About Arndis

This author has not yet filled in any details.
So far has created 454 blog entries.

Kristin trú gefur lífshamingju

Það er nefnilega svoleiðis.  Kristin trú segir okkur að Guð hafi fyrirgefið okkur og að við megum þess vegna fyrirgefa sjálfum okkur.  Ekkert smá.  Hugsum um það og tökum á móti þvi.  Í alvöru.  Í Kvennakirkjunni flytjum við þakkir fyrir fyrirgefninguna í staðinn fyrir syndajátningu.  Við játum syndir okkar í þakkarbæninni og leggjum hina djúpu áherslu á fyrirgefninguna. Við leggjum áhersluna á að við treystum fyrirgefningu Guðs.   Hún fyrirgefur.  Hún fyrirgefur. Segjum það oft.   Fyrirgefðu þér f því að hún fyrirgefur þér.  Ég held að það sé grundvöllur lífsins, grundvöllur lífshamingjunnar, það að þú ert frjáls frá því sem aftrar þér,  hvað sem það er.  Guð sagði það sjálf.  Trúðu því.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |9 maí 2015 21:21|Dagleg trú|

Postulasagan

Postulasagan segir líka frá nýjum átökum

Trúin á Jesúm Krist krossfestan og upprisinn var aðalatriði trúarinnar.  Hún olli engum deilum innan safnaðanna.  Heldur ekki þegar fólk utan gyðingatrúarinnar vildi ganga í kirkjuna.  Þá var samþykkt að það fólk þyrfti ekki að fylgja siðum gyðingatrúarinnar, umskurn, sabbatshefðum,  mataræði og fórnum, heldur taka milliliðalaust á móti trúnni á Jesúm Krist.  En trúin á upprisu  Jesú olli miklum deilum við Gyðingana.   Gyðingarnir hlutu að snúast gegn fagnaðarerindinu eins og fólki gerði þegar Jesús boðaði það sjálfur.  Þau sáu ekki að fagnaðarerindið um að Jesús var opinberun Guðs og aðalatriði Ritningar þeirra.  Trúfestin við fagnaðarerindi kirkjunnar um upprisuna olli ofsóknum Rómverjanna.  Rómverska ríkið veitti öllum trúfrelsi en krafðist hollustu við ríkið og tilbeiðslu keisarans.  Hvorki Gyðingar né kristið fólk vildi tilbiðja keisarann en kaus frekar að þola ofsóknir.  Kirkjan átti lika i átökum vegna ýmissa trúarbragða í kringum sig, stjörnuspádóma,   andasæringa og leynifélaga.  Fólk laðaðist að kristninni  af því að það leitaði að dýpri trú, líka dýpri en trúnni á fjölmarga guði Grikkja og Rómverja sem mörgum þótti ekki langur traustsverð.

By |8 maí 2015 21:16|Dagleg trú|

Kristnin ógnar heiminum

 Að kunna að lesa gefur konum völd og áhrif.  Það ógnar karlaveldinu.  Í umræðunni í haust um seinni heimstyrjöldina kom fram að orsakanna fyrir henni  væri m.a.  að leita í vanmætti ríkjandi karla til að horfast í augu við eigin karlmennsku.  Því þarf að huga að því þegar rætt er um trúarbragðadeilur hvort verið sé að fela sig á bak við trúarbrögðin þegar aðrar hvatir liggja að baki og málið snýst um völd eða andlegan sjúkleika eins og siðblindu.

Kristnin ógnar heiminum í dag.  Því kristin trú gefur grunn til að standa á og gerir fólk sterkt.  Hún gefur mannskilning sem er virðingarverður.  Hún gefur siðfræði sem byggir á kærleika, og stendur gegn hinu illa, græðgi og sjálfsmiðlægni.  Hún gefur lífshamingju.

Með bestu kveðjum,  Hulda Hrönn M. Helgadóttir

By |7 maí 2015 21:22|Dagleg trú|

Postulasagan

Postulasagan segir frá nýjum möguleikum

Postulasagan  er saga um fögnuð kristinnar trúar og boðun hennar og um átök um það sem var á seyði utan kirkjunnar og innan hennar.  Boðberarnir voru fólkið sem hreifst af trúnni og gerði hana að grundvelli lífs síns.  Það hélt hópinn í mikilli samheldni og þegar þau voru ofsótt dreifðust þau og stofnuðu söfnuði þar sem þau settust að.  Þau héldu áfram að standa saman.  Í upphafi voru þau flest Gyðingar og boðuðu fagnaðarerindið í  samkomuhúsum þjóðar sinnar sem voru víðast hvar um alla veröldina.  Margt fólk utan gyðingdómsins laðaðist að gyðingdómnum og hreifst svo af kristninni.  Samkomuhúsin auðvelduðu útbreiðsluna og líka vegalagnir Rómverjanna um allt hið stóra rómverska ríki, rómversku lögin og friðargæslan, trúfrelsið og grísk tunga sem var töluð allsstaðar auk ýmissa tungumála.

