Verum okkur verulega vænar
Verum okkur verulega vænar
Nú er haldið upp á hundrað ára afmæli loka fyrra stríðsins. Líka hundrað ára afmæli okkar eigin fullveldis. Og ársins 1918 er minnst fyrir hörmungar spænsku veikinnar, gossins og kuldans. Nálgast það kannski þröngsýni og eigingirni að fara að tala um okkar eigin mál þegar svo mörg stórmál eru rædd?
Við erum alltaf hluti af heildinni. Líka núna. Við njótum góðæris og við gjöldum vonleysis kvíðans og úrræðaleysisins gagnvart honum.
Hvað gerum við? Hvers megnum við? Við megnum nú sem alltaf að taka það í hendur sem við getum. Við megnum að taka okkar eigin daga í okkar eigin hendur eftir því sem okkur er frekast unnt. Það er ekki eigingirni heldur hjálp við það sem stendur okkur næst að taka sjálfar okkur að okkur og sjá allt það góða sem heildin hefur gefið okkur. Að gleðjast og þakka. Þá getum við líka gefið.
Hvað segir þú um þetta? Er ekki best fyrir okkur að vera okkur eins vænar og við getum og treysta því að einmitt þá verði heldur gott að vera samferða okkur um dagana?
Við skulum biðja fyrir þeim sem hafa tekið það að sér að takast á við velferð okkar allra. Bænin er kröftug. Eins og við vitum allar.
Blíðar kveðjur, Auður