About Arndis

This author has not yet filled in any details.
So far has created 454 blog entries.

Sannmenntaður maður ásakar hvorki aðra né sjálfan sig

Epiktet var heimspekingur í Litlu Asíu og fæddist um árið 50. Hann var leystur frá þrældómi og setti á fót skóla sem margir sóttu. Epiktet vildi snúa hug áheyrenda sinna að æðstu viðfangsefnum. Hann skrifaði ekki bækur en nemandi hans skrifaði orð hans hjá sér. Það er ekki víst að Epitket hafi skrifað til kvenna og því ósanngjarnt að snúa máli hans á mál beggja kynja.

Epiktet sagði að við skyldum gera okkur grein fyrir því að sumt væri á okkar valdi en annað alls ekki. Hann sagði það sem svo oft er endurtekið, ég veit ekki hvort hann var fyrstur til að segja það, að það sé ekki það sem gerist sem valdi okkur áhyggjum heldur viðhorf okkar til þess. Ef eitthvað raskar hugarró okkar eða hryggir okkur skulum við ekki kenna öðrum um það heldur rekja það til viðhorfa sjálfra okkar. Hann sagði að vanþroskaður maður þekkist á því að hann sakar aðra um það sem honum finnst fara miður. Hann sé nokkuð kominn á veg ef hann kennir sjálfum sér um. En sannmenntaður maður ásaki hvorki aðra né sjálfan sig.

Úr Handbók Epiktets, Hver er sinnar gæfu smiður í þýðingu dr. Brodda Jóhannessonar. Almenna bókafélagið hf. 1993.

By |19 febrúar 2015 12:45|Dagleg trú|

Ertu Charlie? Nýtt námskeið Kvennakirkjunnar

Næstu þrjú mánudagskvöld verður námskeið í Kvennakirkjunni undir yfirskriftinni, Ertu Charlie? Fyrstu tvö kvöldin kemur Lilja Hjartardóttir stjórnmálafræðingur til okkar og talar um tjáningarfrelsi og trúfrelsi. Hvert kvöld hefst kl. 20 og verður eins og venjulega í stofum Kvennakirkjunnar, Þingholtsstræti 17. Verum öll velkomin.

By |18 febrúar 2015 13:37|Fréttir|

Kvíðinn

Sigmund Freud sem var held ég bara að sé kallaður faðir sálfræðinnar sagði að tvenns konar hættur stöfuðu að okkur. Þær ytri sem við sjáum og eru eðlilegar og við getum varað okkur á, og þær innri sem spretta upp í huga okkar. Hvað finnst þér? Ég kalla þessar innri hættur lífsóttann, og talaði um hann í síðustu kveðju. Við spyrjum sömu spurninganna um lífsóttann og syndina, hvenær byrjuðum við að gera það sem við áttum ekki að gera og hvenær byrjuðum við að kvíða og óttast? Ég held þetta sé svona: Ýmislegt í lífinu ógnar okkur og við óttumst það. Og lífsóttinn sest að í okkur og ógnar okkur líka.   Hann hefur gert okkur öryggislausar og þess vegna hleypum við fleiri og fleiri ógnum inn til okkar. Eða hvað heldur þú? Ég held að það hafi verið þess vegna sem Guð kom sjálf og var Jesús. Hún kom af því að hún sá að hún varð að koma. Hún varð að hjálpa okkur. Og hún gerði það. Það höfum við allar séð aftur og aftur og enginn endir verður á því.

Blíðar kveðjur, Auður Eir

By |17 febrúar 2015 12:43|Dagleg trú|

Jóhannesarguðspjall

Jóhannes 2. 13 – 25

Jesús fer að mótmæla

Jesús færir sig frá heimasviðinu út í heimssviðið og efnir til mótmæla. Hann var kominn til að segja að hann væri frelsari allrar veraldar, Guð komin til fólksins síns. Það var undirstaða alls sem hann sagði og gerði. Hann sagði það stundum hreint út en stundum í gátum eins og í þessum kafla. Hvaða baráttuaðferðir sýnist þér hann hafa notað? Mér sýnist hann hafa boðað og verið nálægur, sýnt vinsemd og gert kraftaverk. Og andmælt yfirvöldunum, sjaldnast eins og hér er sagt en oftast með því sem hann sagði. Hann vissi að þau gátu ekki þolað það en hann varð að segja það. Brjótið musterið og ég reisi það aftur á þremur dögum, sagði hann og meinti upprisuna. Ekki skildu fyrirmennirnir orð í þessu og vinkonurnar og vinirnir skildu það ekki fyrr en han reis upp. Jesús barðist alltaf fyrir málum sínum og naut alltaf lífsins í þeirri miklu baráttu. Hugsaðu þér öll boðin sem hann var í og hélt sjálfur.

By |16 febrúar 2015 11:37|Dagleg trú|

Við getum ekki allt og það er allt í lagi

Mér finnst það samt ekki skynsamlegt og við kennum það ekki á námskeiðunum okkar í Kvennakirkjunni. Við kennum hver annarri að hvíla í því að við erum yndislegar manneskjur af því að við erum vinkonur Guðs. Og takmarkanir eru ekki sem verstar. Við erum allar takmarkaðar. Við erum takmarkaðar af lífsóttanum og við erum takmarkaðar við hæfileikana og tækifærin sem við eigum. … Takmarkanir okkar kenna okkur að gleðjast yfir því að geta unnið með þeim sem kunna það sem við kunnum ekki. Þær bjóða okkur að hasla okkur völl þar sem við kunnum að vinna og láta okkur líða vel þar. Þær bjóða okkur að treysta svo vel hæfileikunum sem við eigum að það valdi okkur engum vanda þótt annað fólk hafi hæfileika sem við höfum ekki.

