About Arndis

This author has not yet filled in any details.
So far has created 454 blog entries.

Það er alveg nóg að vita að þetta fer einhvernveginn

Susan Jeffers er ein af mínum fínustu rithöfundum.  Hún skrifar gullgóðar bækur sem verða fólki til hjálpar um víða veröld.  Ég vitna í hana í framhaldi af kínversku viskunni sem ég sagði frá síðast.  Susan segir að við skulum hætta að halda okkur svo þéttingsfast í að allt verði alltaf að fara svo frábærlega vel.  Það er miklu betra að segja að þetta fari nú einhvernveginn og treysta því að þetta einhvernveginn verði ekki sem verst.  Það verði bara ágætt.  Hvað segirðu um það?  Ég minnist þess ekki að Susa blandi Guði í ráðleggingar sínar en ég geri það fyrir mitt leyti.  Ég er handviss um að Guð vinkona okkar er með  okkur í einu og öllu og stendur alltaf með okkur hvað sem gerist.  Og þá hefur flest tilhneigingu til að fara heldur vel.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |24 mars 2015 19:18|Dagleg trú|

Jóhannesarguðspjall

Jóhannes 6. 60 – 71

Þá fóru sum

Jesús sagði í þessu mikla samtali að þau sem tryðu á sig myndu eta hold sitt og drekka blóð sitt, vera í sér og hann í þeim, þau myndu hafa líf í sér og lifa fyrir sig. Það var kannski þetta sem sumum í hópnum hans ofbauð. Kannski. Alla vega fóru þau. Jesús vissi að þau myndu fara. Samt sagði hann þetta. Alveg eins og hann gekk fram af valdamönnunum þótt hann vissi að þeir myndu lífláta hann fyrir það. Allt er þetta okkur til djúprar umhugsunar. Við erum kölluð til að treysta Jesú, líka þegar við skiljum hann ekki. Hann er frá upphafi heimsins og hann kemur aftur og gerir allt nýtt. Hann er upphafið og endirinn. Hann veit hvað hann er að gera. Og hann tekur okkur með. Hann þekkir okkur og trúfesti okkar eða kæruleysi. Hvað skyldi það þýða að eta hold hans og drekka blóð hans.  Ég gæti hugsað mér að það þýddi að við skulum treysta því að hann gaf líf sitt, hold sitt og blóð, í krossfestingunni og reis aftur upp til að gefa okkur frelsi í huga okkar og lífi og eilíft líf í lífi og dauða. Hvað heldur þú?

Skýringar Kvennakirkjunnar við Jóhannesaguðspjall munu smátt og smátt birtast hér (smellið á línuna)

By |23 mars 2015 16:06|Dagleg trú|

Flest hefur tilhneigingu til að fara heldur vel

Þetta er kínversk speki.  Jóhann Hannesson,  kristniboði í Kína, prestur og prófessor við guðfærðideildina hér,  bað okkur stúdenta að íhuga  hana vandlega.  Sjáðu varfærnina, það er ekkert fullyrt, ekki sagt að allt verði áreiðanlega í þessu líka fína.  En talið að flest muni hafast alla vega nokkurn veginn.  Hvað finnst þér um þetta?  Það mæta sem oftast einhver óvissuefni í daganna rás.  Þá er ekki slæmt að hafa setninguna yfir.  Og svo kemur í ljós að þetta varð einmitt svona.  Af því að Guð hefur alltaf eftirlit með okkur, bæði í kínverskri speki  og kristinni trú.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |22 mars 2015 19:15|Dagleg trú|

