About Arndis

This author has not yet filled in any details.
So far has created 454 blog entries.

Við höfum áhrif

 Finnst þér það obbolítil kúnst að eiga að sjá bæði vonsku heimsins og gæsku og sjá hvað við getum gert í málinu?  Mér finnst það.  Ég er að reyna að gera mér grein fyrir þessu og kannski gerir þú það líka.  Ég hitti hana Siggu um daginn, en við kynntumst fyrir áratugum og höfum farið sitt hvora leiðina en alltaf hist og talast við.  Eftir sitt hvorn veginn finnst okkur báðum að eitthvað sé rammvitlaust í veröldinni og hér hjá okkur.  Við komum okkur saman um að vera ekki að láta það eyðileggja dagana að reyna að ráða við það sem við höfum engin áhrif á.  Við skyldum frekar njóta allra gæðanna sem við eigum og láta það gera dagana litríka og yndislega eins og við gætum.    Þá værum við líklegar til að hafa ýmisleg góð áhrif þar sem við getum.  Við treystum Guði til að vera okkur innan handar við það.  Ertu  með?

Blíðar kveðjur, Auður Eir

 

By |7 apríl 2015 22:03|Dagleg trú|

Vinnum gegn ofbeldinu

Jesús þjáist sjálfur í öllum sem þjást. Hann þekkir af eigin raun þjáninguna og ofbeldið sem birtist á Golgata.   Ofbeldi er líkt og mengun í samfélagi kristinna manna.  Vinnum gegn ofbeldinu.  Stöndum saman, tölum saman og finnum með hjálp Guðs leið til að vinna gegn hvers konar ofbeldi á heimsvísu.  Við biðjum Guð um að blessa okkur á þeirri vegferð og við biðjum hann einnig um að vera með öllum þeim er þjást vegna trúar sinnar.

Bestu kveðjur,  Hulda Hrönn M. Helgadóttir

By |5 apríl 2015 21:58|Dagleg trú|

Jóhannesarguðspjall

Jóhannes 7. 39
Hann átti við andann sem þau skyldu hljóta sem trúa á hann
Frá hjarta þeirra sem trúa á mig munu renna lækir lifandi vatns, segði Jesús. Hann sagði þetta líka við samversku konuna við brunninn. Hvað þýðir það? Það er sagt: Það er andinn sem þau eignast sem trúa á Jesúm. Hann er enn ekki gefinn, segir Jóhannes, af því að Jesús var enn ekki orðinn dýrlegur. Samt eignaðist konan við brunninn þessa læki lifandi vatns þegar Jesús talaði við hana. Hann gaf henni andann, vissuna, kjarkinn og gleðina. Hann gerði allt nýtt í hjarta hennar og lífi. Þegar Jesús varð dýrlegur, þegar hann reis upp frá dauðum og sannaði að hann var sá sem hann sagðist vera, gaf Guð fólki sínu enn meira af andanum. Hún gagntók þau eins og er sagt um hvítasunnuna í öðrum kafla Postulasögunnar. Hvað segir þú? Hefur þú ekki líka fundið andann gagntaka þig? Aftur og aftur á ýmsan hátt? Ég hugsa það, af því að Jesús gefur okkur öllum af anda sínum.

Skýringar Kvennakirkjunnar við Jóhannesaguðspjall munu smátt og smátt birtast hér (smellið á línuna)

By |4 apríl 2015 19:53|Dagleg trú|

Jóhannesarguðspjall

Jóhannes 7. 25 – 44
Ég er frá Guði sem sendi mig
Fólk fór að tala upphátt um hann. Það varð hissa á því að hann skyldi koma fram þótt hann mætti vita að það var setið um hann. En sumt fólk hélt þá að kannski hefðu yfirmennirnir sannfærst um að hann væri frá Guði. Það væru þá stórtíðindi. Nei, það gat ekki verið, var líka sagt, engin vita hvaðan Kristur kemur en þessi er að norðan. Hann var alls staðar til umtals. Margt fólk trúði honum. En engin skildu hvert hann sagðist vera að fara, kannski til að vinna í útlöndum. Hvað var það sem Jesús sagði nú þegar hann kom fram þarna í Jerúsalem? Hann sagði: Ég er kominn frá Guði og þið þekkið mig ekki af því að þið þekkið ekki Guð. En ef nokkur ykkar þyrstir þá komið til mín og eignist vatnið sem ég gef ykkur.

