About Arndis

This author has not yet filled in any details.
So far has created 454 blog entries.

Miskunn Guðs varir – tilvitnun í textann í síðustu kveðju

 

Þessi orð minnir okkur á að náð og miskunn Guðs er ný á hverjum morgni.  Þvílík blessun sem við fáum að njóta.  Já trúfesti Guðs við okkur er mikil.  Og á hverjum morgni fáum að dvelja í náð og miskunn Guðs.

Hvern morgun á sér stað upprisa.  Við erum vön því að hugsa einungis um upprisuna í tengslum við líf eftir dauðann, en upprisan er svo miklu dýpra hugtak.  Á hverjum morgni megum við rísa upp á ný í náð Guðs.  Hvern morgun fær birtan að lýsa upp myrkrið.  Hvern morgun gerist kraftaverk.  Guð sjálfur umvefur okkur miskunn sinni.

Með því hugarfari,  að átta sig á að náð Guðs og miskunn er ný á hverjum degi, og með því að rísa upp á hverjum degi til nýs líf með honum, þar sem kraftaverkin gerast, þá verður allt jákvæðara og auðveldara.  Já í samfélaginu við Guð breytast viðhorf okkar því hann umvefur okkur kærleika sínum og náð og gefur okkur von.

Það er yndislegt að vakna að morgni dags og minnast þessa texta og leyfa honum að umfaðma sig og gefa okkur bros á vör.

 

Bestu kveðjur,  séra Hulda Hrönn M. Helgadóttir

By |7 nóvember 2015 21:30|Dagleg trú|

Miskunn Guðs varir

21En þetta vil ég hugfesta

og þess vegna vona ég:
22Náð Drottins er ekki þrotin,
miskunn hans ekki á enda,
23hún er ný á hverjum morgni,
mikil er trúfesti þín.
24Drottinn er hlutdeild mín, segir sál mín,
þess vegna vona ég á hann.
25Góður er Drottinn þeim er á hann vona.  (Harmljóðin 3:21)

Bestu kveðjur,séra Hulda Hrönn M. Helgadóttir

 

By |4 nóvember 2015 21:25|Dagleg trú|

Vakknaðu og klæddu þig í styrk þinn

Hér kemur textinn úr 52. kafla Jesaja og nokkrum fleiri köflum.
Vaknaðu og klæddu þig í styrk þinn,
farðu í fallegu fötin þín, vinkona Guðs.
Óttastu ekki því að hún er hjá þér.
Hún hefur feykt burt mistökum þínum.
Hún hefur skrifað nafnið þitt í lófa sinn.
Hún styrkir þig og gerir þig frjálsa
og gefur þér sínar eigin hugsanir.
Þegar þér finnst þú falla í rúst
gerir Guð þig aftur sterka og tignarlega.

Blíðar kveðjur,  Auður

By |26 október 2015 12:30|Dagleg trú|

Þetta er hreyfilegt

Amma mín í Miðstræti sem var að norðan sagði að föt sem fóru vel væru hreyfileg.  Ég veit ekki hvort það er sérlega norðlenskt orðaval.  En það lýsir fötum sem eru svo vel sniðin að við finnum ekki fyrir þeim en finnum hvað  við  erum flottar og elegant.  Við erum það nefnilega.  Þú ert verulega flott manneskja og eftir því yndisleg á alla lund.  Treystu því nú í dag.  Og á morgun.  Og alla daga.   Í 52. kafla Jesaja stendur í útleggingu Kvennakirkjunnar:  Vaknaðu og klæddu þig í styrk þinn, farðu í fallegu fötin þín, vinkona Guðs.    Óttastu ekki því að hún er hjá þér.
Ég skal birta allan textann næst.

Blíðar kveðjur,  Auður

By |23 október 2015 12:26|Dagleg trú|

Hreybbðu þig svo þú verðir ekki deybbðarleg

Það er talað skemmtilegt mál fyrir norðan en það er því miður á udanhaldi.   Þegar kona fór á spítalann á Húsavík spurði vinkona hennar:  Var hún svæbbð?  Og önnur vinkona svaraði:  Nei, hún var deybbð.  Ég held bara að við tökum stundum betur eftir því sem er sagt á málfari sem við heyrum sjaldan.  Þess vegna sendi ég okkur þessa hvatningu:  Hreybbðu þig svo að þú verðir ekki deybbðarleg.  Það var nefnilega svoleiðis að ég hitti konu að norðan og hún saggði:  Ég held að veturinn verði betri en í fyrra.  Þá hreybbði ég mig svo lítið að mér fannst  stundum eins og ég væri kæbbð.
Hreyfumst og kætumst og fylgjum fordæmi Jesú sem spásseraði eins og ekkert væri um allt sitt heimaland.   Hann saggði að hans fólk skyldi fara út um allan heiminn með fagnaðarerindið.  Það má þá ekki minna vera að við förum með með smáspöl okkur og öðrum til gleði.

