About Arndis

This author has not yet filled in any details.
So far has created 454 blog entries.

Kvennamessa á Klambratúni á kvenréttindadaginn

Kvennakirkjan heldur guðþjónustu í samvinnu við Kvenréttindafélag Íslands og Kvenfélagasamband Íslands á Klambratúni við Kjarvalsstaði, 19. júní kl. 20. Séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir prédikar. Fríða Rós Valdimarsdóttir formaður KRFÍ og Una María Óskarsdóttir  formaður KÍ taka þátt í messunni, einnig séra Arndís Linn prestur Kvennakirkjunnar og séra Agnes M. Sigurðardóttir biskup. Ásdís Þórðardóttir leikur Áfram stelpur á trompet og Margrét Hannesdóttir syngur einsöng. Aðalheiður Þorsteinsdóttir stjórnar söng á sálmum um baráttu og frið. Gott væri að taka með sér eitthvað til að sitja á. Verum velkomnar og höldum saman messu í gleði yfir sigrunum á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.

By |15 júní 2015 22:43|Fréttir|

Að biðja fyrir símaskránni

Snjallsímar eru til margs brúklegir. Margir þekkja hversu gott er að gæjast í þá þegar þarf að bíða og láta tímann líða. Hvernig væri að nota tækifærið næst þegar þú þarft að láta tímann líða og biðja fyrir símaskránni , ekki kannski öllum á já.is – heldur bara fólkinu í símaskránni í símanum þínum. Í henni eru væntanlega öll þau sem þér eru kærust og skipta þig mestu máli. Þar er líka þau sem hafa kennt þér, veitt þér aðstoð og kannski einhver sem hafa hjálpað þér á ögurstundu. Kannski eru þar líka einhver sem þú hefur ekki hugsað til lengi eða jafnvel þau sem þú veist að þú heyrir aldrei í aftur. Þú gætir byrjað á A eða Ö eða bara skrollað og látið tilviljunina ráða, tekið einn bókstaf á dag eða valið tvö fólk í hverri viku –  Spurning um að prófa næst þegar þú ert að fikta í símanum ! Biðjið án afláts (Fyrra Þessaloníkubréf 5:17) líka með snjallsímanum !

Með kærleikans kveðju Arndís Linn

By |4 júní 2015 20:16|Dagleg trú|

Hún er hjá okkur dag og nótt

Hún hraðar sér til okkar.  Til að hjálpa okkur og líkna okkur.  Dagarnir eru alla vega,  eins og við vitum svo mætavel af því að við höfum séð það aftur og aftur.  Stundum segi ég söguna af konunni sem stoppaði á grænu ljósi á Hringbrautinni, kannski var það annars staðar.  En það er alveg satt,  hún stoppaði af þvi að græna ljósið var búið að vera svo lengi að hún treysti því ekki að það yrði áfram.  Ætli við stoppum ekki stundum þótt  við höfum grænt ljós í lífinu?  Kvíðum og þjáumst af sektarkennd þótt ekkert sé að ógna okkur?   Hvað segir þú?  Þá sér Guð  hvað við hugsum og hraðar sér af himni með hjálp og líkn.  Hún treystir okkur til að taka á móti.   Þetta er úr sálminum fagra Á hendur fel þú honum er himna stýrir borg.  Númer 38 í sálmabókinni.  Syngjum.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

 

By |2 júní 2015 20:13|Dagleg trú|

Af himni er þú þér hraðar, með hjálp og líkn til vor

Guð flýtir sér að koma til móts við okkur, hún er alltaf hjá okkur dag og nótt. Nú er fólk víða um heim að hugsa með sér: hvernig getum við verið með Guði og haft hana með í ráðum? Það er ekki lengur í tísku. Orðræðan er þannig að fólk getur hreinlega orðið vandræðalegt ef ég segist vera kristin. Svo fer ég kannski hjá mér ef það nefnir álfa og heilun. Hvað þá ef ég fer eitthvað að nefna Islam og jafnrétti kynjanna.

Frá lokum síðari heimsstyrjaldar hefur fólk eflst í friðarbaráttu og viljað halda fast í áunnin mannréttindi og fenginn sigur í baráttu gegn þrælahaldi. Gleymum því ekki hversu miklir sigrar unnust þar vegna stanslausrar vinnu kristins fólks, sem hafði trúarlegar ástæður til að virða allt fólk.

Sömuleiðis erum við nú, kristið fólk,  sannfært um blessun Guðs og hvatningu til góðra verka. Að lifa blessuð alla daga er ástand sem hvetur til góðs.

Með bestu kveðjum,  Yrsa Þórðardóttir

By |30 maí 2015 20:11|Dagleg trú|

Það sem Jesús sagði um hamingjuna og fullkomnunina

Jesús sagði að við yrðum hamingjusöm og fullkomin með því einu að eiga vináttu sína.  Vertu í mér, þá verð ég í þér.  Ég er frelsari þinn.  Ég elska þig.  Ég dó og reis upp fyrir þig.    Jesús segir okkur að hann gefi okkur sjálfur styrkinn til að taka á móti gæfu hvers dags.  Hann gefur okkur frið hugans til að gera það sem við þurfum að gera og það sem okkur langar til að gera.  Hann gerir okkur mildar og máttugar, hugrakkar og skemmtilegar.  Hann fyrirgefur okkur og endurnýjar okkur.  Hikum ekki, tökum við því og lifum í blessun kristinnar trúar okkur.