Jóhannesarguðspjall

Jóhannes 6. 22 – 59

Brauð af himni

Það fréttist af boðinu á fjallinu og fólk dreif að daginn eftir, líka þau sem voru þar daginn áður. En þá var Jesús farinn. Fólkið fór til Kapernaum og fann hann. Þá tók hann upp mikilvægt samtal við þetta fólk, alveg eins og hann myndi eiga við okkur: Þið viljið ekki trúa á mig heldur viljið þið velmegun. En velmegunin sem ég gef ykkur er önnur en þið ætlið ykkur.   Það er sú velmegun að trúa á mig. Ég er brauð lífsins. Ykkur hungrar ekki né þyrstir ef þið trúið á mig. Ég gæti ykkar og reisi ykkur upp á efsta degi. Þau sem trúa hafa eilíft líf. Í Ritningunni er talað um brauðið sem Guð gaf fólkinu sem gekk frá Egyptalandi í fjörutíu ár til fyrirheitna landsins. Það brauð gaf ekki eilíft líf, en ég, brauðið af himni, gef eilíft líf. Ég er hið lifandi brauð sem steig niður af himni og hver sem etur af því mun lifa að eilífu, sagði Jesús. En yfirmennirnir eru þurrir á manninn og segja: Hvernig þykist hann vera kominn af himni? Hvað þykist hann vera, hann sem er ekkert annað en sonur hennar Maríu og hans Jósefs?

Skýringar Kvennakirkjunnar við Jóhannesaguðspjall munu smátt og smátt birtast hér (smellið á línuna)

By |21 mars 2015 16:02|Dagleg trú|

Jóhannesarguðspjall

Jóhannes 6. 16 – 21
Ekki vera hrædd
Og svo kom kvöldið eftir þessa miklu hádegisverðarveislu eða kvöldverð. Vinkonurnar og vinirnir voru búin að taka til eftir boðið og löbbuðu niður að vatninu til að taka bátinn heim. Þau áttu heima í bænum Kapernaum hinu megin við Tíberíastvatnið. Jesús bjó þar líka og þar var aðalmiðstöðin í starfinu til að byrja með. Hann varð eftir og kom ekki með í bátnum. Hin voru sjálfsagt uppgefin eftir daginn. Þau reru af stað og þurftu að taka hraustlega á þegar fór að hvessa og vatnið að æsast. Þá kom Jesús. Hann kom gangandi á vatninu. Og þau urðu hrædd. Þau höfðu séð hann gera lítinn nestispakka að mat handa miklum fjölda fólks. Þau höfðu séð hann lækna fólk. En þau höfðu aldrei séð hann ganga á vatni og þess vegna datt þeim ekki í hug að þetta væri hann. En þegar hann sagði þeim sjálfur að vera nú ekki hrædd urðu þau örugg. Alltaf örugg með honum.

Skýringar Kvennakirkjunnar við Jóhannesaguðspjall munu smátt og smátt birtast hér (smellið á línuna)

By |19 mars 2015 15:18|Dagleg trú|

Kvennakirkjan fær veglega bókagjöf

Á dögunum barst mikil og vegleg bókagjöf til Kvennakirkjunnar. Micaela Lynne Kristin-Kali á Flateyri sendi okkur þrjá stóra bókakassa með gullgóðum guðfræðibókum. Í kössunum kennir ýmissra grasa, þar er femínísk guðfræði eftir heimþekkta guðfræðinga, trúfræði, heimspeki og þó nokkrar bækur um litúrgíu kvenna Við höfum sent Micaelu innilegar þakkir okkar. Kvennakirkju konum er öllum velkomið að fá þessar bækur lánaðar sem og aðrar bækur úr ríkulegu bókasafni kirkjunnar.

By |18 mars 2015 12:57|Fréttir|

Staða kristinnar trúar í nútímanum – Hvað segjum við nú?

Kvennakirkjan og Örþingsnefnd þjóðkirkjunnar standa fyrir örþingi sem ber heitið Staða kristinnar trúar í nútímanum.Hvað segjum við nú?
Rætt verður um málið í Grensáskirkju, fimmtudaginn 26. mars kl. 16:00.
Stutt erindi flytja: Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur, sr. Ólafur Jóhannsson, sr. Guðbjörg Jóhannesdóttir, Sr. Hans Guðberg Alferðsson.
Öllum boðið til umræðu.