Blíðar kveðjur,  Auður

By |20 október 2015 12:25|Dagleg trú|

Kvennakirkjan leiðir guðþjónustu í Mosfellskirkju

Kvennakirkjan leiðir guðþjónustu í Mosfellskirkju sunnudaginn 25. október kl. 11:00. Tilefnið er tvíþætt, Mosfellskirkja heldur uppá 50 ára afmæli sittá þessu ári og öld er liðin frá því að konur fengu kosningarétt. Að guðsþjónustu lokinni flytur Guðrún Ásmundsdóttir, leikkona, leikþátt um hina merku konu Ólafía Jóhannsdóttir sem fædd var á Mosfelli 1863 og konur Kvennakirkjunnar taka þátt. Aðalheiður Þorsteinsdóttir tónlistarstjóri leiðir tónlistina. Sr. Arndís Linn prédikar. Að athöfn og leikþætti loknum býður Lágafellssókn í kaffi í Reykjadal. Kvennakirkjukonur eru hvattar til að leggja leið sína í Mosfellskirkju.

By |20 október 2015 12:17|Fréttir|

Elskum Guð – og þá kemur lífið til okkar

Ég hitti vinkonu okkar á Laugaveginum og við tókumst tali um lífsins gagn og nauðsynjar og auðvitað veðrið sem er þó stór þáttur lífsins gagni.  Hún sagðist vera uppgefin á fréttunumog að sér liði betur þegar hún hlustaði lítið og læsi varla blöðin.

Nú hófust glaðlegar umræður okkar um okkar eigin fréttaskrif. Sem við stóðum í sólargeislunum á Laugaveginum sáum við skýrt  og  greinilega að það er lang best að við sköpum okkar eigin fréttir og af okkar eigin lífi og sjáum sjálfar um að þær séu góðar.  Hvers vegna í ósköpunum ættum við að vera að láta það trufla okkur sem við ráðum hvorki í einu né öðru en annað fólk ráðskast með þótt það komi okkur sumt við en annað ekki?

Okkur þótti auðsætt að við kæmum lífsins gagni og nauðsynjum best með því að ganga okkar eigin veg í gleði og bjartsýni því það hefði best áhrif á allt í kringum okkur.

Hvað segir þú, góða vinkona í Kvennakirkjunni?  Ég sendi okkur þessi gullvægu orð sem Guð sendi okkur í Gamla testamentinu: Veldu lífið.  Þau standa í 5. Mósebók. 30.19.  Og rétt á eftir stendur:  Þú skalt elska Guð, því líf þitt er komið undir því.

Ekki er það flókið.  Við elskum Guð.  Af því að hún elskarokkur.  Og lífið kemur til okkar dag eftir dag í rigningu og sól, erfiðleikum og gleði.  Eins og við höfum alltaf séð.

Blíðar kveðjur, Auður

By |8 október 2015 21:26|Dagleg trú|

Allt sem þær sögðu – Konurnar í Biblíunni – næsta námskeið Kvennakirkjunnar

Námskeiðið í október og nóvember verður um konur í Biblíunni og fyrirmyndina sem þær gefa okkur.  í Biblíunni eru 49 konur nefndar með nafni sem tala. Við þær bætast svo 44 sem tala en hafa ekki nafn.  Hvernig voru þær ? Skiptir máli hvað þær sögðu og Hvað myndu þær  segja núna ?

Séra Arndís G. Bernhardsdóttir Linn stýrir námskeiðinu.

Það verður í stofum okkar í Þingholttstræti 17 á mánudagskvöldum frá 12. október til 2. nóvember, frá klukkan 20 til 21.30

Við borgum 1000 krónur á kvöldi

By |6 október 2015 0:37|Fréttir|

Að vera góð manneskja

Í samfélaginu við Krist Jesú gildir hvorki umskurn né yfirhúð heldur trú sem verkar í kærleika.  (Galatabréfið 5.6)
Það er vinna að vera góð manneskja, það er bara stundum hunderfitt að gera það sem er rétt og maður veit að maður á að gera en það er æfing.  Góð bæn sem ég þarf stundum sjálf að fara með eða þyrfti oftar að fara með er:  ,,Góði Guð, í dag hef ekki talað illa um neinn, ég hef ekki misst móðinn.  Ég hef ekki verið geðstirð, viðskotaill eða sjálfselsk.  En eftir nokkrar mínútur fer ég fram úr rúminu og frá og með þeirri stund þarf ég talsverða hjálp frá þér.  Amen“  Jesús setti mælistiku á allar mögulegar og ómögulegar reglur og það var kærleikurinn og til þess að rækta bæði trúna og kærleikann höfum við ýmsar leiðir.  Gott er að minna okkur á alla daga að miðlum í öllu okkur lífi trú sem verkar í kærleika, vera góð við okkur sjálf og aðra í kringum okkur og þá verum við á réttri leið.  Alla vega reynum, stundum tekst okkur vel upp og stundum ekki en við reynum og Guð styður okkur 100% með því að gefa okkur enn meiri trú sem verkar í kærleika.

Guðbjörg Arnardóttir

By |5 október 2015 10:21|Dagleg trú|

Syngjum á hverjum degi – Messa í Grensáskirkju

Kvennakirkjan heldur aðra guðþjónustu vetrarins í Grensáskirkju, sunnudaginn 11. október kl. 14.00. Athugið að nú höfum við breytt tímanum til 2.  Séra Yrsa Þórðardóttir predikar. Aðalheiður Þorsteinsdóttir stjórnar söng
og tvær söngkonur Kvennakirkjunnar syngja, þær Anna Sigríður Helgadóttir og  Kristín Stefánsdóttir.

Þuríður Magnúsdóttir er kaffimóðir íkaffinu í safnaðarheimilinu. Þær sem sjá sér fært að koma með meðlæti fá alúðarþakkir.

By |4 október 2015 21:34|Fréttir|