About Arndis

This author has not yet filled in any details.
So far has created 454 blog entries.

En Kristur segir: Kom til mín

Ég segi aftur og aftur að það skipti mestu hvað við hugsum.  Ég segi það af því að ég er bara handviss um það.  Það er alltaf verið að tala um að tilfinningar séu annars vegar og hugsanir hins vegar.  Það er sagt að það sé nú eitthvað fínna að skilja með hjartanu en höfðinu.  Ég held ekki að það sé svoleiðis.  Ég held að tilfinningar og hugsanir sameinist í snúð eins og var sagt þegar ég var í Versló.  Ég held því ekki fram að tilfinningar og hugsanir séu alltaf nákvæmlega það saman, ég held til dæmis að við getum lagt saman tvo og sjö án sérlegra tilfinninga.  Hvað finnst þér?  En þegar við tökum undir með sálminum hans Kristjáns frá Djúpalæk og segjum að á örðugri lífsleiðinni ljái Kristur okkur sólarsýn og taki upp kross okkar þá held ég hann taki að sér allt sem í okkur er.  Þess  vegna held ég að það sé alveg í samræmi að segja: Af því að það skiptir okkur öllu hvað við hugsum skiptir okkur öllu hverju við trúum.  Hvað finnst þér?

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |25 apríl 2015 21:54|Dagleg trú|

Jóhannesaguðspjall

Jóhannes 10. 22 – 42
Þú gerir sjálfan þig að Guði þótt þú sért bara maður
Hér kemur margt fram sem er engu síður kapprætt um nú en þá. Það er spurningin um Jesúm: Hver var hann? Hver er hann? Ef þú ert Kristur skaltu segja okkur það, sagði fólkið. Og Jesús segir sem áður: Ég er margbúinn að segja ykkur það. Ef þið trúið því ekki þegar ég segi ykkur að ég er Guð þá getið þið trúað því af því sem ég geri. Einmitt, sögðu valdamennirnir, við ætlum ekki að taka þig af lífi fyrir verkin heldur fyrir guðlast. Þú ert bara maður og það er guðlast af þér að segja að þú sért Guð. Spurningin er enn til umræðu. Og enn sagði Jesús: Það eru bara mínir sauðir sem sjá hver ég er. Það er aðeins hægt að sjá það í trúnni. En ég á mína sauði. Ég gef þeim eilíft líf og þau verða ekki slitin úr hendi minni. Gleymum því ekki að það stóð öllum til boða að vera með í hjörðinni.

By |24 apríl 2015 22:48|Dagleg trú|

Þú hefur sannarlega rétt til að setjast niður

Í Frakklandi tekur fólk stundum út eldhússtóla og lítil borð og setur á gangstéttina utan við húsin sín í síðdegissólinni og dreypir á rauðvíni. Ég las í kirkjublaði að maðurinn sagði við konu sína: Komdu og sestu hjá mér. Þú hefur sannarlega rétt til þess. Þau voru roskin hjón og búin að skila löngum vinnudegi ævinnar. Nú höfðu þau sannarlega rétt til að sitja í síðdegissólinni og horfa á umferðina.

Nú eru gleðidagar. Dagarnir eftir páska eru merktir sem gleðidagar í kirkjunni. Verum glöð. Njótum þess sem við höfum gert. Þökkum Guði fyrir líf okkar og treystum því að hún gefi okkur kjarkinn til að njóta þess sem var og er. Það þarf stundum kjark til að láta ekki alla vega amstur og sérkennilega vitlausar og algjörlega óþarfar hugsanir fipa okkur. Eða hvað segir þú um það? Það er ekki alltaf á okkar valdi að losna við ýmsar fáránlegar boðflennur í hugarheimum og njóta síðdaga í sólinni svo yndislegt sem það er fyrir okkur. Þá kemur upprisan. Máttur upprisu frelsara okkar sem Guð vinkona okkar færir okkur. Hún gefur okkur þennan undursamlega frið og mátt í mótlæti okkar svo við stöndumst það og í síðdegissólinni svo við tökum hiklaust á móti og njótum og gleðjumst. Þú veist það. Þú hefur séð það. Aftur og aftur. Það er yndislegt. Tökum á móti gleði Guðs í mótlæti og meðbyr.

Blíðar kveðjur, Auður

By |23 apríl 2015 22:56|Dagleg trú|

Jóhannesarguðspjall

Jóhannes 10. 7 – 21
Ég er góði hirðirinn
Fólkið skildi ekki hvað hann var að segja svo hann heldur áfram. Það er ég sem er góði hirðirinn og ég er meira, ég er sjálfar dyrnar. Þau sem ganga inn um þær dyr verða frjáls. Þau eru ekki innilokuð í byrginu heldur ganga inn og út og þau fá fóður. Það eru ekki aðrar dyr til og ekki aðrir hirðar Ég á líka aðra sauði og þau munu líka þekkja mig. Hver skyldu þau vera? Jesús var að tala við sína eigin þjóð. Skyldu hinir sauðirnir ekki vera við til dæmis? Ég legg líf mitt í sölurnar, ég gef það af frjálsum vilja, og ég fæ lífið aftur. Það þýðir: Ég verð krossfestur, en ég rís upp. Þetta vekur mikla athygli eins og fyrr og hann heldur áfram að vera alls staðar til umræðu.