By |6 maí 2015 21:15|Dagleg trú|

Lúter og Malala og mátturinn í því að kunna að lesa

Árið 2017 munum við minnast þess að 500 ár eru liðin frá því að Lúther negldi greinarnar 95 upp á kirkjuhurðina í Wittenberg.  Það var upphafið að nútímanum er mat manna.  Þetta leiddi til bætts siðferðis hjá kirkjunnar mönnum.  Þetta leiddi til þess að fleiri lærðu að lesa því Lúther lagði áherslu á að allir ættu að hafa tök á því að lesa Biblíuna.  Þetta leiddi til áherslu á að auka lestrarþekkingu og að reisa skóla í lútherstrúarlöndum og þar sem kristniboð fór fram.  En eins og Friðarverðlaunahafi Nóbels 2015  Malala Yousafzay  komst að orði: Öfgasinnar hafa opinberað hvað hræðir þá mest:

Stúlka með bók   !

Með bestu kveðjum,  Hulda Hrönn M. Helgadóttir

By |5 maí 2015 21:19|Dagleg trú|

Postulasagan

POSTULASAGAN

Postulasagan er frásagan af því hvernig fagnaðarerindið barst út um heiminn strax á fyrstu öldinni.  Höfundurinn er Lúkas læknir sem skrifaði Lúkasarguðspjall en Postulasagan er framhald þess.  Hún byrjar þar sem guðspjallið endar.  Lúkas ferðaðist með Páli og segir mest af starfi hans en líka frá starfi Péturs og Jóhannesar.  Hann segir frá nokkrum konum sem sumar voru forystukonur.  Postulasagan er afar spennandi saga um ferðalög og margskonar átök, ofsóknir og þrautseigju en fyrst og fremst um fögnuð í trúnni á upprisinn Jesúm Krist og mátt heilags anda Guðs sem kom í Jesú.  Hún segir frá söfnuðunum sem urðu til í heimalandinu og út um veröldina og þá meistaralegu lausn sem fannst á fyrirkomulagi starfsins.

By |4 maí 2015 21:15|Dagleg trú|

Nærvera og fyrirgefning Guðs

Nærvera Guðs umlykur okkur alla daga. Nærvera hennar felur í sér vináttu og blessun, fyrirgefningu og frið. Við komum fram fyrir Guð og segjum henni það sem í býr í hjarta okkar. Hún hlustar á okkur og hjarta okkar fyllist gleði og styrk hinnar kristnu trúar vegna þeirrar fullvissu að Guð gengur með okkur í gegnum lífið. Við öðlumst fyrirgefningu hennar og þess vegna getum við fyrirgefið okkur. Við lifum í fyrirgefningu Guðs og nærvera hennar, frelsi og friður umlykur okkur alla daga.

Elína Hrund Kristjánsdóttir

By |29 apríl 2015 14:26|Dagleg trú|

Já, það er þörf á nýrri siðbót

Eða hvað finnst þér?  Og hvernig finnst þér hún ætti að vera?  Mér finnst við eiga að huga verulega vandlega að þessu.  Ég held að það sé siðbótin.  Það að við hugum vel að okkar eigin trú.  Að kristinni trú okkar. Trúnni á Guð sem skapar og er Jesús sem frelsar og Heilagur andi sem er alltaf hjá okkur.  Það er undursamleg hversdagstrú sem gagnar okkur alltaf alltaf og breytir lífi okkar aftur og aftur.  Hvernig vilt þú fyrir þitt leyti rækja þína eigin trú?  Ég held að siðbótin byrji nefnilega hjá okkur sjálfum.  Og að það sé stórkostlegt.  Hvað finnst þér?

 

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |28 apríl 2015 21:51|Dagleg trú|

Er þörf á nýrri siðbót ?

Já hvernig bregðumst við við?  Sagt er að andstæða kærleikans sé afskiptaleysi.  Afskiptaleysi er hættulegt.  Kærleikurinn er ekki sama og geðleysi.  Kærleikurinn er ekki að láta allt yfir sig ganga.  Við verðum að leggja niður barnaskapinn.  Og elska Guð, og náungann eins og sjálf okkur, hvorki meira né minna.  Þarna liggja mörkin.  Það þjónar kærleikanum að sinna okkar kristnu trú og boða hana með lífi okkar og starfi.   Já hvernig bregðumst við við?   Við bregðumst við með því að tala saman og lifa Kristi – gefa okkur tíma til að vera kristin í lífi og verki.

Er þörf á nýrri siðbót?  Og hver ætti sú siðbót að vera?

 

Bestu kveðjur,  Hulda Hrönn M. Helgadóttir

By |27 apríl 2015 20:54|Dagleg trú|

Það er þörf á því að við finnum hvernig er best að bregðast við

Þótt Ísland sé friðsælt á yfirborðinu spyr maður sig spurninga um aukna neikvæða umfjöllun um kristni og kirkju. Hver eru viðbrögð okkar við trúarbrögðunum, lífskoðunar- og vantrúarfélögunum og ólíkri siðfræði?  Og ef við lítum enn frekar á hið stóra samhengi hlutanna þá vaknar spurningin um hver sé í raun ástæðan fyrir því að félagsgjöldin til kirkjunnar, sóknargjöldin fást ekki greidd til sóknanna af hendi ríkisins?  Og hver var ástæðan fyrir breytingu á lögum um sóknargjöld?  Er ástæðan bara hrunið eða er þetta ein stjórnunarleiðin.  Er andleg velferð þjóðarinnar hunsuð?   Hvernig bregðumst við við?  Það er þörf  á því að við tölum saman og viðrum hugsanir okkar og finnum út hvernig best er að bregðast við.

 

Bestu kveður,  Hulda Hrönn M. Helgadóttir

By |26 apríl 2015 20:53|Dagleg trú|