Auður Eir Vilhjálmsdóttir: Gleði Guðs, Kvennakirkjan 2004

By |15 febrúar 2015 11:57|Dagleg trú|

Jóhannesarguðspjall

Jóhannes 2. 1 – 12

Fyrsta veisluþjónusta Jesú

Jesús var í brúðkaupi og breytti vatni í vín eins og mikið er vitnað til. Það var fyrsta kraftaverkið sem hann gerði. Han gerði það í hópi vina og fjölskyldu og fyrir hvatningu mömmu sinnar. Hún, húsfreyjan, vissi hvað það hefði verið erfitt fyrir brúðhjónin ef veitingarnar hefðu ekki verið nógar. Það gæti sýnst að Jesús hafi svarað mömmu sinni púkalega að ekki sé meira sagt. En það er útilokað. Hann hefur verið að segja: Mamma mín, ég veit þú veist hver ég er og vilt mér alltaf allt það besta. En viltu nokkuð vera að trana mér fram núna? Auðvitað fór hann að ráðum hennar og það var best. Ætli hann hafi ekki stundum hugsað til hennar seinna í öllum boðunum sem hann hélt sjálfur?

Jóhannesarguðspjall mun smátt og smátt birtast hér (smellið á hér)

By |13 febrúar 2015 11:32|Dagleg trú|

Nú skulum við tala um jafnvægið

 

Við höldum áfram að tala um blessun kristinnar trúar okkar og nú skulum við tala um jafnvægið. Þegar ég var lítil átti ég gullfallegan djúpan disk sem Rannveig sem passaði mig lét kaupa handa mér í Englandi.   Mér fannst hann mjög stór og með stórum börmum. Ég sé núna hvað hann var lítill en hvað barmarnir voru stórir og sléttir eins og mér fannst líka þá. Einu sinni var ég að ganga með diskinn fullan af kakósúpu út að eldhúsborðinu og þurfti ekki bara að halda fast um barmana heldur líka gæta að hverju skrefi svo kakósúpan skvettist ekki uppúr. Finnst þér ekki að það sé ýmislegt þessu líkt í dögunum?   Við þurfum að stíga varlega til að gæta að verkefnunum í höndum okkar. Við sjáum stundum seinna að þau voru ekki jafn stór og okkur fannst þá. Og alltaf megum við sjá að eins og ég komst slysalaust að eldúsborðinu komumst við oftast prýðilega gegnum dagana. Guð hjálpar okkur gegnum daginn og við þökkum henni af öllu hjarta.

Blíðar kveðjur, Auður

 

 

By |12 febrúar 2015 10:02|Dagleg trú|

Jóhannesarguðspjall

Jóhannes 1. 35 – 51

Fylg þú mér.

Jesús byrjaði að safna að sér hópi til að vinna með sér. Sum höfðu fengið undirbúning hjá Jóhannesi skírara sem sagði þeim hver Jesús var. Þau sögðu svo fleirum og Jesús bauð þau öll velkomin. Það er ekki strax sagt frá konunum sem hafa þó áreiðanlega komið líka. Sumar eru nafngreindar seinna. Það var ekki í tísku að segja frá konum. Þess vegna stendur ekkert um þær. En þær voru áreiðanlega í hópnum með mönnunum tólf sem einir eru nafngreindir vegna ríkjandi tísku sem guðspjallamennirnir áttuðu sig ekki á að breyta.

Jóhannesarguðspjall mun smátt og smátt birtast hér (smellið á hér)

By |11 febrúar 2015 11:47|Dagleg trú|

Vonarlandið

Eitt mánudagskvöldið í janúar kom Kristín Steinsdóttir rithöfundur til okkar til að tala við okkur um bókina sína Vonarlandið sem kom út nú fyrir jólin  2014.  Hún er fyrst og fremst um konurnar sem þvoðu í Þvottalaugunum, þar sem við höldum guðþjónusturnar okkar 19. júní.  Hún sagði frá konunum sem fóru til Reykjavíkur, þótt þær væru í rauninni enn bundnar af vistarbandinu, og tóku sér sjálfstæða vinnu við þvotta, vatnsburð, kolaburð, fiskþvott, heimilisstörf eða hvað annað.  Þær urðu sjálfstæðar manneskjur. Bókin er mikið listaverk, bæði heimildir um tímann sem er ekki löngu liðinn og skáldsaga um hugrekki og vináttu kvenna.  Það er ótrúlegt en satt að konur voru svo kúgaðar og réttlausar fyrir svo skömmum tíma og jafn ótrúlegt og satt hvað þær voru hugrakkar og duglegar og hvað kvennabaráttan hefur gjörbreytt veröld okkar.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |10 febrúar 2015 16:15|Dagleg trú|

Guðsþjónusta í Neskirkju

Guðsþjónusta Kvennakirkjunnar verðu í Neskirkju sunnudaginn 15. febrúar kl. 14:00. Þetta er afmælismessan. Séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir prédikar. Sigrún Gunnlaugsdóttir, fyrrverandi kennari, segir frá trú sinni. Aðalheiður Þorsteinsdóttir leiðir söng með kór Kvennakirkjunnar og Anna Sigríður Helgadóttir syngur einsöng.
Kaffi í safnaðarheimilinu. Þær sem sjá sér fært að koma með meðlæti fá alúðarþakkir.

By |10 febrúar 2015 11:53|Fréttir|