan er þar en ekki hjá sjálfum okkur.  En við fáum að njóta gæðanna og nota þau með Guði vinkonu okkar.  Við fáum þá blessun að verða öðrum blessun og þiggja blessun þeirra.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |26 janúar 2015 15:27|Dagleg trú|