Skýringar Kvennakirkjunnar við Jóhannesaguðspjall munu smátt og smátt birtast hér (smellið á línuna)

By |3 apríl 2015 19:49|Dagleg trú|

Víst skiptir kyn máli

Sjá, ég hef róað og sefað sál mína. Eins og lítið barn við brjóst móður sinnar, svo er sál mín í mér. (Davíðssálmur 131.2)
Okkur er svo oft sagt að kyn skipti ekki máli, ég álít það blekkingu af hálfu þeirra sem vilja halda í valdið yfir kynjunum. Kynið skiptir víst máli, kannski mismiklu máli en jafnréttistbarátta snýst ekki um að núlla út það sem aðgreinir kynin. Það skiptir mig máli að ég er kona og það skiptir mig máli að eiga margar ólíkar fyrirmyndir sem eru konur, það skiptir mig máli að þegar ég tjái tilfinningar hafi ég möguleika á mismunandi myndlíkingum. Það skiptir mig öllu máli að þegar ég hugsa um Guð á ég margar myndir í huganum af Guði. Ég vann með fermingarbörnunum mínum um daginn leirmyndir sem tengdust sögunni af Davíð, Batsebu og atburðum í þeirra lífi. Eitt ákvað að túlka risann Golíat, hinar myndirnar voru m.a. blóðið sem Davíð lét úthella, blóði drifinn hnífur, harpa, barnið sem fæddist þeim Davíð og Batsebu, Batsebu að baða sig og ein stúlkan vildi fá að gera brjóst. Ég var fljót að reyna að draga úr því, fannst það kannski ekki alveg nógu sniðugt. En ég hugsaði bara meira og meira um hvað það var samt táknrænt. Það var lostinn sem kviknaði hjá Davíð við að sjá þetta brjóst og allt sem það hafði í för með sér, þetta sama brjóst fæddi barnið sem lést og sorgina fann móðirin í brjóstinu sem framleiddi áfram mjólk eftir andlát barnsins. Þetta sama brjóst fæddi síðar hinn mikla og virta dómara Salómon sem var augasteinn móður sinnar. Víst skipti þetta brjóst máli, kynin skipta máli og það skiptir öllu máli að ójafnvægi milli kynjanna verði leiðrétt. Það skiptir […]

By |2 apríl 2015 19:11|Dagleg trú|

Það er ekki ráðlegt að loka augunum fyrir því sem við eigum að sjá um

Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst yfir áhyggjum af auknum stríðsrekstri í heiminum. Það horfir ekki friðsamlega í veröldinni í dag. Öfl ofbeldis hafa fengið aukna áheyrn og aukið ráðrúm til valda. Ofbeldi, einelti, misnotkun og vélráð eru hlutar af daglegu lífi úti á vinnumarkaðinum, sem lítill gaumur er gefinn. Almenn trú er að einstaklingur sem sýnir ofbeldi svo sem yfirgang, frekju og virðingarleysi í framkomu sé betri stjórnandi en sá sem sýnir mildi, virðingu og hlustun. Þetta er öfugsnúið. Þegar kemur að stjórnun heimsins eigum við á hættu að ganga í gildru ríkjandi hugmyndafræði sem gengur mikið til út á peninga og hámarks framlegð, sífellt meiri hagnað. Margar siðfræðikenningar eru til, og eitt er siðfræði markaðshyggjunnar og annað siðfræði kristninnar. Friður verður ekki nema við viljum hann.

Bestu kveðjur, Hulda Hrönn M. Helgadóttir

By |1 apríl 2015 18:09|Dagleg trú|

Jóhannesarguðspjall

Jóhannes 7. 10 – 24
Dæmið ekki eftir útliti, dæmið réttlátan dóm
Jesús ákvað samt af fara suður. Og tala opinberlega þótt hann vissi að yfirmennirnir voru að leita að honum. Hvað var að gerast? Hvað var Jesús að gagnrýna sem var svona hættulegt fyrir hann? Það var ekki það að þjóðin skyldi vera undir yfirráðum Rómverjanna. Það var það að þjóðin skyldi vera undir yfirráðum rangra hugmynda um trú sína. Yfirmennirnar kenndu trúfesti við reglur sem þeir og aðrir yfirmenn bjuggu til sjálfir. Þess vegna dæmdu þeir eftir útliti en ekki réttlæti. En þeim bauðst að breyta um hugmyndir og taka á móti því sem Jesús sagði þeim um réttlæti Guðs. Þið megið treysta því að það sem ég segi er frá Guði, sagði Jesús. Þið sjáið það þegar þið treystið mér. Fólk tók mismunandi afstöðu, það undraðist visku hans, ásakaði hann um ofsóknaræði, taldi hann illmenni eða sagði að hann væri góður. En það var ekki talað hátt af ótta við valdamennina.