Blíðar kveðjur, Auður Eir

By |26 maí 2015 20:10|Dagleg trú|

Postulasagan

 Postulasagan   2. 43 – 47    –  Fyrsti söfnuðurinn  var í Jerúsalem –  þau áttu allt saman og hittust á hverjum degi  í musterinu og heima, borðuðu saman og lofuðu Guð

Postularnir, konur og menn, gera mörg tákn og undur og fólk gengur í kirkjuna.  Þau halda hópinn og eiga allt saman.  Fólk selur eigur sínar og setur í sameiginlegan sjóð.  Þau hittast á hverjum degi í helgidómi Gyðinganna í Jerúsalem og  líka heima þar sem þau brjóta brauð í helgri athöfn til að þakka fyrir upprisu Jesú Krists.  Svo borða þau saman og lofa Guð.  Þau eru vinsæl og Guð bætir daglega nýju fólki í hópinn.

Kærleikssamfélag hópsins

Lúkas skýrir frá þessu einstaka kærleikssamfélagi sem ríkti í fyrsta söfnuðinum.  Þegar kirkjan varð fjölbreyttara samfélag fólks af ólíkum uppruna og skoðunum kom upp ýmis togstreita sem varð að leysa.  Það sést í seinni köflum í Postulasögunni og  bréfunum sem taka við af Postulagsögunni í Nýja testamentinu.   Trúin á Jesúm Krist krossfestan og upprisinn var aldrei véfengd.  Það var hennar vegna sem hópurinn varð til og fólk gekk í hann.  Togstreitan var ekki vegna efasemda um trúna á Krist heldur um trúfesti við gyðingdóminn og um framkvæmdir í starfinu.

By |25 maí 2015 20:52|Dagleg trú|

Og það sem spekingurinn Epiktet sagði um fullkomnunina

Heimspekingurinn Epiktet var fæddur í Litlu Asíu um 50 eftir Krist.  Hann sagði:  Hve lengi ætlar þú að draga það að telja þig verðan æðstu gæða og brjóta í engu gegn tærri skynsemi?  Þú hefur tekið við boðskapnum sem þú átt að haga þér eftir.  Hvaða kennara annars bíður þú til að fela honum uppeldi þitt?  Þú et enginn unglingur lengur, heldur fullvaxinn maður.  ….. Teldu þig verðan þess að lifa sem þroskaður maður og batnandi.  Og allt sem þér virðist best, skal vera þér lög.

Í kristinni trú treystum við því að við verðum verð æðstu gæða fyrir gjöfina sem Jesús gefur okkur í krossinum og upprisunni.  Æðstu gæði okkar er þessi gjöf.  Og látum það ekki dragast að taka á móti henni – svo að við séum verðugar hverrar gæfu sem dagurinn býður okkur.

Með blíðum kveðjum,  Auður Eir

 

By |24 maí 2015 20:09|Dagleg trú|

Postulasagan

Postulasagan 2. 12 – 42    –  Hvítasunnupredikunin var um upprisu Jesú  –  trúið og skírist í nafni Jesú Krists og fáið fyrirgefningu synda ykkar

Sumu aðkomufólkinu fannst  undursamlegt að heyra sitt eigið tungumál en  önnur sögðu að loftstofufólkið hefði fengið sér í tána.  Þá kvaddi Pétur sér hljóðs.  Þetta var fyrsta predikuninni í kirkjunni.  Predikun Péturs var um upprisu Jesú.  Guð leysti Jesúm úr böndum dauðans og reisti hann  upp.  Það hefði aldrei getað gerst að dauðinn héldi honum.  Nú getið þið öll sannfærst um að þessi Jesús sem þið krossfestuð er Kristur.  Trúið því, breytið um hugarfar, skírist í nafni Jesú Krists og fáið fyrigefningu syndanna og gjöf heilags anda.

By |23 maí 2015 20:51|Dagleg trú|

Það sem Konfúsíus sagði meira um leiðir til hamingjunnar

Styrkt hjarta og styrkur hugur hjálpar okkur til að komast yfir þá eftirsjá sem við hljótum að mæta og skissurnar sem við komumst ekki hjá að gera í lífinu.   Hver dagur verður endurfæðing og þú sýnir öðru fólki hvernig á að njóta lífsins.  Ef við erum skýr í hugsun og rausnarleg, hreinskilin og hugrökk er trúlegt að við hljótum margskonar ávinning sem við áttum ekki von á og finnum velvild í garð okkar.

Blíðar kveðjur,  Auður Eir

By |22 maí 2015 20:08|Dagleg trú|

Postulasagan

2. 1 –  13 Tungutalið á hvítasunnunni

Seinna varð annars konar tungutal iðkað sums staðar í nýstofnaðri kirkjunni eins og sést í Korinþubréfinu.  Það er enn talað tungum í sumum hlutum kristinnar kirkju eins og við þekkjum í Hvítasunnusöfnuðinum hér og berum sjálfsagða virðingu fyrir.  En undrið á hvítasunnunni  var einstakt.  Jesús gaf mátt sinn, skilning og kærleika eins og hann hafði lofað.  Svo að fólkið hans gat framkvæmt það sem hann fól því.  Það gat lífað í trúnni á hann, treyst honum í gleði og ofsóknum,  fyllst kjarki og breitt trúna út um alla veröldina.  Undur hvítasunnunnar  gerist þess vegna  líka núna í hvert skipti sem þau sem heyra fagnaðarerindið heyra að það er talað til þeirra.  Og undur hvítasunnunnar endurtekur sig alltaf þegar fólk Krists lifir í vináttu hans.  Heilagur andi  heldur áfram að gefa kristnu fólki sínu mátt, kjark og ást til að lifa í sífellri siðbót.

By |21 maí 2015 20:49|Dagleg trú|