By |17 mars 2015 13:23|Fréttir|

Mamma ég er hræddur

,,Mamma ég er hræddur, ég get ekki sofnað,“ kallaði sonur minn úr rúmin sínu.  Ég svaraði:  ,,Þú þarft ekkert að vera hræddur við neitt, farðu bara að sofa,“ ég var búin að lesa og biðja bænirnar og fannst ég eiga rétt á fríinu í stólnum núna fyrir framan sjónvarpið.  ,,Jú, mamma, ég er hræddur við skrímslið, hvað ef það kemur.“  Ég stóð upp smá pirruð en ákvað að sinna kallinu og reyna að sannfæra barnið um að það væru engin skrímsli, en fyrir honum voru til skrímsli.  Ég sagði að ég væri mjög nálægt honum og að ég myndi því heyra um leið og skrímslið kæmi, ég myndi þá stökkva á fætur hjá lánað hjá honum sverð og hrekja skrímslið í burtu.  Hann var sammála því að ekki væru til nein hljóðlát skrímsli svo hann keypti þau rök að ég myndi koma um leið og ég yrði vör við lætin.  En þá var það draugurinn, hvaða ráð kynni ég við honum, jú ég lék hljóðin sem ég taldi víst að kæmi frá draugum og ég myndi um leið og ég heyrði þau hlaupa til og þuldi á latínu orðin sem ég ætlaði að hafa yfir.  Þetta fannst okkur báðum frekar fyndið svo óttinn var einhvern veginn orðinn minni.  Þá var það músin,  ,,hvað um ef það kemur vond mús og þú heyrir ekki í henni.“  Jú, ég taldi nú að fyrst músin væri vond þá hlyti að heyrast hátt í henni.  ,,Já, en hvað ef skrímslið er feluskrímsli og læðist inn til mín.“  ,,Nú ef það læðast þá veistu ekki sjálfur að það er koma, þar til þú öskrar af hræðslu og þá kem ég um leið.“  Nú var ekkert lengur eftir, engin hræðsla og […]

By |16 mars 2015 16:50|Dagleg trú|

Jóhannesarguðspjall

Jóhannes 6. 1 – 15

Hádegismatur í grasinu

Það getur líka vel verið að þetta hafi verið kvöldverður. Alla vega var það ævintýri. Boð hjá Jesú, brauð og fiskur, allt komið úr nestinu sem mamman sendi strákinn sinn með til vonar og vara. Alveg eins og hjá okkur á góðum fundum um málefni Guðs, þeir verða svo miklu betri með góðum veitingum. Nú notar Jesús máttinn sem hann vissi að hann átti og hugsaði um á fjörutíu dögunum í eyðimörkinni en vildi ekki nota þá. En notaði í brúðkaupinu í Kana. Og átti eftir að nota oftar. Af því þess þurfti. Það var nauðsynlegt og gaf svo mikla gleði. Hann vissi að fólk myndi vilja færa sér þetta í nyt, þjóðnýta hann og festa sér yfirráð yfir honum. En hann var ekki kominn til þess. Hann var kominn til að breyta hugarfari og hegðun. Svo að fólk veraldarinnar fengi kærleikann til að sjá að það gat sjálft gefið öllum heiminum brauð. Og það er líka markmiðið núna að við breytum um hugarfar og tökum að okkur verkin sem Guð þarf að láta vinna. Og það verður alltaf. Þangað til Jesús kemur aftur og gerir allt nýtt.

Skýringar Kvennakirkjunnar við Jóhannesaguðspjall munu smátt og smátt birtast hér (smellið á línuna)

By |16 mars 2015 12:20|Dagleg trú|

Bænin í dag

Við flytjum bænir okkar í messunum, skrifum þær á miða sem eru lesnir  upphátt.

Ein af bænunum sem við flytjum fyrir bænastundina er þessi:

Við þökkum þér elsku Guð vinkona okkar fyrir að vera hjá okkur og hlusta á bænir okkar.  Þú veist hvernig okkur líður,  þú veist hvað er að gerast í lífi okkar.  Þú þekkir sorg okkar og áhyggjur og gleði okkar, þakklæti og hamingju.  Við vitum að þú heyrir bænir okkar.  Í Jesú nafni,  Amen

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |15 mars 2015 20:33|Dagleg trú|