Skýringar Kvennakirkjunnar við Jóhannesaguðspjall munu smátt og smátt birtast hér (smellið á línuna)

By |31 mars 2015 19:48|Dagleg trú|

Við verðum samt að vaka yfir hugmyndum okkar

Það er léttir að treysta því að flest hafi tilhneigingu til að fara heldur vel og við megum hætta að heimta það af lífinu að allt verði eins og við viljum.  Samt  verðum við að vaka yfir hugmyndum okkar.   Og það að hætta að hugsa okkur að allt þurfi að fara frábærlega er auðvitað að vaka yfir hugsunum okkar.  Það skiptir mestu hvað við hugsum.  Eða hvað heldur þú?  Það skiptir máli fyrir okkur að hugsa vel til okkar sjálfra, sjá að við erum yndislegar manneskjur og vinkonur Guðs.  Framhaldið af því er að hugsa til þess sem gerist í kringum okkur. Næst fáum við kveðju frá Huldu Hrönn um þetta.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

 

By |30 mars 2015 18:09|Dagleg trú|

Jóhannesarguðspjall

Jóhannes 7. 1 – 9

Heimurinn hatar mig af því að ég vitna um að verk hans séu vond

Jesús vissi alltaf hvað hann gerði og hvenær var rétti tíminn og hann vissi alltaf hverju hann átti að svara.  Nú var tíminn að koma til að hann yrði handtekinn og krossfestur.  En ekki alveg strax.  Góði vertu ekki að fela þig hérna norður í landi, drífðu þig suður og sýndu þig, sögðu bræður hans.  Þetta var öðru vísi en þegar mamma hans hvatti hann til að sýna guðlegan mátt sinn í brúðkaupinu í Kana.  Hún vissi hver hann var, bræðurnir vissu það ekki og trúðu ekki á hann, ekki strax en sumir seinna.  Farið þið suður, sagði Jesús, það er ekki hættulegt fyrir ykkur, en það er hættulegt fyrir mig af því að ég segi sannleikann um það sem er að gerast.

Skýringar Kvennakirkjunnar við Jóhannesaguðspjall munu smátt og smátt birtast hér (smellið á línuna)

By |26 mars 2015 21:53|Dagleg trú|

Kirkjur þurfa að horfast í augu við ofbeldi

Nú er fastan og þá beinum við sjónum okkar þjáningunni í heiminum í gegnum píslargöngu Krists.  Ef við lítum út fyrir okkur sjálf og okkar land, og lítum ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra eins og segir í Filippíbréfinu (Fil.2:1-5),  þá er þannig mál með vexti að margt kristið fólk í heiminum býr við ofsóknir og þjáningar vegna trúar sinnar.  Fólk er oft óvarið fyrir kerfisbundnum, skipulögðum árásum.
      Í nóvember á þessu ári verður haldin ráðstefna í Albaníu á vegum Global Cristian Forum. Ætlunin með þessari ráðstefnu er að styrkja kirkjur í heiminum sem horfast í augu við mismunun, ofsóknir og píslarvætti heima hjá sér eins og í Sýrlandi, Írak, Egyptalandi og Nígeríu. (Global Christian Forum News, 2015 Edition 01)
     Það er víða um heim sem kirkjur þurfa  að horfast í augu við ofbeldi og píslarvætti.  Manni bregður við á hinu friðsæla Íslandi að heyra að enn sé fólk að líða píslarvætti – að fólk láti líf sitt fyrir trú sína, skulu vera fórnað vegna trú sinnar líkt og á tímum Nýja testamentisins.

Með kveðjum,  Hulda Hrönn M. Helgadóttir

By |25 mars 2015 19:25|Dagleg trú|