By |22 apríl 2015 22:47|Dagleg trú|

Bæn dagsins

Við skulum tala við Guð á hverjum degi.  Við megum segja henni allt, það sem við segjum öðrum og það sem við segjum engri nema henni.  Og líka það sem við viljum varla segja sjálfum okkur.  Hún hlustar alltaf og skilur alltaf.  Og hjálpar alltaf.   Í messunum í Kvennakirkjunni, leggjum við bænir okkar í körfu og lesum þær upphátt.  Einni bænastundinni lýkur svona:

Við vitum og finnum að þú ert hjá okkur og heyrðir allt sem við sögðum.  Við felum þér líka allar bænirnar sem voru beðnar í hljóði.  Við felum þér okkur sjálfar og  sjálf og þökkum þér fyrir að mega biðja hver fyrir annarri og hvert fyrir öðru á hverjum degi.  Við þökkum þér fyrir Kvennakirkjuna okkar og fyrir alla söfnuði  landsins og alla kirkju heimsins.    Við biðjum þig fyrir öllum sem bera boðskap fagnaðarerindisins til annarra.   Í Jesú nafni. Amen

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |21 apríl 2015 22:22|Dagleg trú|

Jóhannesarguðspjall

Jóhannes 10. 1 – 6
Jesús kallar með nafni
Tíundi kaflinn er hinn afar frægi kafli um góða hirðinn. Jesús talaði í dæmisögum. Nú er dæmisagan um sauðina í byrginu og svikara sem klifra yfir veggi í dimmri nóttinni og þykjast vera hirðar en eru þjófar og ræningjar. En hirðirinn kemur að dyrunum og dyravörðurinn þekkir hann og opnar. Og sauðirnir þekkja hann og svara þegar hann kallar þau með nafni. Hann fer með þau út, fer á undan þeim og er leiðtogi þeirra. Þetta er saga um hópinn, hóp Jesú sem veit að hann er frelsarinn og aðrir frelsarar eru ekki til.

By |20 apríl 2015 22:45|Dagleg trú|

Hjálpið okkur að hjálpa öðrum

Þetta stóð alltaf á rauðu jólapottunum Hjálpræðishersins sem var safnað í fyrir jólin.   Ég ætla að stinga upp á því að við segjum þetta svona í dag:  Hjálpaðu mér Guð til að hjálpa sjálfri mér.  Hvað finnst þér um það?     Það gerist allt mögulegt í  daganna framgangi, líka þegar við erum alls ekki stórlega miður okkar heldur bara heldur glaðlegar.   Við getum samt misst móðinn af einu og öðru.  Og þá –  þá kemur það okkur til góða að vita að Guð hjálpar okkur þegar við hjálpum okkur sjálfar.  Við gerum eitthvað til að koma okkur aftur á sporið, bara eitthvað,  og við förum aftur að ráða við daginn.  Og ef við ráðum nú samt ekki við daginn í dag kemur góði dagurinn bráðum.  Og enn vitna ég í Steinunni okkar Pálsdóttur sem segir svo oft um Guð vinkonu okkar:  Hún brallar svo.  Yndislegt segi ég.  Ég hugsa að þú segir það líka.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |19 apríl 2015 22:21|Dagleg trú|

Jóhannesarguðspjall

Jóhannes 9. kafli
Guð heyrir ekki bænir syndara, sögðu kallarnir
Fólk er dolfallið yfir Jesú og valdamennirnir ævareiðir. Og Jesús heldur áfram að segja sannleikann sem frelsar þau öll sem taka við honum. Ég þarf að nota tímann meðan hann gefst, sagði hann. Enn læknar hann mann á hvíldardegi. Það var maður sem fæddist blindur og Jesús gaf sjón. Það er margt sagt í kaflanum. Það að Jesús sagði að sjúkdómar væru ekki hefnd Guðs. Og það að valdamennirnir sögðu að Guð bænheyrði ekki syndara heldur guðrækna menn. Þeir þvertóku fyrir það að blindi maðurinn hefði verið guðrækinn. Það var af og frá af því að hann var í vinfengi við Jesúm. Skrýtið að þið skuluð ekki sjá hver hann er þegar þið sjáið og hann opnaði augu mín, sagði maðurinn. Þeir ráku hann af fundinum sem þeir höfðu boðað hann á, en Jesús hitti hann og maðurinn trúði á hann.

By |18 apríl 2015 22:42|Dagleg trú|

Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálf

Ég held það.  Ég hef stundum  velt því fyrir mér hvort þetta væri heldur hryssingslegt.  Hættu þessum roluskap og gerðu eitthvað í málinu, þá verður Guð með þér.  Er verið að segja þetta?  Nei, það er auðvitað langt frá því.  Guð hjálpar okkur þegar við höfum ekki nokkurn mátt og getum ómögulega hjálpað okkur sjálfar.  Hún  hjálpar okkur til að komast út úr vanmættinum  –  og fara að hjálpa okkur sjálfar.  Og þá finnum við meiri og meir mátt.  Held ég,  Hvað heldur þú?

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |17 apríl 2015 22:02|Dagleg trú|

Jóhannesarguðspjall

Jóhannes 8. 31 – 59
Sannleikurinn mun gera ykkur frjáls
Sannleikurinn mun gera okkur frjáls. Þetta eru ein hinna frægu orða Jesú. Það er tíðum vitnað til þeirra sem almenns sannleika um hvaða mál sem er. Þau eiga líka við þau öll. En Jesús sagði þau um frelsið sem við eignumst þegar við sjáum hver hann er. Í allri baráttu Jesú við valdamennina og allri boðuninni til fólksins er boðskapurinn alltaf sá sami: Ég er sannleikurinn. Guð er komin til ykkar í mér. Það er sannleikurinn sem frelsar ykkur og veröldina. Það er ég. Þið sjáið þetta í trúnni á mig. Það er eina leiðin til að sjá það. Menn mótæltu ákaflega og sögðu að hann væri svikari og hefði illan anda og tóku upp steina til að grýta hann. En hann lét þá ekki ná sér og fór.

By |16 apríl 2015 22:34|Dagleg trú|